Síldarverksmiðjur ríkisins

81. fundur
Fimmtudaginn 13. febrúar 1992, kl. 13:28:00 (3494)

     Jóhann Ársælsson :
    Virðulegur forseti. Þetta mun vera annað frv. ríkisstjórnarinnar um sölu á ríkisfyrirtæki, eða breytingu í hlutafélag, sem kemur fram á þessu þingi og er auðvitað hluti af stefnu ríkisstjórnarinnar, þ.e. að einkavæða og selja ríkisfyrirtæki. Mig langar í upphafi að fara fáeinum orðum um þau mál almennt. Fyrst vil ég segja að ég er alls ekki á þeirri skoðun að ríkið eigi endilega að eiga öll fyrirtæki sem eru í eigu þess núna. Ég tel fulla ástæðu til þess að hafa þau mál ævinlega í skoðun og ekkert eðlilegra en ríkið selji sambærileg fyrirtæki og eru almennt orðin í eigu landsmanna og ekki neinar sérstakar röksemdir fyrir því að ríkið eigi viðkomandi fyrirtæki.
    Þetta fyrirtæki, Síldarverksmiðjur ríkisins, er að mörgu leyti mjög sérstakt. Ég held að menn verði líka að skoða hvert og eitt fyrirtæki sem kemur til afgreiðslu í hv. Alþingi í tengslum við þær hugmyndir að það eigi að selja þau. Síldarverksmiðjur ríkisins eru mjög gamalt fyrirtæki í eigu ríkisins og miklar breytingar hafa orðið á löngum tíma. Ég ætla ekki að endurtaka lýsingar á því en bendi á að skuldastaða Síldarverksmiðja ríkisins hefur gerbreyst á örfáum árum. Árið 1986 skuldaði fyrirtækið alls samtals 484 millj., ef ég man rétt, en skuldar núna 1.300--1.400 millj. Tvær aðalástæður eru fyrir þessari skuldaaukningu. Önnur er gífurlegt tap verksmiðjanna á þessum árum, hin er endurnýjun eða réttara sagt ný verksmiðja á Seyðisfirði. Ef grannt er skoðað er framtíð Síldarverksmiðja ríkisins kannski fólgin í verksmiðjunni á Seyðisfirði og svar við þeirri þróun sem er í gangi, þ.e. sífellt auknum kröfum til þess að mjölið verði betra sem verið er að bjóða upp á. Í þeirri verksmiðju er unnið gæðamjöl og fyrir það fæst miklu hærra verð en annað mjöl. Afkastageta annarra verksmiðja í landinu til að framleiða slíkt gæðamjöl er lítil eins og er. Þannig verður að skoða allt sem hér er til meðferðar í því ljósi.
    Þrátt fyrir möguleikana á að selja hluta framleiðslunnar á miklu hærra verði eins og er fyrir hendi hjá Seyðisfjarðarverksmiðjunni þá er niðurstaða nefndar sem fór yfir málin sú að Síldarverksmiðjur ríkisins gætu ekki vænst þess að standa undir öllum sínum skuldum með þeim áætlunum sem menn höfðu um loðnubræðslu á næstu árum, því miður. Nú ætla ég ekki að gerast spámaður um það hvort sú nefnd hafi rétt fyrir sér. Hins vegar er rétt að rifja það upp að Síldarverksmiðjur ríkisins hafa ekki tekið við peningum af hendi ríkisins nema í mjög litlum mæli við stofnun fyrirtækisins. Síðan hafa ekki verið lagðir peningar inn í fyrirtækið að öðru leyti en því að yfirmenn Síldarverksmiðjanna munu hafa verið um eitt ár á launum hjá ríkinu einhvern tíma þegar verst gekk í sögu þess. Þannig má segja að Síldarverksmiðjur ríkisins séu dæmi um margt sem er æðisveiflukennt í útgerðinni hjá okkur og sannar það sem sagt var áður að svikull er sjávarafli. Að mínu viti er alls ekki öll nótt úti enn um að Síldarverksmiðjur ríkisins geti skilað miklum arði til þjóðarbúsins. Og mér segir svo hugur um að í hinum nýju kröfum um gæðamjöl muni framtíð þessarar starfsemi fólgin hvort sem hún verður í eigu ríkisins eða einhverra annarra.
