Lánasjóður íslenskra námsmanna

79. fundur
Miðvikudaginn 12. febrúar 1992, kl. 14:22:00 (3409)

     Guðrún Helgadóttir :
    Hæstv. forseti. Hinn 5. nóv. í haust fékk ég leyfi til að ræða málefni Lánasjóðs ísl. námsmanna utan dagskrár og stóð sú umræða allan þann dag. Ég held að fullyrða megi að nokkur árangur hafi af henni fengist vegna þess að þegar þær umræður fóru fram voru menn hiklaust að tala um að í frv. til laga um Lánasjóð ísl. námsmanna yrðu endurgreiðslur ekki tekjutengdar. Það er þó svo í þessu frv. og er það vissulega til bóta, enda kemur fram í grg. með frv. ólundarlegur texti þar sem næstum er harmað að ekki skyldi takast að hafa endurgreiðslur ótekjutengdar.
    Um þetta mikilvæga mál mætti að sjálfsögðu segja margt. Ég skal reyna að forðast að endurtaka það sem ég sagði í langri ræðu hinn 5. nóv. sl., en óhjákvæmilegt er að rifja samt ýmislegt af því upp. En fyrst vil ég benda hæstv. forseta á að mjög sérkennilega er kallað til þátttöku í þeirri nefnd sem þetta frv. samdi að lokum. Það er heldur sjaldgæft og var ekki þannig þegar lögin frá 1982 voru sett að einlitur hópur stjórnarliða væri settur til þess verks. Þar áttu að sjálfsögðu allir flokkar sína fulltrúa. Og heldur hefur það nú verið talið farsælla hingað til við gerð slíkra frumvarpa. En það er eins og annað sem þessi ríkisstjórn hyggst breyta að hún ber litla virðingu fyrir því sem stjórnarandstaðan kynni að hafa til málanna að leggja sem oft er nú samt ýmislegt. Ég vil minna á að hæstv. núv. fjmrh. vann mjög gott verk á sínum tíma þegar lögin frá 1982 voru undirbúin og var þó ekki stuðningsmaður stjórnar í þeirri tíð.
    Það er allt á eina bókina lært. Hér er á bls. 101 í frv. birt sérálit frá stúlku og ekkert er nema gott um það að segja. Hún er formaður Vöku en maður hlýtur að spyrja sig, hvers vegna í ósköpunum var ekki leitað til hinna samtakanna í Háskólanum þar sem, ef ég man rétt, félögin hafa jafna tölu í stúdentaráði. Það leiðréttir mig þá einhver, en mig minnir að það sé um jafnan styrkleika að ræða. En það er sama hvaðan gott kemur og eflaust er formaður Vöku hinn ágætasti fulltrúi og ég ætla þess vegna að leyfa mér að lesa það sem hún segir í upphafi sérálits síns, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Þann 8. nóv. skipaði menntmrh. nefnd til að endurskoða lög um Lánasjóð ísl. námsmanna. Undirritaðri bauðst óvænt sæti í þeirri nefnd sem ég þáði í þeirri trú að hlutverk nefndarinnar væri að reyna að sætta þau sjónarmið sem fram höfðu komið um breytingar á sjóðnum frá áðurskipaðri ráðherranefnd annars vegar og námsmönnum hins vegar. Sú trú reyndist á misskilningi byggð. Í stuttu máli sagt var lítið sem ekkert tillit tekið til hugmynda námsmanna og það frv. sem meiri hluti hennar stendur að er að mestu óbreytt frá hugmyndum fyrri nefndarinnar. Af þeim sökum sé ég mér ekki fært að standa að því frv. og skila því þessu séráliti.
    Námsmenn hafa aldrei farið leynt með það að þeir séu sáttir við núgildandi lög um LÍN. Það er því af illri nauðsyn sem þeir ljá máls á breytingum á þeim, en námsmenn gera sér fulla grein fyrir þeim vanda sem sjóðurinn stendur frammi fyrir. Ég tel lykilatriði varðandi allar breytingar að tryggt sé jafnrétti til náms óháð efnahag og að námsmönnum sé gefið svigrúm til að koma undir sig fótunum eftir að námi lýkur áður en endurgreiðslur hefjast af þunga.``
    Þetta er hluti af séráliti Elsu B. Valsdóttur, formanns Vöku. ( Menntmrh.: Það væri nú gott að heyra aðeins meira lesið.) Ef hæstv. ráðherra óskar eftir að ég lesi allt sérálitið, þá skal það gert. ( Menntmrh.: Nei, bara út þennan kafla.) Ég skal lesa út þennan kafla. Ég held þá áfram, með leyfi hæstv. forseta: ,,Fyrir liggur að ríkisframlagið á ekki að verða hærra en 2,2 milljarðar næstu árin þó þörfin sé langt umfram það eins og fram kemur í niðurstöðu meiri hluta nefndarinnar. Lækka má þessa fjárþörf á eftirtalda vegu:
