Lánasjóður íslenskra námsmanna

82. fundur
Mánudaginn 17. febrúar 1992, kl. 18:49:00 (3534)

     Steingrímur J. Sigfússon :
    Herra forseti. Ég vil segja fyrst fáein orð almennt um þetta mál sem hér er til umræðu, frv. til laga um Lánasjóð ísl. námsmanna eða breytingu á lögum um námslán og námsstyrki, eins og það heitir að gildandi lögum. Varðandi tilgang þessarar löggjafar og sögu vil ég koma því á framfæri að að mínu mati er hér á ferðinni einhver merkilegasta félagsmálalöggjöf landsins og jafnréttislöggjöf á þessu sviði sem oft hefur í umræðum á undanförnum árum ekki notið sannmælis að mínu mati. Gjarnan hefur staðið upp úr í umfjöllun um málefni lánasjóðsins eða námslán og námsstyrki undanfarin ár að þetta kerfi sé dýrt og kosti mikil fjárframlög úr sameiginlegum sjóðum á ári hverju. Það hefur verið sú hlið þessa máls sem landsmenn hafa heyrt mest um og upplifa sjálfsagt margir hverjir út frá fjölmiðlaumfjöllun fyrst og fremst. Mönnum verður það fyrst fyrir þegar nefndur er á nafn Lánasjóður ísl. námsmanna að sjá þar fyrir sér mikil útgjöld og miklar fúlgur streyma úr ríkissjóði, ef ekki jafnvel enn verri hluti eins og beinlínis misnotkun á fé eða hálfgerða spillingu í meðferð opinberra fjármuna. Þetta er að mínu mati miður, herra forseti, vegna þess að í skuggann fellur þá hið merkilega félagslega hlutverk þessa sjóðs og sú staðreynd að okkur Íslendingum hefur með þessari löggjöf tekist á síðustu 10--15 árum að tryggja betur jafnrétti til náms en líklega flestum öðrum þjóðum. Okkur hefur tekist að tryggja betur með þessari löggjöf að menn hefðu á Íslandi sæmilega jafna stöðu til þess að afla sér menntunar eins og hugur þeirra stæði til og geta þeirra leyfði og efnahagur og aðstæður mismunuðu mönnum ekki í verulegum mæli í því tilliti. Þetta kann einhverjum að finnast óþörf orð og að sjálfsögðu ekki mikil speki. En staðreyndin er sú að þetta er talsvert mikilvæg hlið þessa máls og ekki eitthvað sem á að meta og finna léttvægt. Þvert á móti ætti að mínu mati að hafa þessa staðreynd í huga og að leiðarljósi í allri umræðu um þetta mál til þess að vega saman og meta annars vegar kostina og hins vegar útgjöldin sem starfrækslu þessa kerfis er samfara.
    Nú er það ljóst, og flestir viðurkenna það, að við vanda er að stríða í málefnum Lánasjóðs ísl. námsmanna. Ég held að fáir mæli gegn því að málefni hans verði tekin til skoðunar og farið yfir með hvaða hætti er hægt að tryggja tilvist og framtíð þessa námsaðstoðarkerfis eða jöfnunarkerfis. En menn eiga ekki að gera það með þröngsýni út frá því einu að þarna sé á ferðinni dýrt fyrirkomulag og það þurfi að skera það svo og svo mikið niður með tilliti til stöðu ríkissjóðs á líðandi stundu án þess að horfa í þær afleiðingar sem það getur haft.
    Ég vil sem sagt byrja mitt mál og nálgast þetta umræðuefni út frá þeirri hugsun minni að við séum hér með í höndunum þrátt fyrir allt, og viðurkenni jafnframt þá erfiðleika sem þarna er við að glíma, einhvern merkilegasta hluta íslenskrar félagsmálalöggjafar. Ég lít ekki síður á þetta sem félagsmálalöggjöf en menntamál og held að í rauninni hafi fátt orkað meiru til þess að láta draum fyrri kynslóða á Íslandi rætast þegar menn voru hér að rífa sig upp úr eymdinni og fátæktinni á síðustu áratugum 19. aldar og framan af þessari öld, fátt stærra hafi ræst af því sem menn voru þá að gæla við og binda vonir við en einmitt það að nú sé flestum ef ekki öllum sem til þess hafa andlega getu og andlega burði sæmilega greið leið til æðri mennta í landinu. Svo var ekki eins og við vitum og þekkjum.
