Upplýsingaskylda ráðuneyta og opinberra stofnana

80. fundur
Fimmtudaginn 13. febrúar 1992, kl. 12:20:00 (3480)

     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) :
    Herra forseti. Sem svar við fsp. hv. 11. þm. Reykv. um hvaða reglur gildi um upplýsingaskyldu opinberra stofnana gagnvart alþingismönnum, félagasamtökum, einstaklingum og fjölmiðlum, þá vil ég taka fram eftirfarandi:
    Ef frá eru talin ákvæði laga um útgáfu Stjórnartíðinda og Lögbirtingarblaðs, auk sérákvæða í einstökum lögum um tilteknar athafnir stjórnvalda, t.d. 17. gr. skipulagslaga nr. 19/1964, gilda engar almennar reglur um upplýsingaskyldu stjórnvalda hér á landi.
    Auk þessara þátta má benda á skýrslugjöf sem mælt er fyrir í lögum um einstakar stofnanir eða fyrirtæki t.d. um starfsmenn Byggðastofnunar, svo nokkuð sé nefnt. Þá hafa myndast venjur um útgáfu margvíslegra skýrslna, fréttabréfa og fréttatilkynninga svo ekki sé minnst á blaðamannafundi.
    Í þessu sambandi má geta þeirra verklagsreglna sem farið er eftir í forsrn. varðandi upplýsingar af ríkisstjórnarfundum. Ritari forsrh. gefur upplýsingar um dagskrá ríkisstjórnarfunda og blaða- og fréttamenn hafa síðan samband við viðkomandi ráðherra eða ráðuneyti um frekari fregnir af dagskrármálum. Þótt almenna reglan hljóti að vera sú að allir eigi rétt á upplýsingum frá stjórnvöldum, hvort sem þeir eru alþingismenn, fulltrúar félagasamtaka eða fjölmiðla eða einstaklingar, hafa alþingismenn betri stöðu en aðrir til að fá slíkar upplýsingar. Þeir geta þannig farið fram á skýrslugjöf um opinber málefni og borið fram fyrirspurnir, sbr. 46. og 49. gr. þingskapalaga, nr. 55/1991. Einnig hafa nefndir þingsins rétt til að fara fram á upplýsingar, sbr. t.d. 3. mgr. 25. gr. þingskapalaga um upplýsingaskyldu opinberra stofnana og fyrirtækja gagnvart fjárln.
    Þegar rætt er um nauðsyn á skýrum reglum um upplýsingaskyldu stjórnvalda verða menn að hafa hugfast að ýmis ákvæði eru í lögum um leyndarskyldu og þagnarskyldu bæði almenns eðlis og um sérgreind tilvik, sbr. t.d. 32. gr. laga nr. 38/1954, um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna, og 136. gr. almennra hegningarlaga, um brot á þagnarskyldu. Þessi ákvæði eru þó svo almenn að af þeim verða naumast dregnar ályktanir um almennar leyndarreglur. Þó má halda því fram að upplýsingaskylda stjórnvalda hljóti ávallt að vera háð vissum takmörkunum, einkum vegna tillits til sérstakra einstaklingshagsmuna svo og ef um er að ræða sérlega ríka almannahagsmuni, t.d. að því er varðar öryggi ríkisins.
    Skortur á almennum reglum um upplýsingaskyldu hefur bagað jafnt borgarana og þá sem með stjórnsýslu fara sem hafa ekki getað stuðst við leiðbeiningarreglur um það hvað megi birta og hvað sé ekki

réttlætanlegt að veita upplýsingar um. Á sl. tveimur áratugum, eins og kom fram hjá hv. fyrirspyrjanda, hafa margsinnis verið gerðar tilraunir til að aflétta þessari óvissu en ekki borið árangur sem erfiði. Sú saga er öll rakin í greinargerð með frv. til laga um upplýsingaskyldu stjórnvalda sem lagt var fram á 113. löggjafarþingi 1990 en dagaði uppi. Vísast til þess frv. um nánari greinargerð að forsögu málsins.
    Síðari spurningin er svohljóðandi: ,,Hyggst ráðherra leggja fram á Alþingi frv. til laga um upplýsingaskyldu stjórnvalda?``
    Því er til að svara að mikið undirbúningsstarf hefur verið unnið á undanförnum árum og ég er þeirrar skoðunar að brýnt sé orðið að sett verði lög um starfsemi stjórnsýslunnar og upplýsingaskyldu stjórnvalda. Slík lagasetning er til þess fallin að treysta réttaröryggi í landinu og koma á föstum reglum um aðgang almennings að upplýsingum sem stjórnvöld hafa. Ég vil í þessu sambandi vísa til þess sem segir í hvítbók ríkisstjórnarinnar sem hefur að geyma stefnu og starfsáætlun hennar á kjörtímabilinu en þar segir að ríkisstjórnin muni vinna að undirbúningi löggjafar á sviði stjórnsýslunnar. Orðrétt segir í hvítbókinni:
    ,,Markmið þeirrar löggjafar er að tryggja réttaröryggi einstaklinga gagnvart ákvörðunum stjórnvalda og gera athafnir framkvæmdarvaldsins skýrari og traustari. Þá verða jafnframt í þeim lögum ákvæði um upplýsingaskyldu stjórnvalda. Kannað verður hvort æskilegt sé að setja á laggirnar sérstakan stjórnsýsludómstól. Er þetta gert til þess að tryggja nauðsynlegt eftirlit með framkvæmdum og ákvörðunum stjórnvalda, en nokkuð hefur þótt skorta á að farið væri eftir ábendingum umboðsmanns Alþingis. Einnig verður lögð aukin áhersla á grisjun eldri laga og reglugerða. Þessi vinna er í samræmi við þá stefnu ríkisstjórnarinnar að leikreglur stjórnskipunarinnar skuli vera í sífelldri mótun og taki mið af kröfum tímans um réttaröryggi borgaranna.``
    Góð löggjöf á þessu sviði hefur tvíþættan tilgang. Hún á að stuðla að því að treysta rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum en hún á einnig að auka skilvirkni og gæði í störfum stjórnsýslunnar. Undirbúningsvinna að þessari frumvarpssmíð mun hefjast á næstunni og ég vænti þess og vonast til að unnt verði að leggja málið fyrir þingmenn á þessu þingi og þó í allra seinasta lagi í upphafi næsta þings.