Ferð forsætisráðherra til Ísraels

79. fundur
Miðvikudaginn 12. febrúar 1992, kl. 15:40:00 (3417)

     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir :
    Frú forseti. Eins og sá þingmaður sem hóf þessa umræðu hlýt ég að lýsa yfir furðu minni á vali hæstv. forsrh. á gestgjöfum og eins á tímasetningu þessarar heimsóknar hans til Ísraels. Ég get heldur ekki látið hjá líða að tengja saman ferð forsrh. til Ísraels til að heimsækja hinn víðfræga Shamir og þá samþykkt ríkisstjórnarinnar sem ég held að hafi verið gerð í gær að afnema viðskiptabann á Suður-Afríku. Hvort tveggja finnst mér bera utanríkisstefnu þessarar ríkisstjórnar afskaplega dapurt vitni. Í báðum tilvikum er um að ræða ríki sem byggjast á aðskilnaði kynþátta og það er verið að heiðra þessi ríki, Ísrael í þessu tilviki, og verið að milda afstöðuna til Suður-Afríku. Í rauninni finnst mér heimsóknin sýnu verri vegna þess að við höfum séð jákvæða þróun vera að gerast í Suður-Afríku og hún hefur ekki síst gerst vegna viðskiptabannsins þó enn vanti talsvert upp á. Í Ísrael hins vegar er mannúð ekki hátt skrifuð og öll samfélagsgerð þar er gegnsýrð af kynþáttaaðskilnaði og þá á ég bæði við félagslega og lagalega.
    Það stakk mig í svari hæstv. forsrh. áðan að hann talaði um að það væri mikilvægt að öryggi ísraelsku þjóðarinnar væri tryggt. Hver er hin ísraelska þjóð? Ísrael er nefnilega ekki þjóðríki, lýðræðislegt þjóðríki í hefðbundnum skilningi, því þetta er ríki gyðinga og þar kemur aðskilnaðurinn inn. Það er grundvallaratriði í þessu máli. Þegar hæstv. forsrh. talar um hina ísraelsku þjóð, um hverja er hann þá að tala? Er hann að tala um fólkið sem byggir þetta land, og þá væntanlega líka Palestínuaraba, eða á hann við gyðingana sem byggja hið gyðinglega ríki?
    Hann sagði líka að hann viðurkenndi ekki og það fælist ekki í þessu nein viðurkenning á yfirtöku Ísraels á herteknum svæðum. Mér skilst að hæstv. forsrh. ætli að hitta Shamir í Jerúsalem og Jerúsalem er hernumin borg. Samkvæmt samþykktum Sameinuðu þjóðanna frá 1947 þá á Jerúsalem að vera alþjóðleg borg sem Ísraelsmenn eða hersveitir zíonista hertóku. Mér finnst felast bara í þessu, ef rétt er og nú spyr ég forsrh., ef rétt er þá finnst mér felast í þessu ögrun.
    Að lokum vil ég spyrja: Ætlar hann að hitta friðarhreyfingar? Ætlar hann að hitta frammámenn PLO? Ætlar hann að skoða herteknu svæðin og þá undir leiðsögn þeirra sem þar stjórna? Hver er meiningin með þessari ferð?