    Framhaldsmenntun og yfirleitt einhver umtalsverð menntun var hér alveg fram á þessa öld forréttindi efnastéttarinnar og yfirstéttarinnar í landinu og síðan fengu einstaka efnilegir námsmenn, sem svo var kallað, að fljóta með fyrir einhverja slembilukku örlaganna, yfirleitt vegna þess að einhverjir framsýnir menn og stórhuga tóku þá að sér, studdu þá til náms eins og kallað var. Að sjálfsögðu ber ekki að lasta það að ýmsa mæta menn geymir Íslandssagan sem þannig gátu látið draum sinn og aðstandenda sinna um menntun rætast. En það er enginn minnsti vafi á því að oft réð hrein tilviljun því hverjir urðu þar fyrir valinu og hverjir ekki. Þeir eru ófáir efnilegu námsmennirnir, a.m.k. hvað hæfileikana snertir, sem aldrei urðu neinar námsmenn vegna þess að þá var málum þannig háttað hjá okkur að ekkert fyrirkomulag af þessu tagi sem hér um ræðir var við lýði. Almenn og útbreidd fátækt olli mestu um það að öllum þorra almennings var með öllu ókleift að koma sínum börnum til mennta.
    Nú finnst mér einhvern veginn eins og menn séu búnir að búa við það ástand í nógu langan tíma til að þeir gangi að því sem gefnu að öllum sé gefinn kostur á að mennta sig án tillits til efnahags. Menn hafa sofnað á verðinum og eru búnir að gleyma því hvers virði það er að tryggja það með löggjöf og farnir að horfa á þetta viðfangsefni fyrst og fremst frá öðrum sjónarhóli, sem sagt þeim að það kosti svo og svo mikið fyrir ríkissjóð á ári og því verði að breyta. En þeir velta því ekki mikið fyrir sér hverjar afleiðingarnar verða. Þetta segi ég vegna þess, og mun koma að því hér á eftir, að ég tel að ákveðnir þættir í þessu frv., sem hér er til umræðu, séu spor aftur á bak hvað það snertir að tryggja mönnum jafnrétti til náms. Það verður að draga úr því og vinna gegn því með skynsamlegum lögum og skynsamlegri framkvæmd að mönnum sé mismunað með tilliti til efnahags hvað þessi grundvallarmannréttindi snertir sem ég vil flokka það undir að mönnum sé, innan þeirra almennu marka sem aðstæður setja að sjálfsögðu, ekki mismunað hvað aðstöðu til náms snertir. Nú er enginn að tala um það og engan hef ég heyrt a.m.k. á síðari árum halda fram þeirri útópísku heimsmynd að allir eigi að geta menntað sig endalaust og án nokkurra takmarkana. Slíkt er að sjálfsögðu ekki vænleg stefna fyrir neitt þjóðfélag. En innan þess ramma sem settur er um menntun með almennum ákvörðunum í þjóðfélaginu tel ég að það séu nánast mannréttindi að menn séu jafnir fyrir lögunum.
    Það var þannig á sínum tíma --- það er nauðsynlegt að rekja aðdraganda þessa máls --- að þegar sett voru lög um námslán og námsstyrki eða eldri lagaákvæði endurskoðuð á árunum í kringum 1980, sem leiddi til þeirrar lagasetningar sem nú er búið við og er frá árinu 1982, þá var unnið að því með mjög skynsamlegum hætti eins og reyndar kemur fram í greinargerð með frv. því sem námsmannahreyfingarnar komu sér saman um að leggja fram sem sitt álit nú á haustmánuðum. Þar er vitnað í greinargerðinni í það hvernig unnið var að endurskoðun laganna um námslán og námsstyrki á þeim tíma sem leiddi til lagasetningarinnar á árinu 1982. Mér er þetta nokkuð vel í minni því að þannig stóð á að ræðumaður var þá við nám í Háskóla Íslands og ég átti m.a. sæti í stúdentaráði þegar þessi endurskoðunarvinna var að fara í gang, gott ef ég var ekki varaformaður stúdentaráðs á þessum árum og í einhverri nefnd sem vann fyrir hönd stúdentaráðs að þessum lánasjóðsmálum. Þá var þetta mál til mikillar umræðu í skólunum og það gafst allgóður tími til að ræða það. Námsmenn áttu aðild að nefnd sem starfaði mikið og starfaði lengi og hafði þann tíma og fékk þann tíma sem til þurfti til að ljúka sínu starfi. Þó skipti held ég mestu og var farsælast í öllu því starfi að í þeirri nefnd sátu fulltrúar allra stjórnmálaflokka. Hvers vegna segi ég að það hafi verið það sem mestu skipti? Jú, ég segi það vegna þess að ég tel að sú staðreynd hafi hafið málið upp fyrir hefðbundna pólitíska flokkadrætti. Með því að allir flokkar áttu sína fulltrúa í nefndinni þá dróst umræðan síður niður á hið hefðbundna plan flokkadrátta, flokkspólitískra deilna eða armaskipta milli stjórnar og stjórnarandstöðu. Það átti ekki bara við um stjórnmálaflokkana, pólitíkina í landinu í þeim skilningi. Það auðveldaði líka námsmannahreyfingunum að hefja sig upp úr því fari að þar væru flokkspólitísk landamerki að vefjast fyrir mönnum og menn litu á eðli þessa starfs í rauninni sem þverpólitískt og unnu að því sem slíku.