    1. Herða endurgreiðslur (sjá tillögur Vöku í þeim efnum.)
    2. Láta endurgreiðslur hefjast tveimur árum eftir námslok í stað þriggja.
    3. Fella niður lífeyrissjóðsgreiðslur.
    4. Leggja á lántökugjald.
    5. Láta lánþega greiða kostnað við innheimtu.
    Það er ljóst að þessar aðgerðir draga allar verulega úr fjárþörfinni en ekki sem nemur því marki sem ríkissjóður vill ná. Námsmenn eru engu að síður að taka á sig verulegar kjaraskerðingar.``
    Þannig hljóðar þessi texti. Um þessi fimm atriði sem formaður Vöku minnist á var ekki samkomulag meðal stúdenta eins og af sjálfu leiðir. Það eina sem allir voru sammála um var að það mætti fella niður lífeyrissjóðsgreiðslur úr þessu vegna þess að þau mál hafa breyst í þjóðfélaginu. Þau voru mjög nauðsynleg þegar menn gátu ekki fengið lán úr lífeyrissjóði fyrr en fimm árum eftir heimkomu eins og einu sinni var og því var mjög gott að hafa þessar lífeyrissjóðsgreiðslur af námslánum en þær eru óþarfar núna og um það eru allir sammála. Stúdentar eru hins vegar mjög ósammála um það hvort leggja eigi á lántökugjald einmitt vegna þess að hér er ekki um nein venjuleg lán að ræða eins og ég er alltaf að reyna að segja í þessum stóli. Menn eru ekki að fjárfesta fyrir sjálfa sig þegar þeir taka námslán. Þjóðfélagið er að

lána þeim framfærslueyri á meðan þeir eru að fjárfesta í menntun sinni fyrir samfélagið allt. Þess vegna eiga ekki sömu reglur við um þessi lán eins og vissulega er viðurkennt að hluta í þessu frv.
    En það er margt skrýtið og skondið þegar fylgst er með flumbrulegum aðgerðum þessarar ríkisstjórnar sem virðast breytast daga á milli. Á sama tíma og hæstv. menntmrh. er að leggja fram frv. þar sem lánasjóði er heimilt að veita öðrum námsmönnum námslán en þeim sem falla undir skilgreiningu 1. gr., enda hafi þeir náð 20 ára aldri, þá les ég það í blöðum bæjarins að nú eigi að stytta tímann til stúdentsprófs niður í jafnvel 17 ár. Ég hlýt að spyrja hæstv. ráðherra, sé þetta hugmyndin og við fáum það næst á borðið hjá okkur, hvað á þá að gera við þetta fólk á aldrinum 17--20 ára? Ég held að menn verði að reyna að hugsa hlutina svolítið í samhengi.
    Það sem er auðvitað meginatriði er það sem fram kemur í ræðu Sveinbjörns Björnssonar háskólarektors við brautskráningu núna 1. febr. sl. En þar segir hann, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Háskólinn mun ekki skorast undan því að taka á sig sömu byrðar og almennt eru lagðar á aðrar ríkisstofnanir með þessum fjárlögum. Hann hefur því enn hert reglur um hagræðingu og sparnað og mun á næstunni leita álits deilda hvaða kennslu þær telja sig geta frestað eða lagt niður. Einnig er óhjákvæmilegt að dregið verði úr þeirri þjónustu sem Háskólinn veitir sínum nemendum og nemendum margra annarra skóla og hefur í mörgum tilvikum tekið að sér fyrir beiðni ráðuneytis.``
    Síðan segir rektor, með leyfi hæstv. forseta, um lánasjóðsfrv. það sem nú liggur fyrir:
    ,,Það beinir huganum að Lánasjóði námsmanna en frv. um hann verður á borðum Alþingis á næstu dögum. Þar ætti að vera ljóst að samúð Háskólans er með málstað stúdenta og við treystum því að allt það svigrúm sem stjórnvöld hafa til að treysta fjárhagsgrundvöll sjóðsins verði nýtt og innan þess ramma sem sjóðnum er settur verði fyllsta samráð haft við stúdenta um skynsamleg lánskjör og endurgreiðslur svo sem menntmrh. hefur reyndar þegar gefið fyrirheit um. Þar hlýtur framsýni að ráða gerðum með það að markmiði að sjóðurinn veiti tækifæri til náms óháð efnahag líkt og verið hefur.
