Lánasjóður íslenskra námsmanna

82. fundur
Mánudaginn 17. febrúar 1992, kl. 14:32:00 (3526)

     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Samkvæmt því frv. sem hér er verið að fjalla um er gert ráð fyrir því að einhleypur námsmaður í leiguhúsnæði sem verður hjúkrunarfræðingur borgi á ári af námsláninu sínu á tíunda starfsári úti á vinnumarkaði 86.680 kr. en borgar í dag 40.631 kr. Greiðslubyrði hjúkrunarfræðingsins meira en tvöfaldast, hækkar um meira en 100%.
    Samkvæmt sama frv. er t.d. gert ráð fyrir því að framhaldsskólakennari borgi á tíunda ári starfsferils síns eftir að hafa verið einhleypur námsmaður í leiguhúsnæði við nám í Háskóla Íslands 108.896 kr. en hann borgar í dag 51.045 kr. Og gert er ráð fyrir því að sálfræðingur, miðað við meðallaun þeirra, borgi á tíunda starfsári sínu úti í þjóðfélaginu 128.435 kr. en hann borgar í dag 60.204 kr. Með öðrum orðum, greiðslubyrði hans meira en tvöfaldast frá núverandi kerfi. Þrátt fyrir þetta er það þannig vegna vaxtanna sem ríkisstjórnin, Alþfl. og Sjálfstfl., ætla að taka að þessir einstaklingar munu í lok starfsferils síns eftir 42 ára starf skulda stórfelldar upphæðir. Hjúkrunarfræðingurinn sem borgar 86.680 kr. á ári mun skulda í lok starfsferils síns eftir 42 ár, 67 ára gamall, 4,4 millj. kr. og framhaldsskólakennarinn mun skulda eftir 42 ár í starfi 2,9 millj. kr. og sálfræðingurinn eftir 42 ár í starfi 2,3 millj. kr. Með öðrum orðum er lagður skattur á fólk sem er 8% af tekjum alla starfsævi þess. Það borgar 100--200 þús. kr. á ári af lánunum til viðbótar við annað. Menn þurfa að afla sér húsnæðis, menn þurfa að borga skatta, útsvör og allt það. Þrátt fyrir þessa þungu greiðslubyrði er vaxtatakan af lánunum svo rosaleg að hjúkrunarfræðingurinn sem ég nefndi á eftir enn þá 4 millj. þegar hann lýkur störfum. Lánið er ekki byrjað að lækka að raungildi frá því sem það er í upphafi þegar það er tekið. Ég segi alveg eins og er, virðulegi forseti, að þetta er nægjanleg ástæða til þess að segja í fullri alvöru að þetta fyrirkomulag gengur alls ekki. Það á ekki að reyna að leggja af stað með þetta fyrirkomulag því að menn munu ekki geta greitt þessar upphæðir vegna þess að sjóðurinn mun tapa stórfelldum fjármunum ef lagt verður af stað eða þá að hitt gerist að margir þori ekki í nám.
    Þessi dæmi hér, virðulegi forseti, nefni ég í upphafi máls míns til þess að undirstrika það sem ég mun koma síðar að í ræðu minni að þetta kerfi er með öllu óbrúklegt eins og það er lagt hér upp. Það er sett saman af sjónarmiðum sem taka eingöngu mið af fjárhagslegum hagsmunum sjóðsins í augnablikinu. Það er ekki horft inn í framtíðina, það er ekki horft á það hvaða áhrif þetta hefur á stöðu menntakerfisins í heild.
    Virðulegi forseti. Ég ætla í ræðu minni að víkja að nokkrum atriðum og fyrst af því sem ég nefndi aðeins áðan: Er þetta stjfrv. eða ekki? Í umræðum á Alþingi fyrir nokkrum dögum var um þetta mál fjallað og sagt frá viðtali við formann þingflokks Alþfl., hv. 17. þm. Reykv., og þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Já, það er t.d. varðandi endurgreiðslurnar. Það er alveg ljóst að það verður voðalega erfitt fyrir þingmenn Alþfl. að ætla að fara að samþykkja frv. um LÍN sem gerir það að verkum að þegar námsmenn koma heim sem menntamenn frá námi þá kunni þeir e.t.v. ekki að komast í húsnæðiskerfið. Eins og frv. lítur út í dag þá sýnist okkur sumum að sú sé raunin og við getum ekki fellt okkur við það og það er þetta atriði sem ég vonast helst til að hægt verði að breyta í meðförum þingsins.``
    Hér er auðvitað um að ræða afar alvarlegan ágreining um málið og hv. 17. þm. Reykv. segir líka í kvöldfréttum sjónvarpsins 10. febr. að þótt samkomulag hafi orðið um að leggja málið fram séu ýmsir þættir sem þingmenn flokksins eigi erfitt með að sætta sig við. Hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir komst þannig að orði að áherslumunur væri á milli stjórnarflokkanna varðandi sum ákvæði frv. samkvæmt frásögn í kvöldfréttum í sjónvarpinu 11. febr. sl. Ég fór yfir ræðu hennar, las yfir hennar ræðu og ég sé að hún nefnir fyrst og fremst tvö atriði. Ég held að það sé alveg nauðsynlegt að spyrja hv. þm. hvort það sé tæmandi listi yfir þau ágreiningsefni sem Alþfl. hefur uppi í þessu máli því að ef svo er er hér auðvitað um áherslumun að ræða en ekki grundvallarstefnumun. Það er þá rétt hjá

hæstv. menntmrh. að málið liggi þannig. En það er nauðsynlegt fyrir þingheim, ekki síst þingmenn stjórnarandstöðunnar að fá upp hver er raunveruleg afstaða Alþfl. í málinu. Satt að segja er það orðið dálítið þreytandi á hv. Alþingi að það skuli gerast aftur og aftur í ýmsum málum að einstakir þingmenn Alþfl. reyna að gera sig dýrlega með því að gera athugasemdir við mál út og suður, kenna íhaldinu um þetta í dag og annað á morgun en svo þegar upp er staðið láta þeir sig hafa það t.d. að hleypa í gegn skólagjöldum eins og þingflokkslið Alþfl. gerði af því að það notaði ekki tækifærið til að fella skólagjöldin þegar hægt var að gera það meðan varaþingmaður sat inni sem var andvígur skólagjöldunum. Þessi hráskinnsleikur þingmanna Alþfl. er auðvitað algerlega ólíðandi og náttúrlega verður að ganga úr skugga um hvort Alþfl. stendur að þessu frv. eða ekki.
    Varðandi frv. sjálft og viss grundvallaratriði í því sambandi vildi ég segja þetta í fyrsta lagi: Allur málflutningur hæstv. menntmrh., ríkisstjórnarinnar og hæstv. utanrrh. sérstaklega í sambandi við lánasjóðinn er að þetta sé eins og hver annar fjárfestingarlánasjóður, þetta sé í raun og veru ekki eins og jöfnunarsjóður lífskjara heldur eins og hver annar fjárfestingarlánasjóður þar sem eigi að reikna dæmið eingöngu út frá því hvernig það kemur út fyrir sjóðinn en eigi ekki að neinu leyti að skoða hvaða áhrif menntunin hefur fyrir þjóðfélagið í heild. Þau dæmi eru hvergi reiknuð út. Á Alþingi hefur það gerst á undanförnum árum og áratugum aftur og aftur að Alþingi hefur samþykkt að taka stórfelldar upphæðir, jafnvel milljarða kr. af einstökum ríkisfyrirtækjum og sjóðum til að létta greiðsluvanda þessara sjóða og þessara ríkisfyrirtækja. Af hverju má ekki gera það fyrir Lánasjóð ísl. námsmanna? Af hverju er hann í eini sjóðurinn sem má ekki taka þannig á? Nýjasta dæmið um þetta er að fyrrv. ríkisstjórn ákvað að létta greiðsluskuldbindingum af Rafmagnsveitum ríkisins upp á mörg hundruð milljónir kr., líklega um hálfan milljarð kr. þegar allt kemur til alls. Tekið var af Rafmagnsveitum ríkisins og Orkubúi Vestfjarða. Þetta þótti sjálfsögð jöfnunarákvörðun og það studdu það allir, líka þingmenn Sjálfstfl. sem þá voru í stjórnarandstöðu á þeim tíma og núv. hæstv. heilbrh.- og trmrh. Hvernig stendur þá á því ekki má taka núna þannig á vandamálum Lánasjóðs ísl. námsmanna að a.m.k. einhver hluti af þessum fortíðarvanda sé tekinn af sjóðnum og hann fluttur yfir á ríkissjóð rétt eins og aftur og aftur hefur gerst um margvíslega sjóði á undanförnum árum? Af hverju má ekki taka þennan sjóð þannig til meðferðar eins og önnur lífskjarajöfnunarúrræði hvort sem það er í orkuverði eða einhverju öðru?