    Það náðist líka að lokum, eins og menn þekkja, furðubreið samstaða um lagasetninguna á þeim tíma. Nú kann ég auðvitað ekki að rekja það í einstökum atriðum hvernig þetta var en ég man ekki betur en allþokkalegt samkomulag hafi að lokum tekist um meginlínurnar í þessum breytingum. Þær gengu í grófum dráttum út á það, svo að hlutirnir séu einfaldaðir og styttir tímans vegna, að verðtrygging námslána og hertar endurgreiðslureglur, hertir skilmálar námsmanna í viðskiptum við lánasjóðinn eða lánakerfið, voru keyptir gegn því að á móti tryggði ríkið með starfrækslu lánasjóðsins fulla brúun umframfjárþarfar nemenda eins og það var kallað á vondu máli og ég veit ekki hvort betra orð hefur fundist, 100% brúun umframfjárþarfar. Þannig var kansellístíllinn eða tæknisletturnar á þeim tíma þegar ég var að ræða þetta upp úr 1980. Það var úrslitaatriði, lykilatriði, og eins og menn muna á þessum árdögum verðtryggðra lána og rétt er að minna menn á að námslánin voru með fyrstu lánum, ef ekki þau fyrstu, sem voru verðtryggð. Menn sættust á það svo og hertar endurgreiðslur og að ýmsu leyti breytta skilmála námslánanna gegn tryggingunni um að það yrði á móti séð fyrir fjármunum til þess að tryggja að fullu á hverjum tíma með starfrækslu lánasjóðsins umframfjárþörf námsmanna þegar frá væru dregnar þær tekjur sem þeir hefðu samkvæmt tilteknum reglum.
    Menn áttuðu sig auðvitað á því að í þessu voru ýmis skilgreiningaratriði og ég held að menn, sem stóðu að samkomulaginu og lagasetningunni á sínum tíma, árið 1982, hafi ekki reiknað með því að þetta stæði endilega óbreytt um aldur og ævi. En menn reiknuðu hins vegar með því að meginefnið, sem þarna var teflt um, yrði ekki slitið úr samhengi. Og ég er alveg sannfærður um það að námsmenn voru við því búnir að í ljósi reynslunnar yrðu ákvæðin um endurgreiðslureglurnar skoðaðar því að þær byggðu á áætlun, að sjálfsögðu. Það var gróft mat manna að endurgreiðsluhlutfallið yrði um 80% þegar lögin voru samin. Það var þumalputtareglan á sínum tíma. En ég man vel eftir umræðum um að þetta væri auðvitað ekki í hendi. Það færi að sjálfsögðu eftir launaþróun í landinu, þ.e. af hvaða upphæð launa menn væru að greiða þarna tiltekið hlutfall, og það gæti farið eftir ýmsum fleiri hlutum hvernig endurgreiðslurnar skiluðu sér til sjóðsins. Ég ég man eftir því að menn voru við því búnir að til þess gæti komið að þessar reglur þyrfti að endurskoða til að tryggja sjóðnum svona u.þ.b. þær tekjur til baka sem reiknað var með. En ég held að menn hafi gert það í trausti þess að það yrði þá ekki á móti kippt út úr dæminu því sem námsmönnum var til hagsbóta og tryggingar í þessu samkomulagi, þ.e. að 100% brúun yrði á umframfjárþörfinni. Með því móti töldu menn sig vera og hafa fram til þessa dags talið sig vera að kaupa jafnrétti til náms. Með því og með því einu er í raun og veru hægt að fullyrða að sæmilegt jafnrétti án tillits til efnahags manna ríki í þessum efnum að þessi fjárþörf, eins og hún er mæld á hverjum tíma, sé brúuð.
