Ósoneyðandi efni

80. fundur
Fimmtudaginn 13. febrúar 1992, kl. 12:31:00 (3484)

     Umhverfisráðherra (Eiður Guðnason) :
    Virðulegi forseti. Ég skal leitast við að svara þeim fyrirspurnum sem hér eru fram bornar.
    Varðandi fyrrsta liðinn vil ég segja það að nefnd sem skipuð var árið 1988 kannaði notkun ósoneyðandi efna hér á landi árin 1986 og 1987. Þessi nefnd lauk störfum í desember 1988. Hún setti fram tillögur um aðgerðir til að draga úr notkun klórflúorkolefna og halona. Þær voru samþykktar í ríkisstjórn. Í þeim fólst að fylgja bæri svipuðum aðgerðum og önnur Norðurlönd hafa gert og undirrita Vínarsáttmálann og svonefnda Montreal-bókun. Í maí 1989 gerðust Íslendingar aðilar að Vínarsáttmálanum og Montreal-bókuninni um ósoneyðandi efni.
    Í norrænu umhverfisáætluninni, sem undirrituð var í jan. 1989 og Ísland er aðili að, var samþykkt að helminga notkun ósoneyðandi efna miðað við árið 1986 fyrir árið 1995. 1989 var skipuð hér á landi framkvæmdanefnd til að fylgja þessum málum eftir. Ný nefnd var skipuð í sama skyni 1991 og hefur hún kannað notkun klórflúorkolefna og halona árin 1989 og 1990 og á fjárlögum þessa árs eru veittar 2,5 millj. kr. til að hægt verði að vinna að málinu á vegum umhvrn.
    Árið 1990 hafði notkun þessara efna, klórflúorkolefna, minnkað hér á landi um 32% miðað við viðmiðunarárið 1986 og notkun halona hafði dregist saman um 60% og er þá miðað við svonefnt ósoneyðingarvægi. Samdrátturinn hefði vissulega mátt vera meiri en engu að síður hefur tekist að standa við þær skuldbindingar sem við höfum á okkur tekið. Notkunin hefur aðallega dregist saman vegna þess að hætt hefur verið að nota úðabrúsa þar sem klórflúorkolefni eru notuð sem drifefni. Notkun halona hefur minnkað verulega frá 1986 og það eru ekki sjáanleg vandkvæði á því að fylgja ákvæðum Montreal-bókunarinnar næstu ár en fyrirhugað er að setja á næstunni strangari reglur um notkun halona þannig að draga megi enn frekar úr innflutningi og notkun. Þegar á heildina er litið hefur því miðað allvel við að draga úr notkun ósoneyðandi efna og staðið hefur verið við þær skuldbindingar sem við höfum undirgengist. Við erum hér í hópi þeirra þjóða sem fremst fara og erum aðilar að öllum þeim alþjóðaskuldbindingum sem lengst ganga í þessu efni.
    Í öðru lagi var spurt: Hvaða áætlanir liggja nú fyrir um að draga úr notkun ósoneyðandi efna hérlendis? Það er unnið að því á vegum þeirrar nefndar, sem ég nefndi áðan, að móta aðgerðir á þessu sviði. Það er búið að banna með reglugerð innflutning og sölu úðabrúsa sem innihalda tiltekin ósoneyðandi efni. Jafnframt er verið að ganga frá áætlun um hvernig megi draga enn frekar úr notkun þessara efna. Reglur um bann við haloni í handslökkvitækjum til almenningsnota eru sömuleiðis tilbúnar og verða væntanlega gefnar út í byrjun næsta mánaðar. Þá er verið að vinna að gerð reglna um þessi efni í kælikerfum og kynna þær hlutaðeigandi aðilum. Í sumar verður sett reglugerð um bann við innflutningi og sölu klórflúorkolefna þar sem sett verða ákveðin tímamörk og gert ráð fyrir að notkun á öllum slíkum efnum sem eru á bannlista verði hætt fyrir 1. jan. 1996.
    Síðan er spurt hvort ráðherra sé reiðubúinn til að beita sér fyrir strangari aðgerðum af Íslands hálfu en nú er kveðið á um, t.d. stöðvun á notkun ósoneyðandi efna fyrir árið 1955. Þær áætlanir umhvrn. sem ég hef gert ráð fyrir varðandi klórflúorkolefnin eru strangari hvað varðar tímamörk en gildandi ákvæði Montreal-samningsins en væntanleg er breyting í haust á Montreal-bókuninni sem mun fela í sér strangari ákvæði, einkum að því er varðar tímamörk. Reglur sem eru í gildi í sumum aðildarlöndum Evrópubandalagsins eru mun strangari. Það má gera ráð fyrir að Íslandi þurfi að undirgangast strangari reglur en hér um ræðir og í gildi eru í dag ef EES-samningsdrögin öðlast gildi. Á þessu stigi erum við reiðubúin til að ganga til strangari aðgerða en kveðið er á um í Montreal-bókuninni að því er varðar klórflúorkolefnin en hvað halonefnin varðar þá gildir það einungis varðandi þá notkun sem ekki er nauðsynleg af öryggisástæðum. Vandamálið sem þar er við að glíma varðar t.d. slökkvikerfi í skipum og flugvélum. Þar verðum við sjálfsagt að halda okkur við ákvæði Montreal-bókunarinnar vegna þess að það er ekki talið rétt að taka þessi efni úr notkun fyrr en tryggt er að eitthvað komi í staðinn sem er jafnöruggt. Ég tel þá, virðulegi forseti, að ég hafi svarað þeirri fyrirspurn sem hv. þm. beindi til mín.