Síldarverksmiðjur ríkisins

81. fundur
Fimmtudaginn 13. febrúar 1992, kl. 15:27:00 (3505)

     Ragnar Arnalds :
    Virðulegi forseti. Það má vel vera rétt hjá hæstv. sjútvrh. að nú sé búið að nýta þá heimild sem Alþingi veitti til lántöku í þágu Síldarverksmiðja ríkisins og veitt var fyrir árið 1991. Lánsfjárlög voru samþykkt í marsmánuði á sl. ári. Mér er kunnugt um það að það leið mánuður eftir mánuð án þess að þessi heimild fengist nýtt. Ég hygg að það hafi a.m.k. liðið hálft ár frá því að heimildin var veitt og þar til hún var nýtt. Og ég dreg mjög í efa að hæstv. ráðherra treysti sér til að andmæla þessu. Ég stend því við það sem ég sagði hér áðan að á sl. vetri, sl. vori, sl. sumri var þessu fyrirtæki haldið í spennitreyju mánuð eftir mánuð á meðan verið var að hella sér yfir fyrirtækið í fjölmiðlum og benda á í hvaða erfiðleikum það ætti. En erfiðleikarnir stöfuðu ekki síst af því að fyrirtækið fékk ekki eðlilega rekstrarfjárfyrirgreiðslu með hliðstæðum hætti og aðrar verksmiðjur í landinu hafa fengið á því erfiðleikatímabili sem gengið hefur yfir. Það má vel vera að ýmsar raddir hafi heyrst um það að þörf sé á að styrkja eiginfjárstöðu Síldarverksmiðja ríkisins. Ég ætla að standa fast á því að það sé ekki tímabært. Ég hef ekki séð nein rök fyrir því enn um hversu háa upphæð eigi að vera að ræða og hvernig þeir reikningar komi út þegar tekið er tillit til þess að loðna er að byrja að veiðast á nýjan leik í miklum mæli og fyrirtækið hefur mikla möguleika til tekjuöflunar.
    Ég álít það stóran hlut þegar ríkið tekur á sig 500 millj. kr. af almannafé til að leggja í fyrirtæki af þessu tagi. Ég er ekki alveg búinn að gleyma því hvernig var að standa í rekstri á ríkissjóði á sínum tíma. Ég minnist þess að það gat auðvitað oft verið þörf á því að menn styngju við fótum og kæmu í veg fyrir að stórar upphæðir af þessu tagi legðust á ríkissjóð ef þess var ekki bersýnilega brýn þörf. Ég held að fjármál ríkisins og þessi hörmulegi hallarekstur sem verið hefur á ríkinu undanfarin ár stafi m.a. af því að menn hafa verið allt of fríir af sér að fleygja stórum upphæðum til hægri og vinstri sem kannski voru ekki í öllum tilvikum fullkomlega rökstuddar eða eðlilegt að láta þær af hendi og betra að beita öðrum úrræðum. Það er auðvitað afar slæmt að þurfa að láta svona heljarstóra upphæð til atvinnurekstrar af hálfu ríkisins nema þess sé sannanlega brýn þörf og ekki verði undan því vikist. Það hefur ekki verið sannað fyrir okkur hér í þinginu þó að bent sé á að Ríkisendurskoðun hafi komist að þeirri niðurstöðu og lýst með óljósum, loðnum orðum að hugsanlega þurfi að taka þarna eitthvað á. Hún nefnir ekkert um það hversu stór vandinn kunni að vera. Eins og hér var bent á af seinasta ræðumanni, þá eru viðhorf að breytast og allar líkur á því að þetta fyrirtæki hafi allt aðra og miklu betri möguleika en virtust vera á sl. ári. Á sl. ári vildi sjútvrn. ekki leyfa neinar loðnuveiðar. Talað var um að loðnustofninn væri gersamlega hruninn og allt

útlit fyrir að ekkert mundi veiðast af loðnu í bráð. Síðan hafa viðhorfin sem betur fer gerbreyst.
    Ég leyfði mér hér að vekja athygli á því að fyrirtækið sem við erum að ræða um hefði aldrei fengið krónu úr ríkissjóði fram á þessa stund og hæstv. ráðherra stóð hér upp áðan og staðfesti orð mín. Ég er þakklátur honum fyrir það og ánægður með að við skulum vera sammála um þetta grundvallaratriði málsins. En hann verður að fyrirgefa mér þó að ég bendi á þá sérkennilegu staðreynd að einmitt á því augnabliki í 50 ára sögu fyrirtækisins þegar á að fara að afhenda það einkaaðilum, þá loks eftir 50 ár er talin þörf á því að taka 500 millj. kr. af almannafé og leggja í fyrirtækið. Ég spyr: Er þetta tilviljun? Ég held að það sé ekki tilviljun. Ég held að náin tengsl séu þarna á milli og að þetta sé einfaldlega heimanmundur ráðamanna, heimanmundur foreldranna þegar þeir láta fyrirtækið af hendi og það harma ég. Ég sé ekki rök fyrir að ríkið þurfi að vera eins örlátt og hér er verið að lýsa.
    Að lokum bara eitt orð um heimamenn. Ég tek undir það sem fram kom hjá hv. seinasta ræðumanni, hv. 1. þm. Norðurl. v., að það orðalag sem tiltekið er í greinargerð, að horft verði til heimamanna í þessu samhengi, er í sjálfu sér ákaflega lítil huggun fyrir þá heimamenn sem þar eiga í hlut. Vandinn er auðvitað sá að sumar rekstrareiningar Síldarverksmiðja ríkisins eru þess eðlis að auðvelt er að koma þeim í hendur heimamanna. Það gildir t.d. um vélaverkstæði Síldarverksmiðju ríkisins á Siglufirði. Það er tiltölulega auðvelt að selja það heimamönnum og láta þá reka það og ég er ekki frá því að það geti gengið ágætlega. En þegar um er að ræða sjálfar bræðslurnar, t.d. þær sem staðsettar eru á Siglufirði, þá er þar um svo mikla fjármuni að ræða í þeim fjárfestingum að mjög erfitt er að skapa um það þess háttar rekstrareiningu sem heimamenn eiga mjög auðvelt með að höndla. Og af því stafa áhyggjur manna. Og af því stafa þau orð mín hér áðan að hyggilegra væri að upplýsa okkur þingmenn og átta sig á því til fulls hvernig menn ætla að skipta Síldarverksmiðjum ríkisins og hvort það er yfirleitt hægt að búta þær niður í svo smáar einingar með skynsamlegum hætti að einkavæðing sé skynsamleg og hyggileg. Það verður að gera áður en við þingmenn erum beðnir um að veita heimild til þess að gefa hæstv. ráðherra nánast sjálfdæmi um það hvernig hann ætli að fara að þessu.