    Sagt er að vandi Lánasjóðs ísl. námsmanna sé þríþættur. Það sé í fyrsta lagi gamall vandi frá því fyrir 1976, það sé í öðru lagi vaxtamunur undanfarandi ára og í þriðja lagi það sem ekki skilar sér sem er 10--15% af lánunum. Lítum á þennan vanda. Ljóst er hverjir bera ábyrgð á honum. Það gerum við öll, það gera þeir flokkar sem eiga fulltrúa á Alþingi. Það gera þær ríkisstjórnir sem hér hafa setið.
    Í öðru lagi er vaxtamunurinn eða skortur á framlagi ríkissjóðs í lánasjóðinn einnig á ábyrgð okkar sem hér erum. Skortur á framlagi í lánasjóðinn hefur auðvitað verið mjög alvarlegt vandamál. Á næstsíðasta ári, haustið 1990, gerði ég um það samning við Alþfl. sérstaklega að skerða framlag til Lánasjóðs ísl. námsmanna um 200 millj. kr. og veita þeim peningum í Byggingarsjóð verkamanna til þess að þáv. hæstv. félmrh. féllist á að styðja fjárlagafrv. fyrir árið 1991. Það lá ljóst fyrir í samkomulagi milli þáv. stjórnarflokka og við Alþfl. líka að þessir fjármunir yrðu teknir í lánasjóðinn á fjáraukalögum á árinu 1991 en ekki var staðið við það, það var svikið. Það var í rauninni mjög alvarlegur hlutur. En af hverju stafar þessi vandi? Hann stafar auðvitað fyrst og fremst af því að eftir 1984 var hleypt af stað hömlulausu vaxtaokri og það er það sem er að koma í hausinn á Lánasjóði ísl. námsmanna og nú á að láta námsmenn framtíðarinnar borga fyrir vaxtaokur hinna liðnu ára. Þetta er með öllu siðlaus afstaða. Út af fyrir sig var það hugsanlegur hlutur að námsmenn tækju þátt í því í framtíðinni líka að leysa þennan vanda. En þá átti ríkið líka að koma til með sérstöku átaki líkt og gert hefur verið með mörg ríkisfyrirtæki á undanförnum árum. Það fékkst ekki gert. Það er algert siðleysi að láta námsmenn framtíðarinnar eina axla byrðar af vaxtaorki frjálshyggjunnar á undanförnum árum. Það er fullkomið siðleysi.
    Þriðji þátturinn í vanda lánasjóðsins er svo sá að endurgreiðslurnar skila sér ekki

sem skyldi. Þar eru menn að tala um 10--15%. Hvað segja námsmenn í þessu efni? Þeir segja að þeir séu tilbúnir til þess að taka þetta á sig. Þeir segja það fullum fetum í nefndaráliti sem birt er sem fylgiskjal um Lánasjóð ísl. námsmanna. Þeir segja það fullum fetum að þeir séu tilbúnir til að taka þennan vanda á sig. Þess vegna segi ég, virðulegi forseti, þessi almenni vandi á annars vegar að lenda þannig að menn taki námsmenn á orðinu að því er varðar þennan þátt og hins vegar á þjóðinni, á ríkinu í heild vegna þess að við berum öll ábyrgð á þessu og það er rangt að leggja þennan vanda eingöngu á námsmenn. Það er beinlínis rangt, það er beinlínis fráleitt að ætla sér að láta íslenska námsmenn næstu áratugina borga vanrækslusyndir og vaxtaokur liðinna ára. Það er algerlega rangt.
    Hæstv. menntmrh. hefur talað nokkuð fyrir málefnum lánasjóðsins að undanförnu og ég hef hlustað á það með athygli. Mér finnst að hann geri sér ekki grein fyrir því að grundvallarforsendurnar, hugmyndaforsendurnar, á bak við lánasjóðinn eru tvær. Annars vegar eru það félagsleg jöfnunarsjónarmið og hins vegar eru það fjárhagsleg sjónarmið. Mér finnst að hann hafi látið hin fjárhagslegu sjónarmið bera hin félagslegu jöfnunarsjónarmið ofurliði og hafi ekki fengist til þess að horfa á þau með eðlilegum hætti, t.d. með því að leggja fram í þessu frv. tillögur um félagslegar áherslur í textanum um Lánasjóð ísl. námsmanna.
    Í öðru lagi varðandi lánasjóðinn, að hann er jöfnunarsjóður en ekki gróðasjóður, vil ég segja að það verður að reikna út og skoða arð samfélagsins í heild. Þetta hefur oft verið gert. Alls konar athuganir liggja fyrir á því hvernig meta má heildararð samfélagsins en ekki arð viðkomandi einstaklings eingöngu varðandi lán og námskostnað. Þetta hefur hvað eftir annað verið gert og fyrir liggja ítarlegar erlendar rannsóknir í þessu efni og ég tel að það sé í alveg fráleitt að fjalla um Lánasjóð ísl. námsmanna öðruvísi en þessi heildarsýn hafi verið skoðuð. Arður samfélagsins í heild en ekki aðeins út frá þrengstu bókhaldssjónarmiðum.
    Í þriðja lagi vil ég segja áður en ég kem að einstökum atriðum í þessu frv. að ef ríkisstjórnin væri nú bara, ég sagði bara, að skera lánasjóðinn í menntakerfinu þá horfðu hlutirnir öðruvísi við. En menntakerfið er allt eins og það leggur sig. Það er engin forgangsröð, það er ekkert mikilvægara en annað. Það er allt skorið. Ekki er verið að hlífa t.d. sveitarfélögunum sem eiga að reka leikskólann. Ekki er verið að hlífa grunnskólanum. Ekki er verið að hlífa framhaldsskólanum sem er sprunginn og margsprunginn og svör menntmrh. og ríkisstjórnarinnar virðast vera þau að loka framhaldsskólanum í haust gagnvart stórum hópi nemenda. Ekki er verið að hlífa Háskóla Íslands eða háskólum yfirleitt í þessu landi. Ekki er verið að hlífa framlögum til rannsókna, vísinda, þróunar og ekki Lánasjóði ísl. námsmanna. Þar er allt undir.
    Nú er það viðurkennd skoðun t.d. í grannlöndum okkar að menntun, rannsóknir, vísindi, gott skólakerfi, framtíðarstefna í skólamálum sé undirstaða framfara jafnvel miklu frekar en atvinnufyrirtæki. Ég nefni í þessu sambandi og bendi hæstv. menntmrh. á að kynna sér viðhorf menntmrh. Dana í þessu efni, sem ég tek fram að ég er engan veginn alltaf sammála, en hefur lagt á það mjög mikla áherslu að rífa upp framlög til rannsókna og vísinda. Íhaldsstjórnin í Svíþjóð, sem kallar nú ekki allt ömmu sína, hefur ákveðið að skólakerfið verði ekki skorið niður. Stefna sænsku stjórnarinnar er sú að hækka framlög til skólamála verulega og markmiðið --- hvað er það? Hvert er markmið sænsku íhaldsstjórnarinnar í þessu efni? Það er að Svíar eignist besta menntakerfi í heimi, hvorki meira né minna. Af hverju leggja þeir þessar áherslur? Vegna þess að þeir vilja að Svíþjóð verði samkeppnisfær við önnur Evrópuríki á komandi árum í Evrópusamstarfinu.
    Þetta vil ég benda á, virðulegi forseti, vegna þess að ég tel að í grundvallaratriðum sé rangt að fara í hlutina eins og ríkisstjórnin gerir og þó alveg sérstaklega það að hún skuli hvergi á þessu sviði gera tilraun til að lyfta einum þætti heldur fer hún með hnífinn, með bredduna, yfir allt kerfið eins og það leggur sig. Þar fær enginn að vera í friði. Það er rangt að fara svona í hlutina, beinlínis rangt. Þetta mun koma niður á lífskjörum þjóðarinnar á komandi árum. Þau verða verri fyrir vikið þegar gengið er í málin af þessu

tagi. Börnin eru framtíðin, menntunin er framtíðin fyrir þetta þjóðfélag og ef við vanrækjum hana missum við það fólk sem síst skyldi burt úr landinu.