    En því miður fór það svo að fljótlega á eftir kom til valda ríkisstjórn fjandsamleg þessari lagasetningu og hóf árásir á þetta kerfi og segja má að samfellt í tíu ár hafi menn síðan verið að verja þessa merkilegu félagsmálalöggjöf sem þarna náðist í gegn. Þar riðu á vaðið hæstv. menntamálaráðherrar Sjálfstfl., hv. fyrrv. alþm. og hæstv. fyrrv. menntmrh. Ragnhildur Helgadóttir, sömuleiðis hv. Sverrir Hermannsson, og svo nú núv. og þriðji hæstv. menntmrh. Sjálfstfl. sem situr eftir að löggjöfin tók gildi 1982, Ólafur G. Einarsson hv. 1. þm. Reykn. Hæstv. ráðherrann var ekki nema nokkurra vikna gamall í embætti þegar hann fylgdi í fótspor forvera sinna á menntamálaráðherrastóli í Sjálfstfl. og hóf árásir á lánasjóðinn. Það hefur þegar verið rakið hér í ræðunni hversu fjandsamlegar tilgangi lánasjóðsins aðgerðir hæstv. menntmrh. á sl. vori voru. Mér finnst kannski mega bæta aðeins við í þeim efnum að þær ráðstafanir stríða beinlínis gegn megintilgangi og hugsun laganna um Lánasjóð ísl. námsmanna því þær ganga gegn þeim markmiðum að sjóðurinn sé til þess að reyna að tryggja mönnum jafnrétti til náms án tillits til efnahags og t.d. án tillits til hluta eins og þeirra hvort þeir hafa aðstöðu til þess að búa heima hjá sér eða ekki og hvort þeir hafa góða aðstöðu til þess að komast í hálaunaða vinnu í námsleyfum eða ekki.
    Ég vil láta það koma hér fram af því það hefur skort á það í umræðunni að menn minni á að þær breytingar, sem hæstv. menntmrh. gerði á síðasta vori, voru auðvitað sérstaklega fjandsamlegar námsmönnum af landsbyggðinni. Vegna hvers? Jú, vegna þess að tekjutillitið miðað við tekjur var þarna hækkað en þó sérstaklega vegna þess að þeim var í raun og veru ívilnað alveg sérstaklega sem búa í heimahúsum. Þeirra aðstaða var löguð þannig að í sumum tilvikum batnaði fjárhagsstaða þeirra við þessar breytingar ef þeir hafa sæmilega vel launaða vinnu á sumrin. Og hverjir eru það sem ekki hafa þessa aðstöðu? Það eru einkum og sér í lagi námsmenn af landsbyggðinni. Námsmenn t.d. í Háskóla Íslands af landsbyggðinni njóta yfirleitt ekki þeirrar aðstöðu að geta búið, og alls ekki auðvitað, heima hjá foreldrum sínum. Þannig að þær breytingar hæstv. menntmrh. voru auðvitað mjög gegn anda laganna.
    Þannig er það, hæstv. forseti, að saga þessara laga frá 1982 og jafnvel þó lengra væri farið er dálítið vörðuð af því að ákveðin öfl í landinu hafa sótt á um það stanslaust og samfellt að reyna að eyðileggja þessi lög, að reyna að spilla þannig framkvæmd þeirra að megintilgangi og markmiði þeirra væri stofnað í hættu. Þær eru auðvitað frægar árásir Alþfl. á lánasjóðinn. Það hefur verið þráhyggja hjá hæstv. utanrrh. að staglast á lánasjóðnum og það hefur verið sérstakt markmið hans að koma vöxtum á námslán. Þau sjónarmið hafa ærið oft skotið upp kollinum í Sjálfstfl. að þessu þyrfti öllu saman að breyta og umbylta. Þeim mun merkilegra er það í raun og veru að mönnum hefur þrátt fyrir allt tekist að verja þessa löggjöf í tíu ár og það hefur gerst vegna þess að um hana hefur ríkt, fyrir það fyrsta, mjög góð samstaða allra námsmanna í landinu með litlum frávikum, óverulegum frávikum. Það má kannski segja að sumir hafi verið linari í vörninni en aðrir en sleppum því. Í öðru lagi þá hafa hér á Alþingi jafnan verið menn sem hafa haft skilning á þessu hlutverki lánasjóðsins og hafa neitað að taka þátt í að breyta honum handahófskennt og skera hann niður án þess a.m.k. að fyrir því væri séð hvaða áhrif það hefði á jöfnunarhlutverk sjóðsins. En nú virðast því miður þessi sjónarmið vera að mestu leyti gufuð upp í núverandi stjórnarflokkum og ég tek satt best að segja sáralítið mark á þeim hráskinnsleik sem nokkrir talsmenn Alþfl. hafa verið að leika í þessu máli. Þeir eru reyndar hér víðs fjarri og væri ástæða til, herra forseti, að fá aðeins að vita um dvalarstað t.d. 17. þm. Reykv. sem hefur nokkuð talað í fjölmiðlum um þetta mál, mun vera þingflokksformaður Alþfl. svo ekki er óeðlilegt að hann sinni hér þingskyldum sínum í kvöld. Eins væri auðvitað fullkomin ástæða til að hæstv. utanrrh. léti sjá sig hér við umræðuna eins og hann hefur á undanförnum árum oft og iðulega og nú upp á síðkastið einnig talað um málefni Lánasjóðs ísl. námsmanna. Ég vil því spyrja að því hvar þessir tveir hv. talsmenn annars stjórnarflokksins séu staddir í tilverunni og hvort þeir séu hér í húsi og hægt að gera þeim aðvart um það að nærvera þeirra væri vel þegin.