    Í sambandi við meðferð málsins tel ég skipta almestu máli að haldið verði um það af festu og varúð vegna þess að um mikla atvinnustarfsemi er að ræða á vegum fyrirtækisins. Styrkur fyrirtækisins hefur verið í því fólginn að geta tekið á móti hráefni á fleiri en einum stað á landinu. Ég veit vel að önnur

fyrirtæki hafa leiðst út í að taka meiri þátt í útgerð og reyna þannig að fá til sín meira af því hráefni sem hefur verið til staðar á hverjum tíma. En Síldarverksmiðjur ríkisins hafa þrátt fyrir allt verið með allt að þriðjungi þess afla sem komið hefur á land og það er ekki svo lítið. Við erum því að tala hérna um mjög stórt fyrirtæki og ég vara mjög við því að menn fari að líta á hugmyndina um sölu á Síldarverksmiðjum ríkisins sem einhvers konar lykil að því skríni sem ég ímynda mér að ýmsir vilji að opnist, þ.e. að einhvers konar úrelding á verksmiðjum í landinu eigi öll að koma niður á starfsemi Síldarverksmiðja ríkisins. Ég hef ákveðinn grun um vissir aðilar í bransanum, eins og sagt var áðan, vildu nú helst að þannig yrði farið að.
    Ég tel að skoða eigi þetta mál gaumgæfilega eins og ég sagði áðan. Ég get út af fyrir sig ekki sett mig upp á móti því að Síldarverksmiðjum ríkisins verði breytt í hlutafélag. Þó finnst mér einn stór galli vera á því og hann er sá að fram að þessu a.m.k. hafa menn haft þann hátt á gagnvart hlutafélögum sem eru að öllu leyti í eigu ríkisins að stjórnir fyrirtækjanna hafa eingöngu verið skipaðar af viðkomandi ráðherra. Þegar um stór eða jafnvel mjög stór fyrirtæki er að ræða tel ég mjög óeðlilegt að stjórn þeirra sé þannig. Þess vegna tel ég fulla ástæðu til að velta því fyrir sér, úr því að menn telja að hlutafélagaformið eigi að vera ráðandi í rekstri fyrirtækja, líka þeirra sem ríkið á aðild að, að menn komi sér niður á sérstaka aðferð við að skipa stjórn þessara fyrirtækja þannig að hægt sé að koma inn sjónarmiðum þeirra opinberu aðila sem hlut eiga að máli, Alþingis Íslendinga, sem auðvitað ber ábyrgð á eigum ríkisins og á að taka þátt í að stjórna þeim. Mér finnst að taka hefði átt á þessum málum fyrir langa löngu og ekki setja viðkomandi ráðherra í þá aðstöðu að skipa alfarið alla stjórn slíkra fyrirtækja. Þess vegna tel ég, ef þessi breyting verður gerð, að skoða eigi vandlega hvort í stjórn Síldarverksmiðja ríkisins verði ekki kosið núna með sérstökum hætti og breyting verði þá á því þegar búið er eða ákveðið er að selja meiri hlutann í fyrirtækinu. En á meðan ríkið á hlut að máli og meiri hluta í þessu fyrirtæki verði það ekki sett á hendur einum ráðherra að velja sína flokksmenn í stjórnina.
    Þannig held ég að eigi t.d. að skoða málin í sambandi við Sementsverksmiðju ríkisins ef af því verður að henni verði breytt í hlutafélag. Ég tel fráleitt að farið verði að selja hlut í því fyrirtæki vegna einokunaraðstöðu þess á markaðnum. Ég held að skoða verði hvert og eitt þeirra fyrirtækja sem er fjallað um á þessum nótum, annars vegar að breyta þeim í hlutafélag þar sem ekki eru yfirlýstar skoðanir á lofti um að eigi að selja þau og hins vegar þeim fyrirtækjum sem á að selja. Sum fyrirtæki, sem komið hafa til umræðu í vetur, eru orðin að hlutafélögum og skemmst er að minnast að við afgreiðslu fjárlaga var ákveðið að gefa heimild til þess að selja hlutafé í Bifreiðaskoðun Íslands sem mér finnst benda eindregið til þess að menn vandi sig ekki nóg í sambandi við einkavæðingu. Það að meiri hlutinn á Alþingi skuli hafa gefið heimild til þess að selja hlutafé í Bifreiðaskoðun Íslands bendir til þess að menn hafi nákvæmlega ekkert hugsað sig um og né velt því fyrir sér hvað búið er að gerast í því máli. Það sem er búið að gerast er að ríkið hefur stofnað fyrirtæki með