Áfengiskaup opinberra aðila hjá ÁTVR

80. fundur
Fimmtudaginn 13. febrúar 1992, kl. 10:50:00 (3437)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Sem svar við fsp. hv. fyrirspyrjanda vil ég fyrst rifja upp hverjar reglur gilda um kaup á áfengi á sérstöku verði. Í bréfi frá ÁTVR sem er dagsett 12. febr. 1964 og svarað er fyrirspurn um hverjir geti fengið keypt áfengi á kostnaðarverði kemur þessi regla fram. Í bréfi þessu segir svo orðrétt, með leyfi forseta:
    ,,Þeir íslenskir aðilar búsettir hér á landi er fá áfengi keypt hjá oss á kostnaðarverði eru þessir: Forseti Íslands, handhafar forsetavalds, ríkisstjórn, ráðherrar, ráðuneytin, Alþingi, forseti sameinaðs Alþingis, Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins, forstjóri Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins, Eimskipafélag Íslands, Ríkisskip, Fríhöfnin á Keflavíkurflugvelli. Þá hafa deildaforsetar Alþingis heimild til að kaupa áfengi á kostnaðarverði fyrir allt að kr. 2.000 og varaforsetar Alþingis fyrir allt að kr. 1.000 á hverju þingi.
    Tekið skal fram að handhafar forsetavalds hafa aðeins rétt til slíkra áfengiskaupa þann tíma sem forsetavaldið er í þeirra höndum. Áfengi það er Eimskipafélag Íslands og Ríkisskip kaupa er einungis selt í siglingum á milli landa og kemur því ekki til neyslu innan lands.
    Fríhöfnin selur aðeins farþegum flugvéla við brottför þeirra af landinu og kemur því heldur ekki til neyslu innan lands áfengi það er hún selur.``
    Hinn 14. okt. 1971 var á fundi ríkisstjórnarinnar gerð svofelld samþykkt, með leyfi forseta, orðrétt:
  ,,1. Fríðindi þau við innkaup áfengis og tóbaks til einkanota er ráðherrar og forsetar Alþingis hafa notið skulu afnumin.
    2. Við innkaup áfengis og tóbaks vegna boða sem ráðherra heldur í embættisnafni skulu þó haldast sömu reglur og verið hafa, enda annist hlutaðeigandi ráðuneyti umrædd innkaup.``
    Á árinu 1989 var reglum breytt þannig að handhafar forsetavalds duttu út samkvæmt ákvörðun þáv. ríkisstjórnar. Engin ákvörðun hefur verið tekin af hálfu núv. ríkisstjórnar um breytingu á gildandi reglum um áfengiskaup opinberra aðila. Til skoðunar er hins vegar í ráðuneytinu hvort gera skuli breytingar á starfsemi ÁTVR á næstunni. Í tengslum við slíkar breytingar er eðlilegt að mínu mati að huga að breytingum á gildandi reglum um áfengiskaup opinberra aðila.