Auglýsingakostnaður fjármálaráðuneytis

80. fundur
Fimmtudaginn 13. febrúar 1992, kl. 11:08:02 (3444)

     Fyrirspyrjandi (Árni M. Mathiesen) :
    Virðulegi forseti. Mörg undanfarin ár hafa orðið talsverðar umræður um svokallaða blaðastyrki en þeir jukust mjög í tíð síðustu ríkisstjórnar. Núv. ríkisstjórn hefur hins vegar lækkað þessa styrki.
    Í kosningabaráttunni sl. vor var talsverð umræða um það að ráðherrar greiddu kosningabæklinga sína af fé ráðuneytanna. Fyrir nokkrum árum var haldinn á Hótel Loftleiðum stofnfundur samtaka héraðsblaða. Á þann fund mætti sérstakur fulltrúi fjmrn. Mörður Árnason og lýsti yfir áhuga ráðuneytisins á að auglýsa í slíkum blöðum og kom það jafnframt fram að um þetta yrðu settar sérstakar reglur og þess gætt að einungis væri auglýst í héraðsblöðum sem kæmu út reglulega en ekki í pólitískum kosningablöðum einstakra flokka eða framboða. Á þessum fundi urðu talsverðar umræður um þetta mál og þar var m.a. bent á það af fulltrúum eins héraðsblaðanna að þetta mundi auka kostnað ríkisins af auglýsingum umtalsvert miðað við þá dreifingu og þann auglýsingamátt sem blöð af þessu tagi hefðu. Í ljósi þessa vil ég spyrja hæstv. fjmrh.:
  ,,1. Hver var auglýsinga- og kynningarkostnaður fjmrn. á árinu 1990 annars vegar og fyrstu fjóra mánuði ársins 1991 hins vegar?
    2. Hvaða aðilar fengu greiðslur vegna þessa kostnaðarliðar?
    3. Hversu háar voru greiðslurnar og hvenær voru þær greiddar?
    4. Fyrir hvað var greitt?
    5. Voru einhverjar reglur í gildi í ráðuneytinu varðandi þessi atriði?``