Ferð forsætisráðherra til Ísraels

79. fundur
Miðvikudaginn 12. febrúar 1992, kl. 15:50:00 (3421)

     Kristín Einarsdóttir :
    Virðulegur forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Páli Péturssyni fyrir að hefja þessa umræðu. Ég lýsi andstöðu minni við það að hæstv. forsrh. skuli fara í opinbera heimsókn til Ísraels, sérstaklega undir þeim kringumstæðum sem þar ríkja nú. Ég tel að með því sé hann með vissum hætti að leggja blessun sína yfir þau óhæfuverk sem Ísraelsmenn hafa unnið og þá ekki síst núna síðustu ár. Þær lýsingar sem mannréttindasamtökin Amnesty International hafa birt í skýrslu sinni um það sem þarna er að gerast eru með þeim hætti að manni verður flökurt af að lesa það sem þar stendur. Palestínumenn eru hnepptir í fangelsi, þeir eru píndir og pyndaðir þannig að augljóst er að mannréttindi eru ekki hátt skrifuð í Ísrael.
    Hæstv. forsrh. lagði áherslu á það að Íslendingar hefðu viðurkennt tilverurétt Ísraelsríkis. Það er alveg rétt en Ísland hefur ekki enn viljað viðurkenna tilverurétt Palestínuríkis. Hvers vegna ekki? Telur ekki forsrh. að tími sé kominn til þess að við gerum það?
    Ég tel alls ekki við hæfi að forsrh. taki sér ferð á hendur til Ísraels nema þá ef hann með þeirri heimsókn ætlar að lýsa yfir andstöðu Íslendinga við það sem þar er að gerast sem og að leggja áherslu á

það að Íslendingar vilji viðurkenna tilverurétt Palestínuríkis sem er í samræmi við ályktun sem samþykkt var hér á Alþingi fyrir nokkrum árum.