Ferða- og dagpeningar opinberra starfsmanna

80. fundur
Fimmtudaginn 13. febrúar 1992, kl. 10:34:00 (3429)

     Fyrirspyrjandi (Ingi Björn Albertsson) :
    Hæstv. forseti. Alllangt er síðan ég lagði þessa fyrirspurn fyrir en hún hefur því miður ekki getað komist til umræðu fyrr. Ég legg fyrirspurn á þskj. 47, 46. mál, til hæstv. fjmrh. um ferða- og dagpeninga opinberra starfsmanna. Töluverð umræða hefur verið um þessi mál í þjóðfélaginu og sýnist sitt hverjum. Kerfið sem nú er við lýði er viðurkennt sem ferðahvetjandi og jafnvel notað sem launauppbót og að mínu mati er fyllilega kominn tími til að endurskoða það. Ferðakostnaður og dagpeningar er talinn vera um 1.300 millj. kr., þar ef fara um 600 millj. í kostnað vegna ferða erlendis. Ég tel að hér sé liður sem megi vissulega líta á og skera hraustlega niður. Eitthvað hefur ráðuneytið beitt sér fyrir því og vonandi kemur fram í svari ráðherra hvort svo hefur verið. Ég tel óhjákvæmilegt eftir þeim fréttum sem ég hef heyrt að hraustlegar verði skorið niður en gert hefur verið og nýjar og hertar reglur settar. Reyndar er skoðun mín sú að dagpeningakerfið sem slíkt eigi að leggja niður og taka upp kerfi sem mætti kalla vasapeningakerfi þar sem einungis er einhver tiltekin lág upphæð lögð fram. Þá skal gera skil með reikningum fyrir öðrum útlögðum kostnaði sem síðan yrði greiddur af viðkomandi stofnun eða ráðuneyti.
    Mér finnst óhjákvæmilegt að óska eftir rökum fyrir því hvers vegna makar ráðherra fá dagpeninga. Mér er það með öllu óskiljanlegt og ég vona að við fáum skýrt svar við því.