Dimmuborgir

80. fundur
Fimmtudaginn 13. febrúar 1992, kl. 11:57:00 (3470)

     Umhverfisráðherra (Eiður Guðnason) :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. fyrirspyrjanda fyrir að vekja athygli á þeim vanda sem hér er við að glíma. Ég hef ekki neinu við það svar, sem hæstv. forsrh. gaf, að bæta öðru en því að ég vildi gjarnan taka það fram að þetta gildir í rauninni um fleiri staði, fleiri fjölsótta og viðkvæma ferðamannastaði, að þar er við margvísleg vandamál að etja vegna vaxandi umferðar, vaxandi mannfjölda, áníðslu eða átroðslu geta menn kallað það. Þess vegna er óhjákvæmilegt að við látum með einhverjum hætti aukið fé af hendi rakna til þessara mála á næstu árum. Ég held að ein af þeim leiðum sem hljóti að koma til greina sé eins og gert er annars staðar, þ.e. að ferðamenn leggi sjálfir nokkuð af mörkum til varðveislu staðanna sem þeir heimsækja, að þeir greiði eitthvert gjald fyrir heimsóknina. Þetta er gert mjög víða um veröldina og þykir sjálfsagður hlutur. Enda er ekkert óeðlilegt við það að menn greiði fyrir að njóta þeirra verðmæta sem hér er um að ræða. Það þurfa ekki að vera háar upphæðir.