Samskipti ráðherra og sendimanna erlendra ríkja á Íslandi

80. fundur
Fimmtudaginn 13. febrúar 1992, kl. 12:03:00 (3473)

     Fyrirspyrjandi (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) :
    Virðulegi forseti. Á þskj. 385 ber ég fram fsp. til forsrh. um samskipti ráðherra og sendimanna erlendra ríkja á Íslandi.
    Tilefni þessarar fsp. er viðtal sem birtist í Morgunblaðinu 9. jan. sl. við a.m.k. þáv. og e.t.v núna fyrrv. sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi. Þetta er að mörgu leyti athyglisvert viðtal við sendiherrann og hann talar þar m.a. um kosti smæðarinnar, þ.e. hvaða kosti það hafi að búa og starfa í litlu samfélagi eins og á Íslandi og það persónulega samband sem þetta bjóði upp á. Og mig langar, með leyfi forseta, að lesa hérna örstutt úr viðtalinu, en þar segir sendiherrann: ,,Forsætisráðherra Íslands hefur dvalið á heimili mínu í Flórída í eina viku svo og utanríkisráðherrann og Steingrímur Hermannsson, fyrrverandi forsætisráðherra.

Þorsteinn Pálsson sjávarútvegsráðherra hefur dvalið í viku í skíðaskálanum okkar í Bandaríkjunum. Slíkt hefði einfaldlega ekki getað gerst í stærra landi``, segir sendiherrann.
    Steingrímur Hermannsson hefur upplýst í blöðum að það sé á misskilningi byggt að hann hafi þegið boð hjá sendiherranum en svo virðist sem rétt sé með farið hvað aðra varðar, a.m.k. hafa þeir ekki borið það til baka. Ég verð að játa að ég varð mjög undrandi á þessum ummælum Cobb, mér finnst það nefnilega ekki viðeigandi að íslenskir ráðamenn séu inni á gafli hjá sendimönnum erlendra ríkja. Hér áðan var talsvert talað um og minnt á hagsmunaárekstra og minnt á það gamla spakmæli að æ sér gjöf til gjalda. Og mér finnst að það geti átt við líka í þessu tilviki sem ég geri hér að umtalsefni.
    Þegar ég las þessa grein þá hugsaði ég með sjálfri mér, hvað hefði þjóð og þing sagt fyrir tíu árum síðan ef ráðherra í ríkisstjórn hefði gist heimili sendiherra Sovétríkjanna í Moskvu og ef þingmaður hefði dvalið í sumarhúsi hans við Svartahafið? Ég er hrædd um að þingi og þjóð hefði ekki þótt það gott. Mér finnst þetta mál heldur ekki gott.
    Þess vegna spyr ég nú hæstv. forsrh.:
  ,,1. Hafa forsrh., utanrrh. og sjútvrh. dvalist erlendis í boði sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi eins og fram kemur í viðtali við sendiherrann í Morgunblaðinu 9. jan. sl.? Ef svo er, þá hvenær?
     2. Er forsrh. kunnugt um önnur tilvik af þessu tagi á undanförnum árum, þ.e. að íslenskir ráðherrar hafi þegið slík boð sendimanna erlendra ríkja á Íslandi?``