Lánasjóður íslenskra námsmanna

82. fundur
Mánudaginn 17. febrúar 1992, kl. 18:21:00 (3530)

     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (andsvar) :
    Frú forseti. Ég hjó eftir því að hv. 17. þm. Reykv. Össur Skarphéðinsson sagði í ræðu sinni áðan að það væri mjög mikilvægt að halda hinu félagslega tilliti sem nú væri í lögum um námslán og hann sagði: Íslendingar eru stoltir af þessu félagslega tilliti og vilji menn hverfa frá því þá bregður nýrra við. Nú vil ég upplýsa hv. 17. þm. Reykv. og þingflokksformann Alþfl. að á fundi sem haldinn var í Háskólabíói nú fyrir helgina eyddi formaður Alþfl. mjög miklu af sínum tíma í það að ræða einmitt þá hugmynd að taka fjölskyldutillit út úr Lánasjóði ísl. námsmanna. Hann lagði mikla áherslu á að þetta þyrfti að gerast, þetta væri sín skoðun og þetta þyrfti að gerast. Og hann sagði: Það eru til önnur kerfi í landinu til að sinna fjölskyldunum, og var þá væntanlega að vísa á það barnabótakerfi sem undanfarið hefur verið skorið nokkuð hressilega niður af núv. ríkisstjórn. Hann vísaði sem sagt á barnabótakerfið og sagði að það væri sín skoðun að það ætti að taka fjölskyldutillitið út úr lánasjóðnum. Og auðvitað hlýtur þetta að vekja nokkurn ugg meðal námsmanna vegna þess að úr lögunum, eins og þau eru núna, er verið að taka þá málsgrein sem tryggði þeim ákveðinn rétt, tryggði þeim ákveðið fjölskyldutillit þannig að það mætti ætla að það lægi beint við að breyta þá úthlutunarreglunum á þá lund að ekki verði tekið tillit til barna námsmanna í framtíðinni. Ég vil fá skýrt svar við því hvort um þetta sé málefnaágreiningur í Alþfl. og þingflokksformaðurinn sé á allt öðru máli heldur en flokksformaður.