    Hér er þá mættur í eigin persónu 17. þm. Reykv. og gleður það mig auðvitað stórlega. Ég var lítillega að fara yfir það, hv. 17. þm. Reykv., að þær árásir á undanförnum árum á lögin um Lánasjóð ísl. námsmanna eru ekkert nýjar af nálinni, við höfum heyrt þær ræður fyrr og þar hefur alveg sérstakur krossfari verið hæstv. utanrrh., formaður Alþfl., sem hefur átt það sem sérstakt áhugamál, svo að það hefur jaðrað við þráhyggju, að þjösnast á lánasjóðnum, koma vöxtum á námslán, umbylta og skera niður við trog þetta kerfi sem hann kallar svo, Lánasjóð ísl. námsmanna.
    Hæstv. utanrrh. hefur nálgast þetta frá því öfuga sjónarhorni, sem ég var að gera hér grein fyrir áðan, að menn horfa eingöngu til þess að þarna sé eitthvert fyrirkomulag, einhver sjóður sem taki mikla opinbera peninga á hverju ári án nokkurs tillits til þess hvaða tilgangi þessi lánasjóður þjónar og hvaða áhrif breytingar á honum geta haft. Þess vegna er út af fyrir sig ekki hægt að segja að það komi manni á óvart hvernig stjórnarflokkarnir hafa síðan unnið að þessu máli og þó verð ég að segja að mér hefur þó komið það nokkuð á óvart, fyrst og fremst með hliðsjón af og með tilliti til forsögu málsins. Ég vil

spyrja hv. 17. þm. Reykv., er hann ánægður með aðdraganda þessa frv. sem hér er til umræðu? Er hann stoltur af málsmeðferðinni? Telur hann samskiptin við námsmannahreyfinguna til fyrirmyndar? Telur hann það skemmtilegt að styðja ríkisstjórn sem hunsar námsmannahreyfinguna og talar ekki við stjórnarandstöðuna, hendir hér inn stjfrv. án fyrirvara, því það hefur enginn formlegur fyrirvari verið presenteraður gagnvart þessu máli. Ég heyrði ekki að hæstv. menntmrh. gerði grein fyrir formlegum fyrirvara þegar hann mælti fyrir þessu sem stjfrv., það hefur þá farið fram hjá mér. Nei, það var ekki. Telur hv. 17. þm. Reykv. í ljósi þess hvernig unnið var að þessum málum hér á fyrri tíð þegar við vorum í háskóla og síðar þegar með ágætu samstarfi var breytt þessari löggjöf . . .  ( ÖS: Með ágætu samstarfi árið 1976.) Ég er að tala um endurskoðunina 1982, sérstaklega. Það kann að vera að hv. 17. þm. Reykv. þekki ekki þá sögu eins vel, ég rifjaði hana nefnilega upp og það er alveg hárrétt að 1976 var þetta öðruvísi og ég var ekki að vitna til þess.
    Nei, ég var að nefna það að árin fyrir 1982, þegar lögunum var þá breytt í núverandi horf, áttu allir stjórnmálaflokkar fulltrúa í þeirri nefnd sem kom að því starfi og einn af frægustu mönnum úr því starfi var hæstv. núv. fjmrh. Friðrik Sophusson og þá áttu auðvitað námsmenn sína fulltrúa þar. Unnu í þessu með eðlilegum hætti í samstarfi við stjórnvöld og fulltrúa stjórnmálaflokka og höfðu til þess nægan tíma. En hér er málsmeðferðin með slíkum endemum að engu tali tekur. Fyrst er auðvitað byrjað á því að skerða stórlega námslánin og breyta þar ýmsum lykilatriðum varðandi skilgreiningu lána, eins og ég hef hér gert grein fyrir, sem ganga þvert á tilgang sjóðsins í reynd þegar hæstv. menntmrh. gerði breytingarnar á sl. vori. á tekjuumreikningi og hlutföllum lána milli þeirra nemenda sem búa í heimahúsum og hinna. Síðan er þetta frv. undirbúið með þessum hætti.