    Sem dæmi um áhyggjuefni mætti nefna að verði hugmyndir frv. um vexti og endurgreiðslur að lögum er líklegt að engir námsmenn sem þurfa að taka lán til náms telji sig hafa efni á að nema í þeim löndum sem krefjast skólagjalds, en það á einkum við Bandaríkin og Bretland. Nú mun þriðjungur stúdenta í framhaldsnámi vera í Bandaríkjunum. Þótt tengsl okkar við Norðurlönd og Vestur-Evrópu séu mikilvæg getur varla talist ráðlegt að skera svo á bönd við Bandaríkin og önnur enskumælandi lönd að þar geti aðeins stundað nám þeir sem eru svo vel efnaðir að þeir þurfa ekki á aðstoð lánasjóðs að halda.``
    Hér kemur rektor auðvitað að kjarna málsins. Til þess voru lögin um Lánasjóð ísl. námsmanna sett, eða lögin um námslán og námsstyrki eins og þau hétu, að sjá svo til að efnahagur íslenskra fjölskyldna yrði ekki til að mismuna mönnum til náms eins og við öll auðvitað urðum fyrir á sinni tíð. Ég get talað þar af eigin reynslu þar sem háskólanám gat ekki hugsanlega komið til greina. Þess vegna er það skylda okkar að verja þessa mestu kjarabót sem fátækt fólk á Íslandi hefur fengið fyrr og síðar, þ.e. réttinn til að mennta börnin sín eftir hæfileikum þeirra en ekki eftir efnahag. Þessa grunnhugmynd verðum við auðvitað að verja til síðasta manns hér á hinu háa Alþingi og það gleður mig satt best að segja að eitthvert uml hefur nú heyrst frá herbúðum alþýðuflokksmanna um að þeir kyngi ekki öllu því sem hér stendur og ber að fagna því og er vonandi að það komi í ljós þegar málið verður unnið í nefnd.
    Við eru nefnilega ekkert að tala um neinn fátækling þar sem Lánasjóður ísl. námsmanna er. Það hefur margkomið fram og ég hef marggetið um það hér í mínu máli í þingsölum að Ríkisendurskoðun skýrði frá því í skýrslu frá því í apríl 1991 að lánasjóðurinn geti staðið undir öllum núverandi skuldbindingum með eigin fé sínu og ég er hrædd um að það sé meira en segja má um marga aðra sjóði í landinu. Og þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Ef sjóðnum hefði verið lokað í árslok 1990 gæti hann staðið við allar sínar skuldbindingar án þess að þurfa á frekari ríkisframlögum að halda. Þar að auki gæti sjóðurinn endurgreitt ríkissjóði á nafnvirði rúma 9 milljarða af eigin fé sínu sem var rúmlega 13 milljarðar kr. um síðustu áramót.``
    Ef þessir 9 milljarðar eru færðir til núvirðis miðað við 6% ávöxtunarkröfu verður útkoman 3 milljarðar kr. Lánasjóður ísl. námsmanna þarf þess vegna ekki þau stóru og miklu fjárframlög sem hann hlýtur að verða að krefjast um þessar mundir um alla tíð. Sjóðurinn verður einfaldlega að fá frið til þess að verða sjálfum sér nógur með endurgreiðslum og ég býst við að það sé sönnun þess að námsmenn hafa sætt sig við endurgreiðslufyrirkomulagið að um 90% gjaldfallinna skulda við sjóðinn eru í skilum og það er líka miklu hærri upphæð en almennt gerist um slík langtímalán. Og við skulum ekki gleyma því að lán úr Lánasjóði ísl. námsmanna eru fyrstu fjárskuldbindingar í landinu sem voru verðtryggðar þannig að Lánasjóður ísl. námsmanna er enginn fátæklingur. Við vissum sem í nefndinni sátum, sem sömdum þessi lög, að það mundi verða þörf á miklum fjárframlögum frá ríkinu fyrstu tíu árin. Fram hjá því hefur hins vegar verið farið á ýmsa lund og á þessum árum, þessum tíu árum síðan lögin voru sett hafa framlög ríkisins verið frá 50% upp í 90% af fjárþörf. Það segir sig auðvitað sjálft að þegar stjórnvöld hafa kosið að siga sjóðnum í lántökur í stað þess að veita til hans því fé sem til þurfti, þá verður auðvitað vaxtamismunur sem nú mun vera líklega um það bil 6% þar sem námslán hafa ekki borið vexti en lánin hafa auðvitað borið háa vexti. Síðan hefur það gerst sem enginn gat séð fyrir að miklu fleiri aðilum hefur verið hleypt að sjóðnum og er ekkert nema gott um það að segja og námsmönnum hefur stórlega fjölgað. En sá tími mundi koma innan næstu ára ef menn rækju sjóðinn skynsamlega að hann færi að standa gjörsamlega á eigin fótum og

hefði svo gæfulega farið, þá vil ég segja við hæstv. menntmrh. að þá væru Íslendingar búnir að koma sér upp besta námslánakerfi í veröldinni. Og þess vegna vil ég nú taka undir með formanni Vöku að best hefði verið að láta sjóðinn í friði.