öðrum aðilum í þjóðfélaginu og gefið því fyrirtæki einkarétt á því að skoða bifreiðar fram að aldamótum. Gjaldskráin hefur verið geysihá. Menn hafa mótmælt því og fengið þau svör að það sé eðlilegt og til hagsbóta fyrir neytendur að fyrirtækið hafi háa gjaldskrá til að byrja með en síðar meir muni það koma neytendum til góða. Hvað svo? Svo lýsir meiri hluti á Alþingi því yfir að selja eigi hlutafé í fyrirtækinu. Hvenær á að skila arðinum til neytenda? Ætlar einhver að halda því fram að þegar búið er að selja fyrirtækið eigi þeir aðilar sem boðið verður upp á og koma til með að kaupa hlutafé í fyrirtækinu að fá þau svör að þeir eigi ekki að fá neinn arð af sínum hlutafjárkaupum vegna þess að búið sé að segja við neytendur að þeir eigi að fá eitthvað til baka af því sem þeir lögðu í stofnkostnað? Nei, það verður ekki aldeilis þannig. Ef menn selja hlutaféð eru þeir að kveðja þann möguleika að skila til baka arðinum til þeirra aðila sem hafa verið að byggja upp Bifreiðaskoðun Íslands með viðskiptum sínum. Ég vara mjög við því að halda áfram á þessari braut og ég tel reyndar að gera þurfi sérstaka athugun á Bifreiðaskoðun Íslands með það fyrir augum að einhver ákveðinn árafjöldi verði tekinn í að skila þessu herfangi til baka. Ef á í raun og veru að einkavæða þetta fyrirtæki og selja hlut í því verður ríkið fyrst, meðan það hefur afl til þess og á svona stóran hlut í fyrirtækinu, að sjá til þess að svo gangi fram sem yfirlýst hefur verið að neytendur fái til baka það sem þeir hafa lagt inn. Úr því sem komið er tel ég hins vegar eðlilegt að stefna að því að Bifreiðaskoðun Íslands verði ekki einkaaðili á markaðnum og að aðrir aðilar fái tækifæri til þess að keppa við það fyrirtæki. En núna meðan það liggur fyrir að búið er að moka gróða inn í fyrirtækið með því að láta neytendur borga stofnkostnaðinn á svona fáum árum geta menn ekki rokið í það að fara að selja hlutafé í því.
    Ég nefni þetta hér vegna þess að ég sé á því og fleiru að menn hafa ekki velt hlutunum gaumgæfilega fyrir sér þegar þeir voru að ákveða með hvaða hætti ætti að ná fé út úr einkavæðingu á því ári sem nú er að líða. Því hér hafa menn sett sér markmið sem er að selja hlutafé á vegum ríkisins fyrir einn milljarð á árinu og þeir munu ekki hafa þann gróða upp úr sölunni á Síldarverksmiðjum ríkisins eða svo virðist ekki vera ef menn eru í alvöru að hugsa um að leggja því fyrirtæki til hálfan milljarð um leið og það yrði hugsanlega selt. Ég tel, eins og ég sagði áðan, að við munum eðlilega ræða hvert og eitt af þeim málum sem koma inn og alls ekki sé ástæða til þess að slá neinu föstu fyrir fram um að maður verði með eða móti. Það verður að skoða hvert og eitt mál sér og ég tel, eins og ég sagði áðan, að til greina komi að gera Síldarverksmiðjur ríkisins að hlutafélagi. Hins vegar hefur maður ákveðinn fyrirvara á þessum málum vegna þess að spor ríkisstjórnarinnar í þeim málum sem hún hefur verið að vinna að, hræða orðið töluvert. Þar er flumbrugangurinn gífurlegur og menn hafa ekki sést fyrir. Þess vegna vil ég meina að menn verði að gefa sér tíma til þess að fara betur af stað en gert hefur verið í vetur. Og ég óska þess mjög að menn gefi sér allan þann tíma sem til þarf vegna þess að hér er á ferðinni geysilega stórt mál sem má ekki verða til þess að setja atvinnulíf úr skorðum í þeim byggðum þar sem verksmiðjan hefur rekið starfsemi sína og það má heldur ekki verða til þess að setja meira úr skorðum en orðið er í þeirri starfsemi sem almennt er rekin í landinu í greininni. Þess vegna verða lokaorð mín hér þau að við skulum fara að öllu með gát og ekki gefa okkur það fyrir fram að farið verði að selja hlutafé í Síldarverksmiðjum ríkisins á þessu ári.