    Ég vil spyrja hæstv. menntmrh. og hv. 17. þm. Reykv. fyrir hönd Alþfl. sem hér er einn manna úr því kompaníi til staðar --- nú varð mér stórlega á í messunni og biðst ég verulega alvarlega fyrirgefningar á þessu, það var sannarlega ekki ætlun mín að horfa fram hjá 11. þm. Reykn. sem hér situr og hlýðir á umræðuna. En ég vil spyrja sem sagt þessa ágætu fulltrúa stjórnarflokkanna þá, hverjir sem verða nú til þess að svara: Er þetta orðin einhver sérstök stefna? Hefur verið tekin um það ákvörðun í ríkisstjórninni að leita yfir höfuð ekki til fulltrúa stjórnarandstöðunnar þegar um nefndaskipan eða undirbúningsvinnu af þessu tagi er að ræða? Ég verð að segja alveg eins og er að mig undrar að það skuli birtast mönnum í hverju málinu á fætur öðru þar sem jafnvel hefð er fyrir hinu gagnstæða að ekki er talað við stjórnarandstöðuna, það er ekki talað við hagsmunasamtök, eins og námsmannahreyfinguna, fyrr en þá á síðustu stigum að menn fá kannski eina viku eða tíu daga eða því um líkt til þess að það sé hægt að segja að nafninu til að þeir hafi verið hafðir með í ráðum.
    Ég er búinn að gera grein fyrir því hvaða forsögu vinna að málefnum Lánasjóðs ísl. námsmanna á sér og vegna þess hlýtur maður að spyrja: Er þess að vænta, t.d. í næsta sinn þegar sett verður á fót nefnd til að við skulum segja endurskoða vegáætlun eða gera eitthvað af því tagi þar sem löng hefð er fyrir því í samskiptum flokka hér á Alþingi, að fulltrúar allra stjórnmálaflokka komi að vinnunni, verður þeirri skipan mála þá bara hent? Er þess þá að vænta einnig í slíkum tilvikum að það verði ekki talað við stjórnarandstöðuna, hún verði ekki virt viðlits, hennar fulltrúar komi hvergi að slíkri undirbúnings- eða endurskoðunarvinnu og jafnvel ekki neinir fulltrúar hagsmunaaðila heldur?
    Ég vil fá að vita þetta og ég spyr hæstv. menntmrh.: Var þessi ákvörðun hans um það hvernig hann hefur hagað vinnunni að undirbúningi þessa frv. í tengslum við einhverja sameiginlega ákvörðun í ríkisstjórn um að kalla yfirleitt ekki til sögunnar fulltrúa stjórnarandstöðunnar í nokkru máli? Er það e.t.v. skýringin? Var hæstv. menntmrh. e.t.v. uppálagt af húsbændunum í ríkisstjórninni að brjóta hefðir um samstarf að þessum málaflokki og kalla ekki til fulltrúa stjórnarandstöðunnar á neinu stigi málsins og í raun og veru ekki fulltrúa námsmannahreyfingarinnar heldur fyrr en til málamynda og þá með þessum sérstaka hætti sem raun ber vitni? Að fulltrúi eins námsmannafélags, annars pólitíska félagsins í háskólanum, er settur inn í nefndina með þeim endemum að mínu mati að það tekur engu tali. Ég hlýt að spyrja jafnframt, og það hefur sjálfsagt verið gert hér af fleirum: Hverju sæta þau tíðindi að fulltrúa Vöku býðst það óvænt, bara si svona, fær utan af sér tilboð um að koma inn í þetta starf? Hvers vegna í ósköpunum var það valið að kalla til fulltrúa annars pólitíska félagsins í Háskóla Íslands frekar en t.d. að setja inn tvo fulltrúa frá námsmannahreyfingunum öllum samanlögðum sem námsmannahreyfingin á eðlilegum grundvelli veldi sér.
    Ef menn mátu hlut háskólans svona mikilvægan af hverju var þá ekki í fyrsta lagi leitað til Stúdentaráðs? Í öðru lagi af hverju var þá ekki báðum pólitísku félögunum í háskólanum, sem þar starfa og bjóða fram lista, boðið að tilnefna menn úr því að farið var út í að kalla til annan þeirra? Þetta er auðvitað hneyksli, hæstv. menntmrh. Þetta er einhver grófasta pólitíska misnotkun á tilnefningarvaldi ráðherra sem ég hef séð á ævi minni. Ég fullyrði það. Ég tel þetta slíkt hneyksli. Það er alveg sama frá hvaða sjónarhóli þetta er skoðað, það er ekki hægt að flokka þetta undir annað en grófa pólitíska misnotkun á tilnefningarvaldi ráðherrans. Fyrir utan þá hugsun að koma svona fram í raun og veru við námsmennina alla. Getur hæstv. menntmrh. ekki gert sér í hugarlund hversu þægilegt svona inngrip er í félagsmálin í Háskóla Íslands, að taka inn fulltrúa úr öðru pólitíska félaginu, biðja hann um að koma inn í nefndina? Það er ekki einu sinni svo og Vaka hafi beðið um þetta. Ef marka má sérálit fulltrúa Vöku þá býðst fulltrúanum óvænt sæti í nefndinni. Ja hérna. Ef það var ástæða til að draga inn með öðrum hætti en þeim að biðja fulltrúa námsmannahreyfinganna sem í góðu samstarfi unnu að þessum málum að tilnefna einn, tvo eða þá fleiri fulltrúa hvers vegna var þá ekki frekar horft til stærstu einstöku félaganna í því samstarfi svo sem Stúdentaráðs, Sambands ísl. námsmanna erlendis eða t.d. aðila eins og Félags námsmanna í háskólanum á Akureyri? Ég hefði talið að það hefði verið hægt að færa ýmis rök fyrir því, hæstv. menntmrh., að leyfa t.d. félagi þeirra háskólanema sem stunda allir nám úti á landsbyggðinni við þær aðstæður sem þar eru og vænta má að t.d. hlutfall manna úr öðrum byggðarlögum verði þar mjög hátt að vegna ýmissa sérstakra aðstæðna sem átt geta við þar ættu þeir sérstaklega aðild að þessu starfi. Þar geta skipt miklu máli hagsmunir námsmanna á landsbyggðinni, hlutir eins og þeir hvernig vægi lánaupphæða er milli þeirra sem búa í heimahúsum og sækja nám sitt þaðan eða þurfa að koma sér fyrir í öðru húsnæði. Ég var, hv. 17. þm. Reykv., að rökstyðja það hér áðan að breytingar menntmrh. sl. vor hefðu verið sérstök árás á háskólanema eða námsmenn af landsbyggðinni og stend við það.
