Ósoneyðandi efni

80. fundur
Fimmtudaginn 13. febrúar 1992, kl. 12:28:00 (3483)

     Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson) :
    Virðulegur forseti. Á þskj. 409 ber ég fram fyrirspurn til hæstv. umhvrh. um ósoneyðandi efni. Fsp. er svohljóðandi:
  ,,1. Hvernig hefur miðað samdrætti í notkun ósoneyðandi efna hérlendis með tilliti til Montreal-bókunar Vínarsáttmálans frá því Íslendingar undirrituðu sáttmálann 1989?
    2. Hvaða áætlanir liggja nú fyrir um minnkandi notkun ósoneyðandi efna (klórflúorkolefna og halona) hérlendis?
    3. Er ráðherra reiðubúinn að beita sér fyrir strangari aðgerðum af Íslands hálfu en nú er kveðið á um í Montreal-bókuninni, t.d. stöðvun á notkun ósoneyðandi efna fyrir árið 1995?``
    Tilefni þessarar fsp. eru upplýsingar sem fram komu frá tveimur rannsóknastofnunum, rannsóknarhópum, í byrjun þessa mánaðar. Annars vegar var um að ræða hóp í Bandaríkjunum sem tengist

NASA-stofnuninni og heitir Second Airborne Arctic Stratospheric Expedition og hins vegar hópi í Evrópu, European Arctic Stratospheric Ozoen Experiment. Mælingum og upplýsingum þessara hópa ber saman um það að mælst hafi mikil aukning á ósoneyðandi efnum í háloftunum á norðurhveli og sérstaklega yfir norðlægum breiddargráðum og Ísland fellur undir þessi svæði.
    Hér er um mjög stórt mál að ræða í alþjóðlegu samhengi og viðbrögðin erlendis við þessum upplýsingum hafa verið býsna skýr og ákveðin hjá nokkrum löndum. Þannig hefur Bandaríkjaforseti nú nýverið afráðið að taka mun ákveðnari skref til takmörkunar en gildir í umræddum alþjóðasamningi og banna notkun ósoneyðandi efna þar í landi innan fjögurra ára héðan í frá eða frá miðjum þessum áratug. Bandaríkjaþing ýtti á eftir um þetta mál og þarna liggur sem sagt fyrir stefna Bandaríkjanna sem nota og eru uppspretta meiri hluta þessara ósoneyðandi efna þannig að vissulega er það þýðingarmikið. Ég tel alveg brýnt að Ísland láti ekki sinn hlut eftir liggja í þessu þýðingarmikla máli og taki einnig viðeigandi skref og lýsi sig reiðubúið til þess í aðdraganda nýrrar ráðstefnu um þessi efni og stöðu Montreal-bókunarinnar sem ráðgerð er á þessu ári.
    Ég hef leyft mér vegna þessarar fyrirspurnar hér, virðulegur forseti, að bera fram við ríkisstjórnir Norðurlanda í tengslum við Norðurlandaþing í byrjun marsmánaðar fyrirspurn sem er efnislega hliðstæð þeirri sem hér er fram borin en mér þykir mikilvægt að heyra hér undirtektir hæstv. umhvrh. um þetta efni.