    Ég geri ráð fyrir því að einhverjir þingmenn hafi verið viðstaddir þegar var sýnd kvikmynd á laugardaginn var í Bíóhöllinni sem heitir á mínu tungumáli JFK, afar athyglisverð mynd sem segir frá Kennedy Bandaríkjaforseta. Menn muna kannski eftir því hvernig hann reif upp stemningu í Bandaríkjunum með geimferðaprógramminu, með þeim áætlunum sem þáverandi stjórn gerði. Sú áhersla hafði ekki aðeins áhrif á hin æðstu vísindi, hún hafði áhrif á skólakerfið eins og það lagði sig. ( ÖS: Þetta gerði Khrústsjov líka.) Það sem tungunni er tamast er hjartanu kærast, segir 17. þm. Reykv., aldrei má hann heyra góðs manns getið án þess að nefna um leið einhvern af aðalriturum kommúnistaflokks Ráðstjórnarríkjanna og er það fróðlegt og eimir eitthvað aðeins eftir af því enn þá, en of lítið á pörtum. Staðreyndin er sú . . .  (Gripið fram í.) já, hann er eitthvað lasinn greyið. (Forseti hringir.) Forseti lemur í bjölluna.
    Staðreyndin er auðvitað sú ef ríkisstjórnir gefa tóninn af þessu tagi eins og forseti Bandaríkjanna gerði þarna á þessum tíma hefur það áhrif, gífurleg áhrif. Ekki aðeins á háskóla og rannsóknir í þessu tilviki heldur á skólakerfið allt eins og leggur sig. Ástæðan til þess að menn telja að hagvöxtur í Bandaríkjunum fari nú minnkandi, lífskjör fara versnandi, er m.a. sú að menn hafa á allra seinustu árum vanrækt skólakerfið þrátt yfir ítrekaðar yfirlýsingar Bush í þeim efnum. Það er fróðlegt að hugsa um það, virðulegi forseti, að hér sat einu sinni í ríkisstjórn íhaldsstjórn, heldur vond, undir forystu Steingríms Hermannsonar. Hún ákvað á samdráttarskeiðinu 1985 að stofna rannsóknasjóð. Þá var látið renna í sjóðinn sem samsvaraði 150 millj. kr. á ári. Hvernig var sjóðurinn notaður? Jú, hann var m.a. notaður til að efla samvinnu við atvinnulífið. Tugir fyrirtækja hafa lagt fjármuni í rannsóknir og þróunarverkefni vegna þessa sjóðs og þótt þrengdi að á árinu 1985 og þótt ríkisstjórnin ræki almenna íhaldsstefnu var það engu að síður svo að menn tóku þetta atriði út úr. Þetta er ég að nefna vegna þess að þetta er sennilega í fyrsta sinn sem um er að ræða allsherjaratlögu að öllu skóla-, mennta-, rannsóknar- og vísindakerfinu í landinu, eins og það leggur sig. Hvergi er að sjá stingandi strá svo langt sem augað eygir.
    Þessa þætti varðandi jöfnunaratriðin í fyrsta lagi, varðandi arð samfélagsins í öðru lagi og varðandi menntunina almennt í þriðja lagi vildi ég gera að umtalsefni áður en ég kem að frv. sjálfu í einstökum atriðum og ætla svo að lokum í þessum þætti að lesa upp nokkrar línur úr málgagni Vinnuveitendasambands Íslands, en það rit heitir ,,Af vettvangi``. Þar er sagt frá fjárlagatillögum sænsku ríkisstjórnarinnar fyrir árið 1992 og þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Lögð er áhersla á gæði menntunar með það að markmiði að gera sænska menntakerfið það besta í Evrópu. Gott skólakerfi er að mati ríkisstjórnarinnar nauðsynlegt til að auka samkeppnishæfni sænsks atvinnulífs. Framlög til menntamála eru aukin og þá fyrst og fremst til æðri menntunar og rannsókna.``
    Þetta var lýsing á stefnu sænsku íhaldsstjórnarinnar varðandi menntamál sérstaklega. Ég hygg að það gæti verið hollt fyrir núverandi ríkisstjórn að lesa sig aðeins til um það hvernig þetta er hjá öðrum íhaldsstjórnum því að ég býst við að þær séu flestar skárri og margar reyndar miklu skárri en þessi sem kratarnir halda uppi á Íslandi í dag.
    Það var auðvitað alveg ljóst að þegar núv. ríkisstjórn kom til valda var það eitt af keppikeflum hennar að ráðast á Lánasjóð ísl. námsmanna. Hæstv. utanrrh. hefur um árabil haldið uppi þindarlausum áróðri gegn Lánasjóði ísl. námsmanna. Hann hefur haldið fleiri ræður en nokkur annar stjórnmálamaður á Íslandi um það hvað Lánasjóður ísl. námsmanna sé vitlaus sjóður. Það hafa verið almennir fundir í nafni hans um allt land um þessi mál á undanförnum árum. Innan síðustu ríkisstjórnar var afar erfitt að halda uppi málstað Lánasjóðs ísl. námsmanna og reyndar skólakerfisins yfirleitt gagnvart formanni Alþfl. og er auðvitað dapurlegt að Alþfl. skuli eiga slíkan formann eftir að hafa átt Gylfa Þ. Gíslason sem mennta- og menningarmálaráðherra í 15 ár, en það er önnur saga. (Gripið fram í.) Hann hefur aldrei verið formaður hjá mér, en þú hljópst til hans, en hann er í flokknum hjá þér? Já, hann er í Alþfl., hann viðurkenndi það.

    Staðreyndin er auðvitað sú að þessi formaður Alþfl. hefur verið rótarlegri gagnvart íslensku skólakerfi en flestir aðrir stjórnmálamenn núna á undanförnum árum. Ég get sagt margar sögur af því hvernig það gerðist í samskiptum okkar í síðustu ríkisstjórn en þær sögur hafði ég hugsað mér að geyma til ævisögu minnar sem kemur út á næstu öld á sæmilega virðulegum tíma þegar menn eru farnir að rita sínar ævisögur. En það er satt að segja með þeim hætti að ég hygg að fáir mundu trúa því hvað formaður Alþfl. lagði mikið á sig til þess að koma að skólakerfinu með niðurskurðarhnífinn hvenær sem tækifæri gafst. Auðvitað var það þá þannig að um leið og Sjálfstfl. mætti til leiks í ríkisstjórn með Alþfl. þá er það það fyrsta sem gert var að hjóla í lánasjóðinn. Hvernig var það gert? Ég ætla að rifja aðeins upp aðgerðirnar sl. sumar.
    Í fyrsta lagi var framfærsla námsmanns lækkuð um 16,7%. Alþfl. studdi það.
    Í öðru lagi var framfærslustuðull námsmanns í heimahúsum hækkaður úr 50% af framfærsluláni í 75%. Það lán var hækkað um 50%.
    Í þriðja lagi var tekjutillitinu breytt úr 75% og það lækkað niður í 50% þannig að hátekjunámsmenn styrktu stöðu sína verulega samkvæmt ákvörðunum ríkisstjórnarinnar sl. sumar. Ráðstöfunarfé námsmanna sem voru með tekjur undir framfærslumörkum, þ.e. undir 165 þús. kr. skertist um 16,7%, en námsmaður með 550 þús. kr. í tekjur var skerðingarlaus eftir þessar breytingar, hvor á móti annarri, og námsmaður með 800 þús. kr. jók ráðstöfunartekjur sínar um 20%. Námsmaðurinn með 167 þús. kr. lækkaði um 17%, námsmaðurinn með 550 þús. skertist ekki neitt en námsmaðurinn með 800 þús. kr. styrkti tekjustöðu sína um 20%. Af því að tekjuskerðingin, tekjutillitið, var lækkað úr 75 í 50%. Þetta var jafnaðarstefnan sem var byrjað á að framkvæma sl. sumar. Af þeirri 16--17% skerðingu sem var hjá lágtekjunámsmönnum fór því þó nokkur partur til baka í auknum stuðningi við hátekjunámsmenn frá því sem ella hefði verið. Auðvitað kom þetta sérstaklega hart niður á stúlkum sem stunda háskólanám vegna þess að þær eru að jafnaði miklu tekjulægri en strákar sem stundum hafa möguleika á því að rífa upp sæmilegar sumartekjur. Þannig kom þetta kom þeim til góða sem höfðu möguleika á háum tekjum en hinir voru lækkaðir alveg sérstaklega. Það hefði mátt hafa lækkunina minni út frá sjónarmiðum sjóðsins ef ekki hefði sérstaklega verið lagst í víking til að auka tekjur þeirra námsmanna sem hæstar tekjur höfðu. Þetta var jafnaðarstefnan sem var framkvæmd síðastliðið sumar þegar núverandi ríkisstjórn kom fyrst að lánamálum námsmanna. Þetta var allt gert í nafni þess að lánasjóðurinn væri að fara á hausinn og það þurfti endilega að grípa til slíkra ráðstafana. Auðvitað stóðst það ekki að tekjur hátekjunámsmanna þyrfti að hækka og styrkja þannig Lánasjóð ísl. námsmanna. Auðvitað stóð ekki steinn yfir steini í þeirri röksemdarfærslu.