    Ég held að engir Íslendingar deili um það að menn vilja jafnrétti til náms og menn vilja þrátt fyrir allt sjá svo til að þessi sjóður skili því hlutverki sem hann á að skila. Því miður var það lengi svo að heyra mátti urg í garð sjóðsins eins og hv. 7. þm. Reykn. tók fram hér áðan og þá ekki síst frá þeim sem síst skyldi, þ.e. verkalýðshreyfingunni í landinu. Sú tíð er sem betur fer liðin og ég held að þar á bæ séu menn búnir að uppgötva hver kjarabót það er fyrir íslenskar fjölskyldur að samfélagið líti svo á að menntun þeirra sé sameign alls samfélagsins.
    Það mætti leita fanga víða, en aðeins vegna þess sem hv. 7. þm. Reykn. sagði um menningarástandið og menntunarástandið í Bandaríkjunum. Einn merkasti og þekktasti skólamaður íslenskur utan lands, Sigurður Helgason, stærðfræðingur í Boston, sagði mér á sl. sumri að ástandið í MIT væri orðið þannig að 40% stúdenta við þann góða skóla væru útlendingar og stór hluti þeirra Japanir. Og af hverju er þetta? Sigurður Helgason var ekki í nokkrum vafa um hvers vegna: Það er búið að brjóta niður menntakerfið í Bandaríkjunum. Grunnskólakennslan er slök, framhaldsskólakennslan er enn þá slakari og nú verða menn að grípa til þess ráðs að kaupa menntað fólk annars staðar frá til þess að mennta í háskólunum í þeirri von að það síðan setjist að og samfélagið njóti starfskrafta þess sem sjálfsagt væri það æskilegasta fyrir það.
    Við njótum mörg góðs af því raunar að efnilegir námsmenn eru kostaðir af Bandaríkjamönnum við bandaríska háskóla og ég vil þess vegna ítreka spurningu hv. 7. þm. Reykn.: Hvernig er þetta hugsað? Nú höfum við reynt það að námsmenn, sem hafa ókeypis skólagjöld og nokkur laun fyrir kennslu þar í landi og stunda nám við háskóla, hafa nú lokið sínu MS- eða MA-prófi og leggja svo út í doktorsritgerðarskrif. Hvernig á maður sem er tvö til þrjú ár að skrifa doktorsritgerð um flókið efni að sanna lánasjóðnum að hann sé nú raunar að gera eitthvað af viti? Ég átta mig ekki alveg á hvernig á að ganga eftir því þannig að það sé alveg skýrt og ég vil bæta því við spurningu hv. 7. þm. Reykn. um læknana.
