Auglýsingakostnaður fjármálaráðuneytis

80. fundur
Fimmtudaginn 13. febrúar 1992, kl. 11:19:00 (3447)

     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. fjmrh. fyrir að birta jafnítarleg svör við þessum spurningum eins og hann gerði hér. Hins vegar er það mjög athyglisvert hver er hinn ómerkilegi, pólitíski tilgangur hæstv. fyrirspyrjanda í þessu máli. Hann hefur greinilega engan áhuga á því að kynna sér það sem rétt er og satt í þessu máli heldur er hann fyrst og fremst hér í einhverju ómerkilegu, pólitísku tortryggingarskyni.
    Það kemur ekki nægilega skýrt fram samt sem áður í þessum gögnum að meginupphæðinni sem hér er um að ræða er ráðstafað á vegum ríkisskattstjóraembættisins. Meðan ég var í fjmrn. var ekki gerður neinn nýr samningur við auglýsingaskrifstofur. Það er rétt að fyrirspyrjandi hlusti á það. Samningurinn við Hvíta húsið var gerður í fjármálaráðherratíð Sjálfstfl. í fjmrn. og byggði á langvarandi þjónustu þeirrar auglýsingaskrifstofu við ríkisskattstjóraembættið. Sú upphæð sem hér er skráð á Hvíta húsið er, ef ég man rétt, að meginhluta vegna auglýsinga ríkisskattstjóraembættisins við að kynna staðgreiðslu, við að kynna skattframtöl og ýmislegt annað og hefur sjálfsagt meginkostnaðurinn farið til Morgunblaðsins, Ríkissjónvarpsins og Stöðvar 2. Ef það er hins vegar ámælisvert að hafa auglýst í Alþýðublaðinu í Hafnarfirði, þá held ég að það sé eini gagnrýnispunkturinn sem hægt er að finna í þessum gögnum. Hins vegar kemur það mjög skemmtilega og vel fram í skránni hve mikið hefur verið auglýst í héraðsfréttablöðum sem var eitt af því sem fyrirspyrjandi spurði um í sinni upphafsræðu.