    Síðan kemur það frv. sem hér liggur fyrir, fyrst nál. sem var mikið rætt í sumar. Að sjálfsögðu var rætt við formann þingflokks Alþfl. í hvert einasta skipti sem málið var rætt og hann var ævinlega óskaplega áhyggjufullur og sár og jafnaðarmannslegur í útliti þegar það var rætt.
    Hvað er verið að leggja til í frumvarpinu? Í fyrsta lagi er það lagt til að leggja 3% á vexti á námslán og er nokkuð fróðlegt að sjá hvað það þýðir. Það þýðir samkvæmt frv. sjálfu að heildaráhrifin af þessum 3% vöxtum eru í lok þess tíma sem er hér reiknaður út, komin upp í nærri 2 milljarða kr. eins og þetta er hér sett upp. Það er einnig athyglisvert og segir sína sögu um frv. að í frv. er gert ráð fyrir því að vextir af námslánum verði 3% og megi ekki lækka. Það stendur ekki í frv. að vextir á námslánum skuli vera allt að 3%, heldur stendur ,,vextir á námslánum skulu vera 3%`` og af orðalagi í 6.--11. gr. má ráða að menn geri ráð fyrir því að vextirnir verði óumbreytanlegir um aldur og eilífð. ( Gripið fram í: Þó svo að þeir lækki á markaðinum.) Jafnvel þó að þeir lækki á markaðinum. Það er auðvitað alveg yfirgengilegt að svona skuli vera að hlutunum staðið og sýnir náttúrlega handarbakavinnubrögðin við frv. eins og ég kem að síðar. Í þessu frv. eru dæmalausir fingurbrjótar og aulaháttur sem náttúrlega helgast og skýrist af því að námsmenn fengu ekki að koma nálægt frv. með athugasemdir sínar. Námsmannahreyfingunni var sýndur þvílíkur dónaskapur í málinu að það er nú kapítuli út af fyrir sig.

    Í öðru lagi er gert ráð fyrir því að endurgreiðslur hefjist fyrr en nú er. Áhrifin af því að koma fram á bls. 14 í texta frumvarpsins þar sem gert er ráð fyrir að þetta skili þegar fram í sækir 400--600 millj. kr. á ári.
    Í þriðja lagi er talað um að lánstíminn verði fjórfaldur námstími. Þó verði sett þak við 4% og 8% eftir 5 ár. Um þetta er einnig ítarleg tafla í greinargerð frv. og um þetta fjalla námsmennirnir líka sérstaklega í skjali sínu sem þeir sendu frá sér í síðasta mánuði og ég vil koma hér aðeins að á eftir. En niðurstaðan af þessum þremur aðalbreytingum, af vöxtum, endurgreiðslum, og lánstíma, er sú sem ég var að rekja áðan að hjúkrunarfræðingurinn sem borgar í dag 40 þús. á ári á tíunda ári úti á vinnumarkaði borgar samkvæmt frv. 86 þús. kr. á ári og skuldar þegar hann lýkur störfum um 4 millj. kr. Hann er því ekki farinn að lækka höfuðstólinn af því að vextirnir hafa spilað það upp allan tímann. Framhaldsskólakennari sem borgar nú 51.045 kr. á ári borgar samkvæmt frv. á tíunda ári úti á vinnumarkaði 108.896 kr. á ári. Upphæðin hefur meira en tvöfaldast. Niðurstaðan er eins hjá honum að þegar hann lýkur störfum og hefur borgað af þessu í 42 ár á á hann samt eftir milljónir króna af höfuðstól lánsins af því að vextirnir hafa spilað þetta svo mikið upp allan tímann.
    Það er þetta sem ég á við, virðulegi forseti, þegar ég segi að frv., bæði út frá sjónarmiði menntastefnunnar en líka út frá hagsmunum sjóðsins sem slíks, gengur ekki upp af því að menn munu ekki ráða við að greiða þetta með þeim hætti sem þarna er verið að gera kröfur um. Það gengur heldur ekki upp út frá hagsmunum sjóðsins sem slíks.
    Þetta eru þrjár aðalbreytingar frumvarpsins.
    Næstu breytingar eru minni háttar eða öðruvísi en þó þýðingarmiklar og ég ætla aðeins að fara yfir þær. Það er í fyrsta lagi að ekki verði lánað til sérnáms sem ekki er á háskólastigi og þá vil ég spyrja hæstv. menntmrh. hvaða sérnám sem ekki er á háskólastigi verður þarna fellt út. Talað hefur verið um verknám í fjölbrautarskólum og iðnskólum. Á þetta við um Fósturskólann, á þetta við um Þroskaþjálfaskólann, á þetta við um bændaskólana? Hvaða skólar eru það sem strikast út samkvæmt þessu ákvæði?
    Ég vil líka benda á, virðulegi forseti, og menntmrh. kannski alveg sérstaklega að þetta ákvæði er algjörlega fráleitt út frá fjárhagslegum forsendum, það er algjör óþarfi. Þetta skilar engu fyrir sjóðinn. Áhrif 20 ára reglunnar --- t.d. ef hv. þm. Árni Johnsen ætlaði að fara í verknám, ég sé að hann er að ræða það við hæstv. menntmrh., hann er að vísu kominn yfir tvítugt --- eru þau að í mesta lagi nær sjóðurinn inn 40 millj. kr. ári þannig að miðað við sjóð sem við erum að tala um að velti 4--5 milljörðum á ári --- ég er satt að segja alveg undrandi á því að menntmrh. skuli, mér liggur við að segja leggja sig niður við það að gera tillögu um þetta því þetta skiptir engum sköpum um afkomu sjóðsins en er aftur á móti afar mikilvægt frá sjónarmiði menntunar og sérstaklega verkmennta í landinu. Til samanburðar má t.d. nefna að vaxtatakan hækkar ríkisframlagið verulega eða alveg upp í 700 millj. kr. á einu ári. Þessi upphæð hér, þessi 20 ára regla, þessi sérstaka árás á iðnnemana skilar 30--40 millj. kr. á ári. Ég skora á hæstv. menntmrh. og hæstv. ríkisstjórn að strika þetta út því að samt nóg er að gert í sambandi við vextina, lánstímann og endurgreiðslurnar.
    Í öðru lagi varðandi atriði af öðru tagi sem smeygt er þarna inn sem einnig skilar í rauninni mjög litlu. Það eru áhrif niðurfellingar lífeyrissjóðsgreiðslna. Þær skila 35 millj. kr. á ári og ég endurtek það í þessu sambandi að ég skora á hæstv. menntmrh. að taka þetta út líka. Því það er alveg nóg að gert svo ekki sé meira sagt varðandi vextina, endurgreiðslurnar og lánstímann.
    Og í þriðja lagi er þarna gert ráð fyrir lántökugjaldi sem skilar að vísu alveg upp í 90 millj. kr. árið 2009 samkvæmt þessum töflum aftast í skjalinu. Þetta er 1,2% lántökugjald og ég tel að það eigi að fella þetta niður líka. Þó að menn séu að breyta þessu lánakerfi, og er í raun og veru algerlega ófyrirgefanlegt hvernig að er því staðið, eiga menn ekki að vera að seilast eftir svona hlutum. Ég mundi vilja ráðleggja hæstv. menntmrh. að skoða það vel hvort ekki mætti strika út eina sex eða átta svona liði úr frv. sem raska í raun engu um heildarmarkmið frv. en það er það sem hæstv. menntmrh. hefur lagt áherslu

á, það eru heildarmarkmiðin. Ég reikna með að hann eigi við hin fjárhagslegu markmið þótt það væri náttúrlega miklu skemmtilegra að hann talaði aðallega um hin menntunarlegu markmið.
