Samskipti ráðherra og sendimanna erlendra ríkja á Íslandi

80. fundur
Fimmtudaginn 13. febrúar 1992, kl. 12:12:00 (3476)

     Fyrirspyrjandi (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) :
    Virðulegur forseti. Ég þakka svör forsrh. við minni fyrirspurn sem voru út af fyrir sig skýr og skilmerkileg. Þessir þrír aðilar sem ég tiltók, forsrh., utanrrh. og núv. sjútvrh. en þáv. þingmaður og formaður Sjálfstfl., hafa þegið boð hjá sendiherra Bandaríkjanna á heimili hans og önnur tilvik eru ekki til um slíkt. Þetta er út af fyrir sig afskaplega skýrt. Ég verð að segja að mér finnst það ekki mjög, hvað á ég að segja, til fyrirmyndar hjá þessum ráðamönnum að þiggja slík boð. Ástæðan er einfaldlega sú --- og nú ætla ég ekki að gera því á fæturna að þarna hafi eitthvað misjafnt átt sér stað, alls ekki en hins vegar er þarna grátt svæði sem menn verða að passa sig á. Mér er það kunnugt að það gilda engar reglur um þessa hluti og það er raunar afskaplaga vafasamt að hægt sé að setja þær því það er aldrei hægt að niðurnjörfa svo siðaboð eða reglur að það útiloki vafamál og efasemdir. Menn verða auðvitað að gera þetta upp við sjálfa sig. En ráðherrar í ríkisstjórn, og raunar þingmenn líka, verða að reyna að forðast hvers kyns hagsmunatengsl sem gætu varpað skugga á ákvarðanir þeirra, sem gætu vakið efasemdir um heilindi þeirra og sjálfstæði. Það er það sem getur gerst í málum eins og þessu. Við vitum að það er verið að semja um ýmis viðkvæm mál við Bandaríkjamenn og það gætu auðvitað komið hugmyndir um það að menn væru kannski ekki alveg sjálfstæðir í sínum ákvörðunum ef þeir eru í of nánum persónulegum tengslum við sendimenn erlendra ríkja.
    Ég verð að játa að mér finnst þetta líka svolítið smátt, ekki síst eftir viðtal sem haft er við sendiherra Bandaríkjanna í Pressunni viku eftir að viðtalið birtist í Morgunblaðinu þar sem hann talar um að það hefði auðvitað verið æskilegt að Bush hefði getað boðið þessum ráðamönnum heim en hann hafi ekki haft tíma til þess svo sendiherrann hafi bara gert það sjálfur í staðinn. Mér finnst það miður --- það er reyndar ekki rétt að segja að það sé miður --- því þessir menn eru ekki á sama stað í stjórnkerfinu og þótt ég haldi ekkert sérstaklega upp á íslenska ráðherra þá eru þeir engu að síður fulltrúar þessarar þjóðar og fulltrúar mínir sem slíkir og mér finnst svolítið smátt hjá þeim að vera að þiggja gistingu erlendis með þessum hætti.