Síldarverksmiðjur ríkisins

81. fundur
Fimmtudaginn 13. febrúar 1992, kl. 15:47:00 (3509)

     Jóhann Ársælsson :
    Virðulegur forseti. Mig langar til þess að bæta fáeinum orðum við þetta. Í fyrsta lagi finnst mér að rökstuðningurinn fyrir því að breyta félögum yfir í hlutafélög sé ósköp haldlítill og í sjálfu sér ekki eitthvað sem hægt er að taka endalaust við. Ég hef sjálfur tekið þátt í hlutafélögum og annars konar félagaformum og ég hef ekki orðið var við þennan hreinsunareld sem menn tala um hér að hluthafafundur sé. Ég held að menn standi ekkert öðruvísi fyrir máli sínu á hluthafafundum en annars staðar og að menn sem eru kosnir af Alþingi séu ekkert ábyrgðarlausari en þeir sem kosnir eru á einhverjum hluthafafundum eða fá umboð sitt beint frá ráðherra. Ég vil því vísa þessu á bug.
    Ég tel líka ástæðu til þess að andmæla því sem hæstv. sjútvrh. sagði um að það væri ekki hægt að koma því við að þingið kysi menn til að fara með völd sín í hlutafélagi. Ég sé ekki annað en það hljóti að vera hægt að kjósa nefnd manna til þess að fara með eignarhlut fyrirtækisins í hlutafélagi, a.m.k. þangað til sá eignarhlutur hefur verið minnkaður niður í eitthvað ákveðið og þeir geti þá mætt sem einn hópur og farið með völd á hluthafafundi.
    Mig langar að lokum til að bæta við þá umræðu sem hér hefur átt sér stað í sambandi við það hvort allt of mikið sé af þessum verksmiðjum. Ég tel ástæðu til þess að menn doki við og velti þeim hlutum vel fyrir sér. Það er engin ástæða til þess að slá hlutunum endilega föstum. Þó að Síldarverksmiðjan á Siglufirði hafi ekki fengið verkefni núna skulu menn ekki gleyma því að verið er að safna núna í baukana fyrir austan sem þýðir að í það hráefni verður sett rotvarnarefni. Það þýðir að nú þegar hefur mjölið frá Íslandi fallið í verði. Á sama tíma koma boð frá kaupendum erlendis frá, t.d. frá Noregi, þar sem gæðakröfur hafa verið auknar verulega, þar sem menn vilja frekar kaupa gæðamjöl. Þetta er það sem hefur verið að þróast mjög hratt á síðustu árum. Menn geta staðið frammi fyrir því að mjöl sem unnið er eftir marga daga og með rotvarnarefni sé ekki seljanlegt nema fyrir litla peninga. Einhvers konar geymarými, sem menn hafa notað á undanförnum árum til þess að auka afköst ákveðinna verksmiðja, er kannski bara að verða liðin tíð. Ég endurtek það sem ég sagði hér fyrr á fundinum að útlit er fyrir að Síldarverksmiðjur ríkisins fái mjög gott verð fyrir gæðamjölið sem verður framleitt og er verið að framleiða á Seyðisfirði.