    Nei, mér finnst það algjörlega með ólíkindum sem hæstv. menntmrh. gerir þarna og ef skýring á að vera sú, sem ég held ég hafi einhvers staðar heyrt í fjölmiðlum eftir hæstv. menntmrh., að Vökuliðið hefði haft svo merkilegar tillögur fram að færa í þessum lánamálum þá spyr ég nú bara, hvar eru þær? Því ég hef séð myndarlegri pappíra en þetta eina blað sem birt er hér með frv. Þegar það lá fyrir á þessum tíma að námsmannahreyfingarnar allar voru í mjög góðu samstarfi að vinna sínar tillögur og sínar hugmyndir um breytingar og um sparnað í rekstri lánasjóðsins, með tilliti til vanda hans þá er þetta að mínu mati enn fráleitari framkoma hjá hæstv. menntmrh. Ég veit ekki hvort hann hefur ímyndað sér að hann mundi styrkja eitthvað stöðu sína í röðum námsmanna með því að hygla þarna bandamönnum sínum sem auðvitað leikur grunur á að séu frekar en aðrir, þ.e. að Vaka sé svona að breyttu breytanda hliðhollari Sjálfstfl. en hitt pólitíska félagið í háskólanum og menn hafa fyrir því m.a. sögulegar skýringar, söguleg rök, því það vill svo undarlega til að það hefur borið dálítið á því að forustumenn í starfi Vöku á undanförnum árum hafi haslað sér völl í flokksstarfi Sjálfstfl. þegar þeir hafa lokið námi. Ekki þarf að nefna nöfn í því sambandi. En maður sér svona í þessum skjölum nöfn eins og Sigurbjörn nokkurn Magnússon sem ég kynntist lítillega á minni sælutíð í háskólanum og fleiri slíka.
    Í greingargerð með frv. námsmanna sem samstarfsnefnd námsmannahreyfinganna skilaði er mjög skemmtilega rakið hvaða svigrúm námsmönnum var ætlað til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri í þessum efnum á þessum 9--10 dögum frá og með 15. nóv. til 25. nóv. Mér er ekki kunnugt um að það hafi verið hrakið í raun og veru sem þarna hefur verið sett á prent og birt sem fylgiskjal með þessu frv. Hefði hæstv. menntmrh. átt

að gera athugasemdir við þetta ef hann hefði verið þessu ósammála.
    Nei, herra forseti, þarna eru auðvitað sorglegir og dapurlegir atburðir á ferðinni hvað málsmeðferðina snertir. Ég held að ég hljóti að ítreka að lokum bæði spurningar mínar til hæstv. menntmrh. en líka til hv. 17. þm. Reykv. sem hefur verið að gylla nokkuð framhlið sína í málinu í fjölmiðlum undanfarið, telja námsmönnum trú um að þeir ættu í honum kannski bandamann sem mundi einhverju breyta í hagsmunabaráttu þeirra. Hvaða afsakanir hefur hv. 17. þm. Reykv. á þessu framferði? Mælir hann því bót hvernig að þessu var staðið? Ef svo er ekki af hverju notaði þá ekki Alþfl. aðstöðu sína til að tryggja að varðveitt væri eftir því sem kostur væri sú hefð að reyna að vinna að og skapa þverpólitíska samstöðu, a.m.k. gefa öllum sjónarmiðum færi á að eiga aðild að vinnu í þessum málum og rækja eðlilegt samstarf við námsmannahreyfinguna? Nema þá að hæstv. menntmrh. hafi hundsað Alþfl. líka og alþýðuflokksgreyið hafi engan mann átt í þessu sem ég trúi samt tæplega. Enda er t.d. þarna prófessor Jón Bragi Bjarnason, sem hefur verið hallur undir Alþfl., eða var það a.m.k. þegar hann sat sem varamaður á þingi fyrir flokkinn sælla minninga. Er þetta sá hinn sami maður sem mest hefur hatast við Háskólann á Akureyri og notar hvert einasta tækifæri sem hann færi til að komast í útvarp til að skattyrðast úr í hann og hafi hann litla þökk fyrir.
