Lánasjóður íslenskra námsmanna

82. fundur
Mánudaginn 17. febrúar 1992, kl. 14:24:00 (3520)

     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) (andsvar) :
    Herra forseti. Hvort það geti talist réttlátt að nemendur sem nú eru í námi og þeir sem eiga eftir að fara í nám greiði þennan fortíðarvanda? Var það ekki spurningin? Sjálfsagt má deila um réttlæti í þessu sem öðru. En ég sé ekki hvernig við greiðum úr vanda lánasjóðsins með öðrum hætti en þeim að snúa af þessari braut nú þegar. Ég sé ekki hvernig við getum gert það öðruvísi. Og ég hef ekki fengið tillögur sem segja mér með hvaða öðrum hætti við getum þetta. En þá geng ég út frá einu ákveðnu atriði. Það er þetta sem við höfum fengið sönnur á í gegnum árin á Alþingi að Alþingi er ekki reiðubúið til þess að leggja meira í lánasjóðinn en raun ber vitni. Það er alveg sama hvaða stjórn hefur setið. Ég hef ekki séð nein merki þess að eitthvað slíkt sé að breytast núna. Og engin merki voru um það á síðasta kjörtímabili. Þá hallaði nú heldur á ógæfuhliðina, svo að ég sé ekki hvernig á að gera þetta með öðrum hætti.
    Ég hef verið spurður hvort það geti virkilega verið réttlátt að þeir sem nú hafa þegar hafið nám megi ekki ljúka því á gamla kerfinu. Hvenær eigum við að byrja að greiða þennan fortíðarvanda? Er eitthvað betra að byrja á því eftir tiltekið árabil? Ég sé það ekki og á meðan sígur á ógæfuhliðina.
    Til viðbótar þessu, ef það kom ekki nægilega skýrt fram áðan þegar ég var að svara hv. þm. Steingrími Hermannssyni, þá er reglan bara almenn og læknar sitja við sama borð og aðrir.