Lánasjóður íslenskra námsmanna

79. fundur
Miðvikudaginn 12. febrúar 1992, kl. 15:05:00 (3411)

     Guðrún Helgadóttir (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég hlýt að leiðrétta þessa útreikninga hv. 3. þm. Reykn. á endurgreiðslum á Norðurlöndum. Hann gleymdi einu mjög mikilvægu atriði: endurgreiðslur námsmanna eru dregnar frá skatti. Fólk greiðir miklu minni almenna skatta á meðan það er að greiða námslánin til baka þannig að þessi útreikningur er með öllu ómerkur. Auk þess sem menn eru náttúrlega að greiða upp miklu lægri upphæðir vegna þess að miklu meiri hluti af þessum framlögum eru styrkir og þar af leiðandi óafturkræfur. Ég vildi bara koma þessu á framfæri. Ég get því miður ekki sagt alveg hárnákvæmlega frá þessum skattaútreikningi en ég kynntist þessu mjög vel hjá norrænum stúdenti sem hér býr og reyndi að fá sams konar þjónustu hér að þetta yrði dregið frá skatti en það gekk að sjálfsögðu ekki.
    Ég vil hins vegar minnast á eitt sem minnir mig nú dálítið á þá vini mína í Sovét austur þegar verið er að tala um að menn skuli huga að því hvernig framtíðin arti sig og velja sér námsefni eftir því. Sú var tíðin að allar kerlingar í Sovétríkjunum voru reknar í læknisfræði sem varð auðvitað til þess að þar hrundu síðan laun lækna niður í ekki neitt. En þvílík hugmyndafræði, svo öllu gríni sé nú sleppt, að menn hugsi í peningum þegar þeir ákveða hvað þeir ætla að læra. Ja, ég er hrædd um að ef margir hefðu hugsað þannig gegnum tíðina þá væri ástandið í heiminum einkennilegt. Það kynni að vera að menn hefðu þá ekki verið að potast yfir einhverjum undarlegum spekúlasjónum sem urðu síðan að merkum uppgötvunum sem við öll njótum góðs af, og leið oft langur tími frá því að slíkt var sett á prent og þangað til það kom í brúk. Nægir að nefna bók sem ég man nú því miður ekki hvað heitir, sem skrifuð var um skammtafræði einhvern tímann fyrir síðustu aldamót. Og einhvern tímann sá ég það einhvers staðar að 13 menn í Bretlandi hefðu verið taldir hafa lesið þessa bók. En þau fræði sem þar voru eru nú einu sinni undirstaða allrar tölvufræði í heiminum þannig að sennilega var það ekki alveg vitlaust að skrifa það ágæta rit. Ég vona því að menn haldi áfram þrátt fyrir þessa hugmyndafræði hv. 3. þm. Reykn. að fara í æðri stæðrfræði, málvísindi, í fornleifafræði og hvað annað sem ekki er þekkt af því að gera menn ríka.