Síldarverksmiðjur ríkisins

81. fundur
Fimmtudaginn 13. febrúar 1992, kl. 15:36:00 (3506)

     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Herra forseti. Hv. 1. þm. Norðurl. v. og reyndar einnig hv. 3. þm. þess sama kjördæmis hafa haft orð á því að ekki væri mikið gefandi fyrir það orðalag í athugasemdum um 3. gr. frv. að horft skyldi til heimamanna á þeim stöðum þar sem verksmiðjurnar eru starfræktar þegar kemur að sölu þeirra. Það er vissulega rétt að þannig er til orða tekið í athugasemdunum en þeir slepptu því báðir hv. þm. að lesa það sem þar stendur til viðbótar. Þar segir svo: ,,Skal óskað eftir viðræðum við heimamenn og/eða samtök þeirra umhugsanleg kaup á hlutabréfum.`` Með beinum og skýrum hætti er sagt að óskað skuli eftir viðræðum við heimamenn þegar að sölunni kemur.
    Ég ítreka það að ég tel eðlilegt að sett séu fram almenn stefnumið og almenn stefnumörkun um það hvernig að sölunni skuli staðið með þessum hætti miklu fremur en rígbinda það í lögunum sjálfum þannig að þeir sem ábyrgð bera á sölunni þegar þar að kemur hafi til þess hæfilegt svigrúm. En það fer ekkert á milli mála hver er stefna ríkisstjórnarinnar í þessu máli að því er þetta atriði varðar.
    Hv. 1. þm. Norðurl. v. vék hér aðeins að því að ekki hefði verið hafin veiði á loðnu sl. haust og það hefði komið sér illa fyrir verksmiðjurnar norðan lands og vestan. Það er vissulega rétt að það veldur erfiðleikum þegar veiði getur ekki hafist á haustin. Mjög sérstaklega stóð á sl. haust eftir loðnumælingar sem fram höfðu farið fyrr á því ári. Þá treystu fiskifræðingar sér ekki til að koma með ráðgjöf um upphafskvóta. Mælingar höfðu gengið mjög illa fyrr á árinu og það leiddi til þessarar niðurstöðu. Það var því útilokað við þær aðstæður sem voru sl. haust að ákveða upphafskvóta fyrr en að lokinni haustmælingu. Það er alkunna, og ekki ágreiningsefni meðal þeirra sem loðnuveiðar stunda, að haustathugun ber ekki árangur fyrr en loðnan fer að þétta sig síðari hluta októbermánaðar. Mælingar fyrr skila afar litlum árangri. En sem betur fer hafa mælingar gengið betur bæði í lok sl. árs og ekki síður nú í byrjun þessa árs þannig að horfur eru nú betri en áður og ljóst er að við fáum ráðgjöf um upphafskvóta áður en haustmælingar fara fram. Næsta haust á því ekki að verða töf á því að loðnuveiðarnar hefjist.
    Hv. 1. þm. Norðurl. e. hélt því fram að ég hefði talað um ábyrgðarleysi stjórnar Síldarverksmiðja ríkisins og kannski þeirra einstaklinga sem þar sitja. Svo er alls ekki. Ég hélt því hins vegar fram að það fyrirkomulag að kjósa á Alþingi stjórn fyrir fyrirtæki, sem ekki gæti eðli máls samkvæmt staðið þinginu beint reikningsskap gerða sinna og þyrfti ekki að standa viðkomandi ráðuneyti reikningsskap gerða sinna, starfaði ekki við það skipulag sem skapaði best aðhald. Ég er ekki að halda því fram að einhverjir trúnaðarmenn ráðherra, hvorki trúnaðarmenn mínir né annarra ráðherra, séu betur til þess fallnir að hafa stjórn fyrirtækja á hendi en menn sem kjörnir eru af Alþingi. Skipulagið er hins vegar annað. Hlutafélagaformið er umgjörð utan um ákveðnara skipulag og meiri kröfur til ábyrgðar. Þar er ekki spurning um menn eða skyldurækni manna heldur að skipulagið sé með þeim hætti að sem mestrar ábyrgðar sé gætt hverju sinni. Þess vegna hafa menn kosið hlutafélagaformið fram yfir annað að það gefur kost á þessu. Með þessu var ég ekki að leggja á nokkurn hátt mat á störf einstakra manna eða varpa rýrð á þau.
    Það er svo vissulega rétt sem kom fram hjá þeim báðum, hv. 1. þm. Norðurl. v. og hv. 3. þm. sama kjördæmis, að horfur eru nú um margt betri um loðnuveiðar á næstu tveimur árum a.m.k. en verið hafa. Vonandi leiðir það til þess að við þurfum ekki að nota alla þá heimild til 500 millj. kr. styrkingar

á eigin fé fyrirtækisins eins og heimild er til í þessum lögum. Það verður vitaskuld metið þegar það mat hefur farið fram á eignastöðu fyrirtækisins sem lögin gera ráð fyrir og rekstrarhorfur hafa verið metnar að nýju. Í þessu sambandi er óhjákvæmilegt að hafa í huga að fyrirtækið er mjög skuldugt. Það hvíldu nálægt 1.400 millj. kr. á því um sl. áramót og söluverð fyrirtækisins ræðst auðvitað af því hverjar eignir þess eru, hverjar eru skuldirnar og ekki síður hverjar eru rekstrarhorfurnar á næsta ári. Styrking á eiginfjárstöðu fyrirtækisins hefur því um leið áhrif á söluverð hlutabréfanna. Þau hljóta að seljast fyrir vikið á hærra verði eftir því sem eiginfjárstaða fyrirtækisins er betri. Hér er því ekki um það að ræða að verið sé að undirbúa það að gefa einhverjum væntanlegum kaupendum fjármuni. Þvert á móti er verið að huga að því fyrst og fremst að styrkja reksturinn og gera það að verkum að verið sé að selja rekstrarhæft fyrirtæki og að ríkissjóður tryggi og treysti sem best eiginfjárstöðu sína og eign sína þegar að þessari sölu kemur. Alveg er fráleitt að ákvæði af þessu tagi megi túlka á þann hátt að verið sé að ívilna eða gefa væntanlegum kaupendum einhverjar eignir.