    Herra forseti. Ég ætla aðeins að koma hér inn á örfá atriði í sambandi við þær meginbreytingar sem hér er verið að gera og vil enn og aftur ítreka endurgreiðsluákvæðin. Það verður að vera dagljóst hver staðan er gagnvart öðrum atriðum --- og nú rann loksins upp ljós fyrir formanni þingflokks Alþfl. ef marka má orð hans í fréttum í fyrrakvöld. ( Gripið fram í: Það er stöðugt ljós yfir honum.) Það er nú hin mesta týra á stundum, en alla vega benti ég á það strax í upphafi umræðu um þetta frv. og áður en það kom til raunar að ef þessi endurgreiðsluskilyrði verða látin fram ganga, þá geta námsmenn að loknu námi hætt að hugsa um að komast inn í húsbréfakerfið. Og ég vil spyrja hæstv. menntmrh.: Hvar á þetta fólk að búa úr því að það á nú að refsa því fyrir að hafa verið að leggja það á sig að læra? Það vill svo til að að öllum líkindum þurfa námsmenn og fjölskyldur þeirra einhvers staðar að búa og það hlýtur þá að vera stefna yfirvalda að þeir leiti á rándýran leigumarkað vegna þess að þeir munu hafa of þunga greiðslubyrði til að vera gjaldgengir í húsbréfakerfið eins og hv. þingflokksformaður Alþfl. loksins skildi og ber að fagna því. ( Gripið fram í: Skildi mjög fljótlega.) Það held ég að sé ekki rétt.
    Ég vil endurtaka spurningu mína um 20 ára viðmiðunina og spyrja hvers þeir eiga að gjalda sem hespa nú sitt nám af miklu fyrr. Jafnvel í óbreyttu kerfi eru þess dæmi að menn hafi lokið stúdentsprófi 17 ára gamlir og ég vil spyrja: Hvers eiga þeir að gjalda ef þeir fara í nám sem ekki nákvæmlega tilheyrir 1. gr. frv. að þurfa að bíða í þrjú ár?
    Er við komum að 5. lið í upptalningunni í grg., þá vil ég líka spyrja: Hvað þýðir setning eins og þessi: ,,Felld verði niður öll ákvæði um námsstyrki en gert ráð fyrir að Vísindasjóður verði efldur til þess að veita námsstyrki``?
    Ég hef áður gert Vísindasjóð að umræðuefni hér og hef gagnrýnt hvar hann er niður kominn í þjóðfélaginu. Ég hef aldrei talið minnstu ástæðu til þess að Seðlabankinn væri að vasast í Vísindasjóði. Þá ræðu ætla ég ekki að hefja hér, en það getur vel verið að ég taki hana upp aftur að þessu gefna tilefni. Það er auðvitað ekki hægt að breyta lögum um Lánasjóð ísl. námsmanna með því að gera ráð fyrir að Vísindasjóður verði efldur. Það má alveg eins segja að við vonum öll að það rætist úr efnahag þjóðarinnar eða eitthvað álíka. Það er svona álíka handfast.
    Áttundi liðurinn, að gera kröfu um tvo ábyrgðarmenn í stað eins. Ég dreg það stórlega í efa að námsmönnum gangi vel að fá tvo ábyrgðarmenn. Hingað til hafa auðvitað bæði ég og aðrir skrifað upp á námslánabréf upp á milljónir einfaldlega vegna þess að hingað til hefur það verið formið eitt, eða ég hef svo skilið, og meira til þess að lánasjóðurinn hafi einhvern tengilið við námsmanninn hvar sem hann er nú niður kominn í heiminum. Með því að einhver skrifar upp á þetta sé einhver sem geti sagt hvar maðurinn er. En að nokkrum lifandi manni hafi nokkurn tíma dottið í hug að við værum ábyrg fyrir þessum peningum, það held ég ekki, og ég veit það raunar af reynslu af margra ára starfi mínu við Tryggingastofnun ríkisins. Hafi svo sorglega farið að ungir menn sem lokið höfðu námi hafi látist, þá hafa þessar skuldir að sjálfsögðu verið felldar niður og verða aldrei borgaðar, þó það nú væri. Og hefur það þótt alveg sjálfsagt og verið auðsótt mál. En því á kannski að breyta líka. Það væri reyndar ástæða til að spyrja: Mega þeir sem hafa skrifað undir þessa milljarða sem nú liggja úti í skuldum námsmanna eiga von á því að verða að borga þær skuldir ef eitthvað kemur fyrir námsmanninn? Ég leyfi mér eiginlega að svara mér sjálf: Ég held að það geti ekki komið til greina. En ég held að á þessum síðustu og verstu tímum sé fólk gætnara

og raunar hefur verið lagt mjög að fólki að skrifa ekki undir fjárhagsskuldbindingar þannig að ég er ekkert viss um að það verði auðvelt fyrir námsmenn að fá tvo menn í ábyrgð fyrir þeim peningum sem þarna er um að ræða.