    Ein breytingin samkvæmt frv. er sú að Vísindasjóður eigi að taka við styrkjum. Þá verð ég að segja, virðulegi forseti, að ég vil fá þessar tillögur um Vísindasjóð. Það er alveg útilokað að afgreiða þetta mál öðruvísi en að fá þessar tillögur um Vísindasjóð. Úr því að verið er að vísa á Vísindasjóðinn þá þurfum við að fá að sjá þetta. Ég tel að menntmn. eigi að gera kröfu um að fá að sjá þessar tillögur um Vísindasjóð og helst í frumvarpsformi. Ég er alveg sannfærður um að það mundi auðvelda málið mjög í meðferð þingsins ef hæstv. menntmrh. legði fram frv. um að margefla Vísindasjóð og bæta við hann svona 400--500 millj. kr. Eða um hvað eru menn að tala í sambandi við Vísindasjóð? Er þetta bara einhver flótti? Strika út styrki hér og segja: Já, ég ætlaði að efla Vísindasjóð. Engar tillögur liggja fyrir um að efla Vísindasjóð. Og í fjárlögum fyrir árið 1992 er ekki gert ráð fyrir neinni eflingu Vísindasjóðs.
    Ein breytingin samkvæmt þessu frv. er að það verði tveir ábyrgðarmenn á lánunum. Um það hefur talsvert mikið verið rætt. Ég vil taka undir það sem fram kom hjá hv. 10. þm. Reykv. áðan, að núverandi kerfi er örugglega hugsað þannig að ábyrgðinni sé hægt að dreifa á marga einstaklinga. Menn fá í raun og veru nýtt skuldabréf í hvert skipti sem þeir taka lán eins og þetta er í núverandi kerfi, ef ég man rétt. En þarna er gert ráð fyrir að eitt heildarbréf verði gefið út í hvert skipti bæði fyrir það sem er nýtt og líka fyrir það sem komið er. Segjum að um væri að ræða meðal- eða miðlungsnámsmann í þessu efni. Ég lét reikna út fyrir mig dæmi hjá reiknistofu Háskólans um miðlungsnámsmann. Setjum svo að einn maður ætti t.d. þrjú börn sem öll ætluðu að verða framhaldsskólakennarar, hefðu heillast af þeirri starfsgrein. Þau hefðu verið einhleyp allan námstímann, þessi þrjú. Hvert um sig mundi hafa fengið lán, 2.160.000. Hvað mundi þá viðkomandi ábyrgðarmaður vera skuldsettur fyrir hárri upphæð að loknum þessum tíma? Um 6,5 millj. Og hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir sagði að það væri náttúrlega nauðsynlegt að gera þá kröfu til ábyrgðarmanna að þeir væru borgunarmenn fyrir þessum ábyrgðum sem þeir væru að skrifa upp á. Það er náttúrlega alveg rétt og það er göfugur hugsunarháttur. Ég verð að segja alveg eins og er að ég stórefa að þetta gangi almennilega upp. Ef menn eru svo heppnir að eiga efnilega ómegð, efnilega og heldur vel gefna ómegð, getur það komið mönnum alveg hrottalega í koll.
    Eigum við að fara að kaupa ábyrgðir fyrir krakkana okkar hjá Kaupþingi? Eða öðrum slíkum fjársterkum aðilum, kannski Eimskipafélagi Íslands. Ég er alveg viss um að þetta ábyrgðarmannakerfi gengur ekki upp. Það gengur ekki upp að ætla sér að kalla tvo ábyrgðarmenn í hverju einasta tilviki fyrir öllum upphæðunum vegna þess að fólk ræður ekki við að greiða þessar ábyrgðir. Staðreyndin er auðvitað sú að það þarf ekki nema eitt áfall af einhverju tagi til þess að viðkomandi ábyrgðarmaður sé með sín fjármál eftir það með þeim hætti að það verði ekki neitt við ráðið. Ég held þess vegna að það eigi að slá því föstu að breyta þessum ábyrgðarreglum til fyrra horfs, vera með einn mann og gefa kost á skiptingu bréfanna á fleiri en einn aðila. Þetta dæmi finnst mér vera enn eitt dæmið um það hvað menn hafa í raun og veru vandað sig lítið við þetta frv. því það liggur alveg í augum uppi að námsmenn t.d., sem hefðu komið að þessu eða foreldrar námsmanna sem eiga kannski nokkra krakka í framhaldsskólum og háskólum, hefðu séð undireins að þetta gengur ekki. Þetta mundi kollvarpa fjárhag fjölskyldna ef illa færi. Ég skora á ráðherra að breyta þessu atriði.
    Eitt atriði sem ég vil einnig nefna og fara fram á að menn endurmeti alveg sérstaklega og það er að námsaðstoð verði aldrei greidd út fyrr en sýnt hefur verið fram á námsárangur. Þetta þýðir það að nemi í háskólanámi er í raun alltaf á fyrsta ári. Sá sem ekki á startkapítal frá foreldrum sínum eða sjálfum sér til að hefja nám og tekur bankalán á fyrsta ári til að framfleyta sér er í raun og veru að borga 10% vexti til bankanna allan sinn námstíma. Þetta sakleysislega ákvæði jafngildir 6--8% eða 10% flatri skerðingu á námslánum allan þann tíma sem menn eru í námi. Ég held að það sé nauðsynlegt að þetta

atriði verði endurskoðað og ég vil hvetja til þess í fullri alvöru að það verði endurskoðað.
    Þegar ég hvet til þess að nokkur tiltekin, fimm til sjö atriði, verði endurskoðuð en nefni ekki þessi fyrstu þá geri ég mér auðvitað grein fyrir því hvað ríkisstjórnin þykist vera að gera þó ég telji það vitlaust. En ég tel að að væri kannski eðlilegt að hún héldi sig við það en væri ekki að hlaupa út um allar koppagrundir eftir minni háttar atriðum af ýmsu tagi sem eru ýmist óframkvæmanleg, dýr eða sár og ætti að vera útlátalítið að strika út úr þessum textum.
    Eitt atriði sem er í 12. gr. frv. um að stjórnin geti veitt skuldabréfalán og hæstv. menntmrh. svaraði því í andsvari áðan og ég tel það út af fyrir sig alveg fullgilt svar þó að ég sjái ekki neinn tilgang með ákvæðinu hér í frv. Mér sýnist að það sé kannski verið að gefa mönnum þarna vonir sem ekki muni verða hægt að standa við af því að sjóðurinn verður náttúrlega krappur af fjármunum. Því vildi ég beina því til hæstv. menntmrh. og hv. menntmn. að þetta verði bara fellt út, vegna þess að ég sé satt að segja ekki að þetta sé til neins.
    Ég hef farið yfir meginbreytingar frv., virðulegur forseti, og ætlaði síðan aðeins að víkja að örfáum einstökum greinum frv. Það eru meira og minna bæði almenn pólitísk atriði og tæknileg atriði sem ég ætla að nefna.
    Í 3. gr. er fellt út þetta svokallaða ,,félagslega tillit`` í sambandi við lánasjóðinn. Það held ég að sé eitt alvarlegasta atriðið við breytingarnar á Lánasjóði ísl. námsmanna, að það er fellt út. Þetta félagslega tillit er orðað þannig núna í gildandi lögum:
    ,,Opinber aðstoð við námsmenn samkvæmt lögum þessum skal nægja hverjum námsmanni til að standa straum af eðlilegum náms- og framfærslukostnaði þegar eðlilegt tillit hefur verið tekið til fjölskyldustærðar, framfærslukostnaðar þar sem nám er stundað, tekna námsmanns og maka hans, lengdar árlegs námstíma og annarra atriða er áhrif kunna að hafa á fjárhagsstöðu námsmanns.`` Þetta er alveg tekið út og í staðinn segir:
    ,,Miða skal við að námslán, samkvæmt lögum þessum, nægi hverjum námsmanni til að standa straum af náms- og framfærslukostnaði meðan á námi stendur.
