Innheimta skyldusparnaðar ungs fólks

80. fundur
Fimmtudaginn 13. febrúar 1992, kl. 12:52:00 (3489)

     Fyrirspyrjandi (Kristinn H. Gunnarsson) :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir nokkuð glögg svör. Þar kom fram og staðfestir það sem ég var að nefna hér áðan að úrræði til þess að knýja fram greiðslu frá launagreiðanda og staða Húsnæðisstofnunar til að fylgjast með því að jafnóðum sé til hennar skilað upplýsingum um skyldusparnað sem tekinn er af launþega eru ekki nægilega góð. Hér þarf að bæta úr og það er ekki viðunandi að launþeginn sjálfur skuli þurfa að vera sá aðili sem knýr á um og fylgist með hvort skilað sé því sem af honum er tekið, sérstaklega í ljósi þess lagaramma sem er. Ég gerði grein fyrir honum áðan þar sem skyldan er lögð á launþegann og launagreiðandann og Húsnæðisstofnun þannig að launþeginn á engra annarra kosta völ en að láta taka af launum sínum. Það er mitt sjónarmið að það ætti ekki að vera verkefni hans að fylgjast með því að fé lenti á réttum stað.
    Hitt tek ég undir sem kom fram í svari hæstv. ráðherra að stundum veit launþeginn af því að fénu er ekki skilað en veigrar sér við aðgerðum. Það er staðreynd sem menn verða að horfast í augu við að í fámennum sveitarfélögum eða byggðarlögum hefur það því miður oft komið upp að viðkomandi unglingur veigrar sér við því að láta ganga eftir innheimtu og jafnvel að fela Húsnæðisstofnun ríkisins málið. Ég held því að þessi staða undirstriki að það er nauðsynlegt að tryggja með öðrum hætti fullnægjandi réttarstöðu launþegans. Það er óásættanlegt að ríkisábyrgð á þessu fé geti runnið út á fáeinum mánuðum og síðan orðið of seint að hefja aðgerðir þegar menn vakna eftir nokkra mánuði, miðað við þriggja mánaða frest eins og nú stefnir í frá og með 1. mars. Ég tel að fyrst ríkið er á annað borð að setja lög um skyldu til að taka þetta af unglingum, þá verði ríkið að bera ábyrgð á því fé sem þannig er tekið en ekki setja það að nokkru leyti á herðar þeirra sjálfra að fylgjast með því hvort fénu er skilað.
    Það er út af fyrir sig rétt sem fram kemur hjá hæstv. ráðherra að bréf hafi verið sent til húsnæðismálastjórnar með spurningu um endurskoðun á fyrirkomulagi. Ég vil benda á það og ég hygg að ég fari rétt með að Húsnæðisstofnun hefur skilað til ráðherra fullbúnu frv. um skyldusparnaðinn. Ég vænti þess að hæstv. ráðherra staðfesti að það sé rétt.