Síldarverksmiðjur ríkisins

81. fundur
Fimmtudaginn 13. febrúar 1992, kl. 15:46:00 (3508)

     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar) :
    Herra forseti. Aðeins út af ummælum hv. 1. þm. Norðurl. v. um upphafskvótann, þá er það svo að ekki var talið ráðlegt að gefa bráðabirgðakvóta í upphafi síðustu vertíðar fyrr en að lokinni mælingu vegna þess að mælingin fyrr á því ári hafði mistekist. Ef allt hefði verið með felldu hefði verið gefinn út bráðabirgðakvóti áður en haustleiðangur hófst. Nú horfir hins vegar betur og það liggur fyrir nú þegar, vegna þess hve mælingin í byrjun þessa árs tókst vel, að gefinn verður út bráðabirgðakvóti í upphafi næstu vertíðar áður en haustmælingin hefst sem verður svo grundvöllur fyrir endanlegri úthlutun á kvóta fyrir þá vertíð. Ástæðan fyrir því að þetta var ekki gert sl. haust var sú að mælingar fyrr á árinu höfðu verið svo slæmar að vísindamenn okkar treystu sér ekki til að veita ráðgjöf um upphafskvóta eins og þá stóð á. Það er sem betur fer undantekningartilvik og við væntum þess að meginreglan geti gilt um þetta á næstu árum.