    Ég ítreka vegna tíunda liðar hvernig námsmenn eiga að sýna fram á að þeim miði eðlilega við ritun doktorsritgerðar eða einhverra slíkra langtímaverkefna sem erfitt er að sanna að séu nákvæmlega á réttu róli.
    Herra forseti. Ég skal nú reyna að fara að stytta mál mitt og vísa til 4. heftis þingtíðinda, sem ég veit að menn lesa með mesta áhuga, til ágætrar ræðu minnar 5. nóv. sl. og mér er heldur illa við að vera að endurtaka ræður mínar oft í þingtíðindum. En ég hlýt að minnast hér aðeins á það atriði sem mér finnst ógnvænlegt í þessu frv. og það er það vald sem er lagt í hendur stjórnarinnar. Að stjórnin eigi að meta til hvers skuli tekið tillit við aðstæður þeirra fjölskyldna sem þurfa á lánum að halda finnst mér fyrir neðan allar hellur og nauðsynlegt að sem allra samræmdastar reglur séu settar um þá hluti. Auðvitað eins og í öllu mannlegu lífi verða ýmis tilvik í lífi þessa fólks. Ég þekki t.d. dæmi um námsmann í Bandaríkjunum hvers kona er þar auðvitað með honum en er að skrifa cand. mag.-ritgerð hér við Háskóla Íslands og gerir það í Bandaríkjunum. Við öllum slíkum tilvikum verður að bregðast og það verða að vera til einhverjar meginreglur um hluti sem þessa því að það verður víst aldrei of oft sagt að við skulum hætta að tala um námsmenn eins og einhverja unglinga sem búa í heimahúsum og geta bara legið uppi á pabba og mömmu. Námsmenn eru fólk, oft hátt á þrítugsaldri, komnir með fjölskyldur og börn, og varla stendur til að banna þeim það, þannig að umræðan sem oft vill verða hér í sölum að það þurfi ekkert að taka lán, það eigi að draga úr áhuga manna á lánum og það hefur hæstv. menntmrh. sagt, hvað þýðir það? Það hlýtur að þýða að það dragi úr því að menn fari í nám. Menn geta kannski á fyrsta og öðru ári í háskóla haft einhvern stuðning af fjölskyldum sínum en síðan vill nú þetta unga fólk fara að búa út af fyrir sig eins og eðlilegt er, enda oft komið með maka og jafnvel börn. Því lengra sem líður á námið, því algengara verður það. Og það er ekkert eins fáránlegt og að heyra hér endalaust klifað á að bílafloti námsmanna fyrir utan Háskóla Íslands sé dæmi um þessa dæmalausu velmegun sem menn búa við ef þeir njóta lána úr Lánasjóði ísl. námsmanna. Ég spyr: Hvers vegna skyldu þessar fjölskyldur ekki þurfa á bílum að halda eins og aðrar fjölskyldur? Það er alveg jafnerfitt að keyra börnin þeirra kannski bæinn þveran og endilangan til dagmæðra og dagvistarstofnana eins og börnin okkar. Þetta fólk þarf að lifa nákvæmlega eins og aðrar fjölskyldur þannig að þessi umræða er auðvitað fráleit. Í mörgum tilvikum erum við að tala um fólk sem er orðið 26, 27 eða 28 ára gamalt. Þeir sem eiga oft erindi á hjónagarðana hér rétt hjá okkur mæta þar á göngum börnum allt upp í 10 ára aldur. Og hvers eiga þessi börn að gjalda ef ekki er hægt að þjóna þeim eins og við viljum þjóna okkar öðrum börnum? Ég held því að hér verði að verða veruleg breyting á þessari umræðu.
    Það er svo sem hægt að láta hér lokið máli. En það verður aldrei of oft sagt að það er skylda Alþingis Íslendinga að tryggja jafnrétti til náms, vegna þess að ef þetta musteri lýðræðisins og frelsisins í landinu á ekki að sjá um grundvallarmannréttindi eins og jafnrétti til náms, þá veit ég ekki til hvers það er. Og ég skora á hæstv. menntmrh. og Alþingi allt að setjast nú niður í vinsemd og með skilningi á því máli sem hér um ræðir og í samvinnu við alla pólitíska aðila, því að þetta mál á ekki að vera flokkspólitískt eins og því hefur verið haldið hingað til, og viðkomandi nefnd vinni vel að þessu máli, breyti því á þann veg að þeirri mismunun sem hér er stefnt að verði útrýmt svo ekki verði um villst.