    Stjórn sjóðsins er heimilt að taka tillit til annarra atriða er áhrif kunna að hafa á fjárhagsstöðu námsmanns.``
    Þetta er alveg afleitt eins og það er orðað hér. Ég er út af fyrir sig ekki að ímynda mér að ríkisstjórnin eða Alþfl. hafi neinn áhuga á því að koma þessu félagslega tilliti þarna inn aftur eftir ummæli formanns Alþfl. á fundi í Háskólabíó um daginn þar sem ekki var hægt að skilja hann öðruvísi en að hann væri að vísa námsmönnum á félagsmálastofnanir, sem eru tekjulitlar og peningalausar eins og kunnugt er. Hins vegar fyndist mér það lágmarkskrafa til Alþfl. a.m.k. og jafnvel Sjálfstfl. að það væri talað um að markmið laganna væri jafnrétti til náms. Þó það væri ekki annað en einhver almenn markmiðslýsing af því tagi. Það er ekkert slíkt þarna inni. Og ég held að ég leyfi mér að bæta við enn einni áskoruninni á hæstv. menntmrh. um að kanna hvort ekki er hægt að fá Alþfl. til að fallast á að hafa þarna jafnrétti til náms. Hvort formaður Alþfl. væri ekki til í að fallast á það að nefna jafnrétti til náms. Það gæti verið að hann gerði það svona í verulegum samningaviðræðum, það er hugsanlegt. En þarna vantar þetta ákvæði í þetta frv.
    Í 6. gr. frv. segir, með leyfi forseta:
    ,,Stjórn sjóðsins ákveður hvaða skilyrðum lántakendur og ábyrgðarmenn skuli fullnægja. Ábyrgð ábyrgðarmanns, eins eða beggja, getur fallið niður enda setji námsmaður aðra tryggingu sem stjórn sjóðsins metur fullnægjandi.``
    Ég geri athugasemd við þennan málslið. Stjórn sjóðsins ákveður hvaða skilyrðum lántakendur og ábyrgðarmenn skuli fullnægja. Ég tel að það eigi ekki að hafa þetta vald eingöngu í höndum stjórnar sjóðsins. Ég tel eðlilegt að um þetta sé sett reglugerð og að um þetta mál séu nánari ákvæði í lögunum sjálfum. Hvert er hæfi ábyrgðarmanna eða ábyrgðarmanns eins og ég hefði reyndar talið að væri nóg í þessu efni.
    Síðasta mgr. 6. gr. hljóðar svo:
    ,,Stjórn sjóðsins er heimilt að innheimta lántökugjöld af veittum lánum.`` Af veittum lánum. Ég efast um að þetta standist. Ég efast um að það standist stjórnarskrá og venjur að heimila stjórn sjóðsins að ákveða lántökugjöldin, þ.e. upphæð þeirra. Ég tel að hinn beini framkvæmdarvaldshafi, þ.e. ráðherrann, eigi að ákveða þessi lántökugjöld ef þau eru tekin. Ég er reyndar þeirrar skoðunar, eins og fram hefur komið áður, að ég tel eðlilegast að þetta með lántökugjöldin verði fellt niður en það er alla vega alveg fráleitt að láta stjórn sjóðsins ákveða lántökugjaldið. Með því er Alþingi að afhenda stjórn sjóðsins skattlagningarvald og það er algerlega óeðlilegt. Og ég vil fara fram á það við hæstv. menntmrh. að þetta atriði verði skoðað sérstaklega.
    Ég vil einnig á ný gera athugasemd við síðustu mgr. 7. gr. Þar stendur: ,,Lán úr sjóðnum skulu bera 3% ársvexti af höfuðstól skuldarinnar.`` Ég hef lýst þeirri skoðun minni bæði hér og annars staðar að ég tel að það eigi ekki að taka vexti af námslánum, alls ekki. En ef þetta ákvæði er inni á annað borð þá eiga menn auðvitað að segja: Lán úr sjóðnum skulu bera allt að 3% vexti, en ekki að festa það með þeim hætti sem gert er ráð fyrir hér. Þó að markaðsvextir færu niður fyrir 3% væri samkvæmt orðanna hljóðan óheimilt að lækka vexti Lánasjóðs ísl. námsmanna og það auðvitað gengur ekki að búa þannig um lagatexta.
    Í 8. mgr. 8. gr., á miðri síðu 3 í frv., segir svo, með leyfi forseta:
    ,,Hundraðshlutinn, sem ákvarðar hámark árlegrar endurgreiðslu . . .  skal margfaldaður samkvæmt hlutfallslegri breytingu á lánskjarvísitölu frá 1. júlí á tekjuöflunarári til 1. júlí á endurgreiðsluári.``
    Þetta hlýtur að vera villa. Hér hlýtur að eiga að standa: Fjárhæðin sem ákvarðar, margfaldast með breytingum á lánskjaravísitölu.
    Ég tel auðvitað þótt ég hafi hundrað athugasemdir að gera við þetta frv. sé mér skylt að koma svona leiðréttingum á framfæri. Ég sé ekki betur en hérna sé um að ræða beina villu og vil biðja hæstv. menntmrh. og hv. menntmn. að taka það til athugunar.
    Í 10. gr. er gert ráð fyrir tiltekinni nefndarskipan. Þar segir: ,,Verði á endurgreiðslutíma námslána breyting á skattalögum þannig að veruleg breyting verði á því er telst útsvarsstofn, frá því sem nú er, skal hámark árlegrar endurgreiðslu skv. 8. gr. reiknað af stofni sem nefnd þriggja manna ákveður. Skal nefndin þannig skipuð að menntmrh. tilnefnir einn nefndarmann, fjmrh. annan en ríkisskattstjóri skal vera formaður nefndarinnar.`` Ég hefði talið að námsmenn ættu að eiga aðilda að þessari nefnd og það séu engin rök fyrir því að halda þeim fyrir utan hana.
    Ég hef áður vikið að skuldabréfakerfinu í 12. gr. og ætla þessu næst að víkja að 18. gr. þar sem segir: ,,Ef skuldari samkvæmt lögum þessum er jafnframt að endurgreiða námslán samkvæmt lögum nr. 72/1982 eða eldri lögum, getur hann annaðhvort greitt samkvæmt þeim lögum óháð og til viðbótar endurgreiðslum samkvæmt þessum lögum eða hann getur sameinað eldri skuld á skuldabréf sem hann gefur út samkvæmt þessum lögum og endurgreitt alla skuldina samkvæmt því, þó þannig að vextir reiknist eingöngu af lánum teknum samkvæmt þessum lögum.`` Hvað þýðir þetta? Það þýðir að námsmaður sem hefur tekið lán á undanförnum árum og er að taka lán í ár eftir gamla kerfinu verður að breyta því láni yfir í lán samkvæmt nýja kerfinu. Eða að borga 3,75% af tekjunum sínum fyrir gamla lánið og 8% af tekjunum sínum fyrir nýja lánið. Menn eru með öðrum orðum neyddir til að velja milli þess að greiða 8% af allri summunni, líka gamla láninu, eða 11,75% af tekjunum sínum fyrir bæði lánin. Sér er hvert valfrelsið, virðulegur forseti. Ég heyrði það einhvers staðar haft eftir stjórnarliðinu að þetta væri sérstakt valfrelsi. Að velja á milli þess að borga 11,75% af lánunum eða 8% af öllu saman. Þetta náttúrlega gengur ekki. Og ég efast um að það standist að standa svona að hlutunum. Í raun og veru er verið að pína menn sem hafa átt rétt á námsláni aftur í tímann til að sæta allt öðrum og miklu verri kjörum heldur en gert er ráð fyrir þegar þeir ganga frá sínum lánum.
    Ég hef gert hér örfáar athugasemdir við frv. sem slíkt en vil þessu næst benda á að á bls. 82 og áfram í frv. er annað frv. Það er frv. sem samstarfsnefnd námsmannahreyfinganna lagði fram. Hún hafði viku eða svo til að ganga frá sínum pappírum og það var lagt fram heilt frv., mjög myndarlegt frv. sem hefur ekki hlotið nægilega mikla athygli. Ég ætla ekki að fara út í einstök atriði þess frv. en benda á að í því kemur fram ábyrg og skynsamleg afstaða námsmannahreyfinganna sem gerir tillögu um að lækka veltu sjóðsins á ári um 400--500 millj. kr. Ég er ekki viss um að önnur hagsmunasamtök hafi á undanförnum árum gengið fram með jafnábyrgum hætti, eins og það er kallað, og námsmenn hafa gert og sýna í þessu frv.
