Auglýsingakostnaður fjármálaráðuneytis

80. fundur
Fimmtudaginn 13. febrúar 1992, kl. 11:15:00 (3446)

     Fyrirspyrjandi (Árni M. Mathiesen) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. fjmrh. fyrir svör hans sem voru mjög ítarleg og ekki auðvelt að átta sig á því öllu um leið til þess að fara ítarlega í það hér í umræðunni. En þegar maður flettir þessum síðum þá nánast stökkva tölurnar fram og þá vekur náttúrlega mesta athygli að auglýsingastofan Hvíta húsið hefur fengið hér til ráðstöfunar rúmar 60 millj. kr. á þessu tímabili. Það virðist vera velta sem gæti staðið undir rekstri einnar auglýsingastofu. ( Gripið fram í: Þetta er góð auglýsingastofa.) Já, þetta er sennilega góð auglýsingastofa enda skilst mér að Alþb. hafi notfært sér þjónustu hennar í síðustu kosningabaráttu. Einhvern veginn virðist mér að þessum peningum hafi verið deilt út frá þessari auglýsingastofu og síðan hugsanlega af fyrrnefndum fulltrúa ráðuneytisins. En mat ráðuneytisins á auglýsingagildi fjölmiðla virðist vera mjög sérstakt samkvæmt þessu. Á Stöð 2 er auglýst fyrir tæpar 73 þús. á tímabilinu en á RÚV fyrir 3 millj. 375 þús. Í Morgunblaðinu er auglýst fyrir 391 þús. en Í Tímanum fyrir 434 þús. Í Alþýðublaðinu upp á 450 þús. og Þjóðviljanum upp á 450 þús. Með því að lesa hratt yfir þetta, þá sé ég þarna mörg blöð sem ég kannast við. Flest eða alla vega mjög mörg eru pólitísk og gefin út sérstaklega í sambandi við kosningabaráttu. Ég þekki bara eitt nafn hér af þeim blöðum sem Sjálfstfl. gefur út og þar sýnist mér fljótt á litið að auglýst hafi verið fyrir 50 þús. kr. Ég sé hins vegar að í Alþýðublaði Hafnarfjarðar hefur verið auglýst fyrir 120 þús. kr. og í Hafnfirðingi, blaði Framsfl. í Hafnarfirði, er auglýst fyrir 80 þús. kr. og í Vegamótum, blaði Alþb. í Hafnarfirði, fyrir 45 þús. kr. Þetta er bara í Hafnarfirði. Svo sé ég hér að Eyjablaðið, blað Alþb. í Vestmannaeyjum, hefur auglýst fundi fjmrh. í landinu fyrir um 70 þús. kr.
    Borgaraflokkurinn kemur hér fyrir á nokkrum stöðum og frjálslynd framboð. Þeir virðast vera einna stórtækastir með hátt í 1 millj. kr. í greiðslur á þessum lið. Ég held að þessar tölur tali sínu máli en ég ítreka þakkir mínar til hæstv. fjmrh.