Ferð forsætisráðherra til Ísraels

79. fundur
Miðvikudaginn 12. febrúar 1992, kl. 15:48:00 (3420)

     Steingrímur Hermannsson :
    Virðulegi forseti. Hæstv. forsrh. líkti opinberri heimsókn sinni til Ísraels við þá óopinberu heimsókn sem ég gerði til Arafats í Túnis. Ég vil leyfa mér að halda því fram að þarna sé um mjög ólíkt að ræða. Í opinberri heimsókn felst viss viðurkenning og stuðningur við viðkomandi ríki. Það er um allt annað mál að ræða. Ég hefði ekki treyst mér, ég vil láta það koma hér fram, til að fara í opinbera heimsókn til Arafats. Ég hefði talið það óviðeigandi, jafnvel þrátt fyrir yfirlýsingu Alþingis um góðan vilja til palestínsku þjóðarinnar. En ég tel að þarna sé um slíkar deilur að ræða og yfirgang og þó hann sé jafnvel enn opinberari af hálfu Ísraelsmanna en Palestínumanna þá hygg ég að hann sé nokkuð á báða bóga. Ég tel því þessa heimsókn afar vafasama eins og nú er ástatt.
    Ég tek undir það með hæstv. forsrh. að við styðjum vitanlega Ísraelsmenn eins og við höfum ætíð gert í viðleitni þeirra til að tryggja sitt öryggi og sína framtíð. En við hljótum að áfellast þá mjög fyrir þann hrottaskap sem þeir hafa óumdeilanlega sýnt undirokaðri þjóð Palestínumanna. Það eru fjölmörg vitni að því og staðfestingar á því að það hljótum við að gagnrýna mjög. Mér sýnist að opinber heimsókn við þessar aðstæður sé vægast sagt afar vafasöm.
    Ég vil gjarnan spyrja hæstv. forsrh. að því hvort hann muni í þessari heimsókn leggja áherslu á það grundvallaratriði í utanríkisstefnu okkar Íslendinga að viðurkenna sjálfsákvörðunarrétt þjóða. Það var á þeirri forsendu sem við viðurkenndum sjálfstæði Eystrasaltsríkjanna og Slóvakíu og Króatíu. Er ekki satt að segja komin ástæða til að spyrja hvort ekki beri að viðurkenna sjálfsákvörðunarrétt palestínsku þjóðarinnar? Er þar mikill munur á?