    Í frv. og greinargerðinni með því segja þeir, með leyfi forseta:
    ,,Í þeirri yfirlýsingu sem undirritaður setti fram á síðasta fundi nefndarinnar kemur fram hvaða þætti námsmenn vilja skoða frekar. Námsmenn telja að allri vinnu sé í raun ólokið í þessu máli. Þau drög að frv. sem hér eru sett fram bera keim af því. Námsmenn vilja setjast niður með fulltrúum ríkisvaldsins og komast að sameiginlegri niðurstöðu um þennan mikilvæga sjóð.``
    Í raun og veru var það þannig þegar þetta frv. sem hér er til umræðu var samið, þá var verið að slá á útrétta sáttarhönd námsmannahreyfinganna í landinu. Hæstv. menntmrh. sagði aftur á móti á fundi í Háskólabíói fyrir nokkrum dögum að hann væri tilbúinn til þess að athuga margar þeirra athugasemda sem fram hafa komið. Ég kaus að skilja hann þannig að eðlilegar viðræður gætu hafist við námsmenn og fleiri aðila um breytingar á þessu frv. frá þeim texta sem hér liggur fyrir. Það er a.m.k. greinilegt að námsmennirnir eru tilbúnir til þess að halda þessum viðræðum áfram og reyna að leiða þær til lykta með einhverjum skynsamlegum hætti. Hins vegar er það auðvitað ljóst að þeir námsmenn sem standa að þessu áliti samstarfsnefndar námsmannahreyfinganna, sem er yfirgnæfandi meiri hluti íslenskra námsmanna, vilja ekki taka þátt í ýmsum þeim þáttum sem hér er verið að gera tillögu um.
    Í frv. og fskj. með því, fskj. 6 á bls. 101, er birt sérálit frá Elsu B. Valsdóttur um breytingar á lánakerfinu þar sem m.a. er gert ráð fyrir leiðum til úrbóta og þar segir, með leyfi forseta:
  ,,1. Herða endurgreiðslur.
    2. Láta endurgreiðslur hefjast tveimur árum eftir námslok í stað þriggja.
    3. Fella niður lífeyrissjóðsgreiðslur.
    4. Leggja á lántökugjald.
    5. Láta lánþega greiða kostnað við innheimtu.``
    Hér er auðvitað bersýnilega um að ræða tillögur sem ganga auðvitað ekki eins langt og tillögur ríkisstjórnarinnar en mjög langt og hæstv. menntmrh. sagði reyndar á téðum fundi í Háskólabíói að í raun og veru væru þessar hugmyndir sem ég var hér að lesa upp mjög í ætt við tillögur frv., að ég segi ekki undirstaða, þær væru mjög í ætt við tillögur frv. eða eitthvað í þá áttina. Hitt er alveg ljóst að yfirgnæfandi meiri hluti námsmanna er samferða í þessu máli þó að félagið Vaka hafi kosið að tilnefna menn í þessa endurskoðunarnefnd.
    Samstarfsnefnd námsmannahreyfinganna hefur sent frá sér ítarlega skýrslu um þetta frv. sem hér hefur verið vitnað í af fyrri ræðumönnum um þetta mál og vil ég í sjálfu sér ekki fara að tefja tímann á því frekar hér. Ég vil þó aðeins benda á eitt atriði sem fram kemur mjög skýrt í þessu áliti námsmannahreyfinga en þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Það kemur svolítið spánskt fyrir sjónir að settar séu reglur um lengd lánstíma samhliða því sem tekjutengt þak er sett á endurgreiðslurnar. Þetta þýðir það í raun að slík viðmiðun vegur alltaf til lækkunar greiðslubyrði þannig að þeir sem hafa mjög háar tekjur og hafa ekki þurft á lánum að halda nema í stuttan tíma eru langt frá því að greiða það hlutfall sem tekjutengda þakið gerir ráð fyrir. Við getum tekið dæmi,`` segir hér, ,,af manni sem er í fimm ára laganámi. Hann á góða að og skuldar að loknu námi 1 millj. kr. Þessa 1 millj. á hann samkvæmt frv. að greiða á 20 árum, fjórföldum námstíma. Hann greiðir því 50 þús. kr. á ári plús vexti. Ef þessi maður hefði 200 þús. kr. á mánuði eða 2,4 millj. í árslaun er hér um að ræða rúm 2% af árstekjum í 20 ár. Þetta hlutfall lækkar síðan eftir því sem tekjurnar hækka. Samkvæmt núgildandi kerfi mundi þessi maður greiða 3,75% af tekjum til LÍN og klára að borga lánið upp á miklu styttri tíma en nú er.``
    Endurgreiðsluhlutfallið lækkar því og tíminn lengist frá því sem er í gildandi kerfi.

Þetta er sem sagt hagstæðara fyrir ákveðinn hóp námsmanna sem taka lág lán en hafa miklar tekjur. Tillagan gerir ráð fyrir því að þetta fólk komist betur af en gert er ráð fyrir í núgildandi kerfi og það er auðvitað alveg fráleitt fyrirkomulag.
    Ég vil einnig leyfa mér, virðulegi forseti, að finna aðeins að því að hér vantar með frv. nokkuð mikilvægar upplýsingar. Ég þakka fyrir þær töflur sem birtar eru. En mér finnst að þarna vanti ýmsar samanburðarupplýsingar og ég hef í samráði við hæstv. menntmrh. sent Hagfræðistofnun Háskóla Íslands bréf. Ég gerði það 8. jan. 1992 með spurningum um tiltekin atriði sem nauðsynlegt er að fá gleggri upplýsingar um það hvernig þetta kerfi kemur hugsanlega til með að þróast. Ég ætla ekki hér, virðulegi forseti, að fara út í það að ræða um langtímaáhrif þessa kerfis. Ég bendi á að í rauninni breytir það sáralitlu fyrir sjóðinn sem slíkan, t.d. á næsta ári. Á árinu 1993 er breytingin 168 millj. kr. Á árinu 1994 er breytingin 270 millj. kr. Það er því ekki svo að þetta frv., ef samþykkt verður, gerbreyti stöðu sjóðsins frá því sem er í dag. Það vekur auðvitað ugg að hæstv. menntmrh. segir í viðtali við fjölmiðil að hér sé ekki nóg að gert, það verði að skera meira. Eða hvað þýða þessi orð sem menntmrh. segir í viðtali við sjónvarpið 11. febr. sl.? Hann segir eftirfarandi, með leyfi forseta:
    ,,Jafnvel þær breytingar sem þetta frv. hefur í för með sér nægja ekki einar og sér til að laga LÍN að þeim fjárhagslega veruleika sem við stöndum frammi fyrir.``
    Hvað þýðir þetta? Þýðir þetta það að skerða eigi útlánareglurnar enn frekar vegna þess að samkvæmt frv. sjálfu er ekki reiknað með lækkun á fjárþörf sjóðsins á næsta ári nema upp á 168 millj. kr. Er sem sagt verið að halda því fram að það komi enn frekari skerðing á framfærslulánin en hér er gert ráð fyrir eða hvað þýðir þetta? Ég held að það sé mjög nauðsynlegt að fá upplýsingar um það. Það er að vísu eitt atriði, sem er ekki reiknað út í frv., ekki í fskj. frv. og getur auðvitað skipt gríðarlegu máli. Það er að frv., ef samþykkt verður, mun draga stórkostlega úr lánveitingum Lánasjóðs ísl. námsmanna, lántökur munu dragast stórkostlega saman úr þessum sjóði þegar það blasir við fólki að kannski eftir áratugi, eftir störf í áratugi og greiðslur í þennan sjóð, skuldi það eftir sem áður margar milljónir kr., t.d. eftir 40--42 ára starf eða þegar það fer á ellilífeyri við 67 ára aldur. Ég er alveg sannfærður um að ef þetta gengur eftir mun fjöldinn allur af fólki ekki leggja í það að fara í nám vegna þess að það eru svo hrottalegar hótanir um breytingar á einkafjárhag fólks sem ákvæði frv. hafa í för með sér. Það getur vel verið að það verði svo mikill fjöldi sem ekki þorir í nám strax á næsta ári að það hafi í för með sér verulegan samdrátt í fjárveitingum sjóðsins. Segja menn þá ekki: Já, allt í lagi og gott eða hvað? Skyldi það ekki geta haft áhrif á þróun íslenska þjóðfélagsins þegar því fólki fækkar sem hefur efni á því að fara í háskólanám? Auðvitað væri fróðlegt að ræða þetta mál, ekki aðeins út frá menntastefnunni í heild heldur líka út frá hagsmunum launamanna í heild sem slíkra. Ætli þetta frv. hafi t.d. verið rætt í kjarasamningunum núna? Ég held að ástæða væri til þess. Hér er verið að skerða kjör láglaunafólks á Íslandi af því að það er það fólk sem hefur notið Lánasjóðs ísl. námsmanna.
