Síldarverksmiðjur ríkisins

81. fundur
Fimmtudaginn 13. febrúar 1992, kl. 13:08:00 (3492)

     Páll Pétursson :
    Herra forseti. Ég er ekki sannfærður um að hér sé verið að stíga rétt eða nauðsynlegt skref og læt í ljósi þá persónulegu skoðun mína. Hins vegar vil ég greina frá því að innan míns þingflokks er meiningarmunur um þetta mál og t.d. taldi fyrrv. sjútvrh. það gott ráð að breyta Síldarverksmiðjum ríkisins í hlutafélag.
    Síldarverksmiðjur ríkisins hafa fært þjóðarbúinu mikinn auð á umliðnum áratugum. Það er að vísu rétt að þær hafa átt í erfiðleikum á síðustu tveimur árum sérstaklega. Þar verkar saman loðnubrestur og mikil uppbygging eða endurnýjun á verksmiðjunni á Seyðisfirði sem reyndist mjög dýr. En nú eru batnandi horfur eins og hæstv. sjútvrh. greindi frá varðandi loðnuveiðar og líklegt að Síldarverksmiðjur ríkisins geti unnið sig út úr þeim vanda sem þær eru í á næstu tveimur árum og ríkið þyrfti þá ekki að yfirtaka skuldir þeirra vegna. Það hefur staðið Síldarverksmiðjunum fyrir þrifum á undanförnum árum að þær eiga ekki loðnuskip og líka það að of margar loðnuverksmiðjur eru í landinu miðað við þann skipastól sem loðnuveiðar stundar. Þar af leiðir að hér hafa menn verið í fjárfestingum sem ekki hafa verið fullkomlega rökréttar. Samkeppnisstaða Síldarverksmiðja ríkisins hefur af þeim sökum verið örðugri en þurft hefði að vera. Hér er um mjög stórt fyrirtæki að ræða og í raun mjög gott fyrirtæki að því leyti að þær eiga tvær mjög góðar loðnuverksmiðjur og jafnframt mjög vel búið verkstæði á Siglufirði. Nú er fyrirsjáanlegt að hið stóra og góða fyrirtæki verði limað sundur og afhent öðrum. Ég vona sannarlega að það verði ekki til mikilla óheilla. Mér þætti sjónarsviptir að ef Síldarverksmiðjur ríkisins hættu starfsemi sinni á Siglufirði og ég tel að það yrði mikið áfall fyrir Siglufjörð ef svo færi. Ég sé ekki að við séum að vinna rétt eða gott verk með því að afhenda þetta einstaklingum. Um það er mikill efi í mínu brjósti.
    Allt um það þá ætla ég ekki að reyna að bregða fæti fyrir málið en vildi láta þessi varnaðarorð mín koma fram við 1. umr.