Ferð forsætisráðherra til Ísraels

79. fundur
Miðvikudaginn 12. febrúar 1992, kl. 15:59:00 (3425)

     Páll Pétursson :
    Frú forseti. Ég þakka hæstv. forsrh. það svar sem hann gaf en það var þó að mínum dómi ekki fullnægjandi. Ferðin sem slík getur ekki skilist öðruvísi en sem opinber stuðningur við þá pólitík sem Shamir hefur rekið. Forsrh. talaði um að taka tillit til réttmætra hagsmuna beggja aðila og það tel ég eðlilega og rétta stefnu, en þessi ferð verður ekki skilin sem viðurkenning á réttmætum hagsmunum Palestínumanna.
    Varðandi ferð utanrrh. hér fyrr meir þá tel ég að það sé munur á tign hæstv. forsrh. og hæstv. utanrrh. Og þó hæstv. utanrrh. hafi undirbúið ferð sem aldrei var farin þá skiptir það ekki höfuðmáli í þessu

sambandi.
    Ég er andvígur því að breyta utanríkisstefnu Íslands í þá átt sem hæstv. forsrh., í umboði ríkisstjórnar sinnar væntanlega, er að gera. Þetta er þveröfug stefna við þá sem við höfum fylgt varðandi kúgaðar þjóðir Austur-Evrópu og ég nefni framlag okkar Íslendinga og stuðning við frelsisbaráttu Eystrasaltslandanna.
    Ég hef líka í höndum skýrslu frá Amnesty International. Þar segir með staðfestum hætti frá ótrúlegum grimmdarverkum Ísraelsmanna á hernumdu svæðunum og ég tel að við ættum ekki að láta neina samúð í ljósi með því framferði.
    Ég geri hins vegar enga athugasemd við það sem hæstv. forsrh. kann að gera prívat og persónulega, né hverja hann heimsækir óopinberlega. Mér skilst að hann ætli að hitta Margréti Thatcher í Bretlandi og mér er alveg sama um það. Ég vona að hann sannfærist um það á þeim fundi að stjórnarstefna hennar hafi verið röng. Hann getur varla komist hjá því, svona greindur maður. Það er að verða augljóst þolendum þeirrar stjórnarstefnu í Bretlandi að hún var röng. Hins vegar gæti hann e.t.v., og það væri tímabært fyrir hann, lært það af Margréti Thatcher hvernig á að vera fyrrverandi forsætisráðherra.
    Ég tel sem sagt að heppilegra að forsrh. yrði ekki Jórsalafari fyrr en hann er hættur að vera forsætisráðherra.