    Það er auðvitað ljóst að ýmsir eru óánægðir með þetta frv. þótt þeir hafi ekki hátt. Það kom hér ein lítil ályktun frá fyrirbæri sem heitir SUJ. Það mun þýða Samband ungra jafnaðarmanna. Þeir eru ekki í salnum frekar en venjulega þegar verið er að tala við þá nema hæstv. forseti og formaður fjárln., einn af verkalýðsleiðtogum þjóðarinnar til skamms tíma og einn af fyrrv. leiðtogum SUJ alveg örugglega. SUJ dáir og harmar framgöngu ráðherranna, segir hér í blaði, fyrirsögn. Dáir og harmar, það er ekki dáinn, horfinn, nei. Það er dáir og harmar. Þar segir að Samband ungra jafnaðarmanna mótmæli öllum skerðingum ríkisstjórnarinnar á fjárframlagi til menntamála. Það er greinilegt að hæstv. utanrrh. hefur ekki lesið þetta. Lýst er vonbrigðum með framgöngu þingflokks Alþfl. við afgreiðslu fjárlaga þar sem Háskóli Íslands var þvingaður til að leggja á skólagjöld. Þá skora ungir jafnaðarmenn á þingflokk sinn að styðja ekki frv. menntmrh. um Lánasjóð ísl. námsmanna. Nú vill svo til samkvæmt upplýsingum sem fram eru komnar að þetta er ekki bara frv. menntmrh., þetta mun vera stjfrv. Umhvrh., utanrrh., heilbrrh., félmrh. munu standa að þessu --- og iðnrh. Við skulum ekki gleyma honum. Ég vona að hann frétti þetta aldrei.

Allir fimm styðja væntanlega þetta frv. menntmrh. og eru sérstakir flutningsmenn þess. Þeir segja að frv. sé þannig að það gerbreyti stefnu Alþfl., það er ekkert annað, í þessu grundvallarmáli. Samband ungra jafnaðarmanna krefst þess að nú þegar verði fjárframlög til Háskóla Íslands aukin og heimildir til innheimtu innritunargjalda verði afnumin. Það er nefnilega það. Ég vona að þetta mál verði rætt í menntmn., fyndist eðlilegt að kalla þar fyrir formann SUJ, Sambands ungra jafnaðarmanna, og fara aðeins yfir málið og spjalla við hann. Er hann ekki að vestan sá? Ég held að hann sé frá Vestfjörðum. Þeir eru þekktir fyrir það að geta talað, a.m.k. þeir sem eru í Alþfl. Ég held að ástæða væri til þess að fara aðeins yfir það með forustu Sambands ungra jafnaðarmanna.
    Hæstv. menntmrh. svaraði áðan í andsvörum nokkrum atriðum og ég hef komið inn á mörg þeirra núna. Hann sagði að skólagjöld við Háskóla Íslands yrðu lánshæf eins og þetta liti út í dag. Ég vil spyrja hann að því hvað sú ákvörðun þýðir í útgjöldum fyrir Lánasjóð ísl. námsmanna að leggja á skólagjöld í Háskóla Íslands. Hvað þýðir það í útgjöldum fyrir LÍN samkvæmt væntanlegum úthlutunarreglum skulum við segja? Í öðru lagi tók ég eftir þeim orðaskiptum sem fóru fram á milli hæstv. menntmrh. og hv. 7. þm. Reykn. varðandi framhaldsnám erlendis. Ég vil biðja hæstv. menntmrh. um að íhuga aðeins nánar hvort það er að öllu leyti sanngjarnt hvernig að þeim afgreiðslum er staðið. Það er þannig að ef íslenskir námsmenn eru í framhaldsnámi erlendis, jafnvel á einhverjum styrkjum frá viðkomandi skólum og/eða launum, þá mun lánasjóðurinn ætla að innheimta afborganir af gömlum lánunum sem menn hafa tekið á meðan þeir voru í aðfaranáminu. Tökum dæmi af læknum sem hafa verið hér í námi í sex eða sjö ár og hafa verið með lán frá Lánasjóði ísl. námsmanna. Þeir fara út til Bretlands eða Bandaríkjanna, Bretland er algengt nú orðið. Þeir fara þangað til náms og vinna á sjúkrahúsi og fá einhverjar greiðslur fyrir en það eru ekki laun í eiginlegum skilningi, það eru styrkir. Það eru tiltölulega mjög lágar upphæðir, a.m.k. í nokkrum tilvikum sem ég þekki til. Þá er gert ráð fyrir því núna hjá Lánasjóði ísl. námsmanna að innheimta afborganir af gömlu lánunum meðan læknarnir eru í þessu framhaldsnámi. Ég hélt að þetta væri bersýnilega ósanngjarnt en mér skilst að skrifstofa lánasjóðsins hafi úrskurðað að það ætti að fara með þetta mál með þeim hætti að taka af þeim þessar afborganir. Út af fyrir sig er örugglega rétt að engar heimildir eru í skuldabréfunum til að fresta þessum afborgunum eins og skuldabréfin eru. Það getur því verið að það þyrfti að gefa út ný skuldabréf. Ég er viss um að það er heimild til þess að gefa út ný skuldabréf og þyrfti þá að breyta þeim skuldabréfum sem menn hafa þegar undirritað í þessu sambandi.
    Ég hef hér, virðulegi forseti, farið yfir þessi mál, bæði almennt frá liðnum árum þau grundvallaratriði sem þetta frv. snertir, og þær breytingar í einstökum atriðum sem frv. tekur á. Ég ætla að enda mál mitt með því að segja það að ég tek undir það sem fram hefur komið hjá öðrum talsmönnum Alþb. í þessum umræðum að ég held að það sé mjög varasamt sem menn eru að gera hér. Menn eru í raun og veru að brjóta niður lífskjarajöfnunareðli þessa sjóðs. Sjóðurinn stenst ekki þannig. Hann stenst ekki sem hluti af neinni uppbyggilegri menntastefnu ef þetta fer í gegn og hann stenst heldur ekki fjárhagslega vegna þess að greiðslubyrðin verður svo ofurþung, þegar fram í sækir, að fólk muni ekki ráða við þetta. Þess vegna skora ég á hæstv. menntmrh. og hv. þm. stjórnarflokkanna sem hér eru og aðra sem um málið kunna að véla að íhuga mjög alvarlega hvort hér er ekki ranglega að hlutunum staðið, hvort ekki sé skynsamlegra að setjast niður með námsmönnum og taka í þá útréttu sáttarhönd sem fram kemur m.a. í þessu frv. þar sem þeir, samstarfsnefnd allra námsmannahreyfinganna á Íslandi, bjóðast til að fara í viðræður um fyrirkomulag þessara mála til frambúðar. Ætli það sé ekki skynsamlegra og líklegra til árangurs en að vaða fram með hrottaskap í viðkvæmu máli af þessu tagi?
    Margt fleira mætti auðvitað segja um aðdraganda þessara mála á liðnum árum en ég ætla ekki að þreyta menn með því, m.a. um aðdragandann að þessu árið 1982. Ég tel satt að segja að það sé ekki of mikið sagt þó að sagt sé að Alþb. eigi mjög myndarlegan þátt í þróun námslánakerfisins á undanförnum árum og áratugum. Þar hafa menn verið með almenn jafnréttis- og jöfnunarsjónarmið í huga af því að Alþb. er og hefur verið

jafnaðarmannaflokkur og vill jöfnun lífskjara. Því hefur verið haldið fram, herra forseti, að við séum með besta námslánakerfi í heimi og við höfum ekki efni á því og það sé svo dýrt. Ef menn skoða þetta frv. og fskj. með því um samanburð við námslánakerfi á Norðurlöndum, þá kemur fram að ef þetta frv. verður að lögum, þá er námslánakerfið á Norðurlöndum yfirleitt betra en hér af því að það er ekki bara námslánakerfi, það er námsstyrkjakerfi. Ég held því að við séum ekki eingöngu að ráðast að jöfnunarstefnu heldur kannski fyrst og fremst að menntastefnu sem getur orðið undirstaða betri lífskjara hér í framtíðinni. Ég lýsi ábyrgð á hendur þeim mönnum sem láta aðvörðunarorð af því tagi sem fallið hafa hér úr þessum ræðustól undanfarna daga um þetta frv. sem vind um eyrun þjóta. Málið er miklu alvarlegra en svo að menn geti leyft sér svoleiðis vinnubrögð.