Ferð forsætisráðherra til Ísraels

79. fundur
Miðvikudaginn 12. febrúar 1992, kl. 15:32:00 (3415)

     Páll Pétursson :
    Frú forseti. Frásagnir hafa borist af því að hæstv. forsrh. sé á förum til Ísraels í opinbera heimsókn. Nú vil ég ekki hefta ferðafrelsi hæstv. forsrh. Vissulega er að því sjónarsviptir ef hann yfirgefur landið um sinn en ekki er hann ómissandi hér heima. En það er ákvörðunarstaðurinn sem ég vil gera athugasemd við. Ég geri ráð fyrir að hæstv. forsrh. hafi borist mörg boð frá öðrum þjóðum um að koma í opinberar heimsóknir og margar þjóðir hljóta að standa málþola eftir því að fá að fagna svo tignum gesti. Það er forgangsröð þessara heimsókna sem vekur athygli mína. Nú hef ég í sjálfu sér ekkert á móti ísraelsku þjóðinni, það ber ekki að skilja orð mín svo, hún er mikillar virðingar verð. Íslendingar studdu ríkisstofnun Ísraelsmanna á sínum tíma. En framkoma ríkisstjórnar Shamirs við Palestínumenn á hernumdu svæðunum er tvímælalaust mjög ámælisverð. Íslendingar hafa í seinni tíð reynt að leggja undirokuðum þjóðum lið þar sem þeir hafa haft tækifæri til og stutt frelsisbaráttu þeirra og tekist að hafa heilladrjúg áhrif á alþjóðavettvangi. Íslendingar hafa öðlast virðingu annarra þjóða fyrir þetta.
    Val hæstv. forsrh. á gestgjöfum og gistilandi er ekki í samræmi við þá utanríkisstefnu sem Íslendingar hafa fylgt í seinni tíð og því spyr ég hæstv. forsrh.: Hefur ríkisstjórn Íslands breytt um utanríkisstefnu? Ber að skilja heimsókn hæstv. forsrh. til Ísraels svo að ríkisstjórn Íslands sé hætt að styðja frelsisbaráttu undirokaðra þjóða?
    Þá er rétt að íhuga hvaða áhrif heimsókn hæstv. forsrh. kynni að hafa á stjórnvöld í Ísrael. Undanfarna mánuði hafa þjóðir heims og þó einkum Bandaríkjamenn reynt að þröngva Ísraelsmönnum að samningaborði í því skyni að fá þá til samninga við Palestínumenn. Ég tel að það sé óhjákvæmilegt að líta svo á að heimsókn hæstv. forsrh. til Ísraels sé viðurkenning íslensku ríkisstjórnarinnar á að stefna ísraelsku ríkisstjórnarinnar hafi verið rétt, þ.e. að þrjóskast við að taka upp samninga og ég tel mikla hættu á að hún verði til þess að þeim aukist þvermóðska fremur en hitt.