    Herra forseti. Ég hygg að sama sé hvernig að þessu er komið. Allur aðdragandi að frv. er hinn dapurlegasti og honum er ekki hægt að mæla bót. Hann er auðvitað enn ein staðfesting þess sem við erum alltaf að upplifa hér að ríkisstjórnin velur sér það vinnulag að gera hlutina með illu. Ef manni virðast í fljótu bragði tvær leiðir koma til greina, annars vegar sú leiðin sem liggur í gegnum samstarf, a.m.k. samstarfsviðleitni, samráð og breiða þátttöku í starfi, og hin leiðin að gera þetta með illu, þá er í hverju málinu á fætur öðru sú síðarnefnda valin. Beinlínis er stílað inn á átök að því er best verður séð. Auðvitað þarf ekki að segja fullorðnum stjórnmálamönnum að einhver vænlegasta leið sem til er til að reyna að ná samstöðu um mál er að draga menn á vettvang strax í byrjun. Leyfa mönnum að komast að málinu, koma sínum sjónarmiðum á framfæri, leyfa mönnum að hafa nokkur áhrif á gang mála og gera menn þannig smátt og smátt þátttakendur í og samábyrga fyrir því verki sem verið er að vinna. Þetta eiga auðvitað allir fullorðnir og þroskaðir stjórnmálamenn að vita. Gjarnan er það svo að flokkarnir ganga smátt og smátt inn á breytingar, jafnvel erfiðar breytingar, jafnvel hluti sem geta verið pólitískt viðkvæmir í gegnum þátttöku fulltrúa sinna í svona starfi. Ef með lagni tekst að laða fram til að mynda sameiginleg nefndarálit og sameiginlegar breytingartillögur er slíkt vísasti vegurinn til að greiða götu þeirra mála þegar á þing er komið. Það er hálfbroslegt að þurfa að tala svona um þetta ,,gagn og gaman`` stjórnmálanna sem þetta er. En maður gerir það vegna þess að maður fer að velta því fyrir sér þegar maður sér svona vinnubrögð; ja, kunna mennirnir þetta ekki? Er það hugsanlega bara vegna vanþekkingar að menn átti sig ekki á því hversu kolranga leið þeir fara? Ég ítreka því enn spurningar mínar um hvers vegna var unnið að hlutunum með þessum hætti. Hvað liggur þar á bak við? Er það einhver sérstök samþykkt ríkisstjórnarinnar að ekki beri að hafa samráð við stjórnarandstöðuna eða hvað er þarna á ferð?
    Herra forseti. Ágæt samantekt um helstu breytingar sem þetta frv. felur í sér á löggjöfinni um Lánasjóð íslenskra námsmanna eða breytingu á lögum um námslán og námsstyrki er á bls. 8 í greinargerð með frv. Skylt er að geta þess sem vel er og ég held að það megi segja eitt gott um þetta mál, a.m.k. að mestu leyti, og það er að sæmilega skýrt og með greinargóðum hætti sett upp fyrir mönnum hverjar breytingarnar eru, t.d. er sundurliðun á bls. 8 þar sem taldar eru upp helstu breytingar frá núgildandi lögum. Þetta er handhægt þegar mál af þessu tagi eru rædd.
    Aðrir ræðumenn hafa farið nokkuð ítarlega yfir það í umræðunni í hverju þessar helstu breytingar felast og ég sé þess vegna ekki ástæðu til að rekja það lið fyrir lið. Tímans vegna hleyp ég þar á stærstu atriðunum og þeim sem ég vil sérstaklega gera að umtalsefni. Þá verður að sjálfsögðu fyrst fyrir mér það ákvæði að taka upp vexti á námslán. Frv. gerir ráð fyrir því að frá og með gildistöku beri námslán skv. 7. gr. frv. 3% ársvexti

ofan á fulla verðtryggingu og skuli vextir reiknast frá námslokum. Það þýðir væntanlega að menn taka til við að greiða vexti í reynd frá og með þeim degi sem náminu lýkur og þegar á fyrsta ári eftir nám þó afborganir af höfuðstól lánsins komi ekki til fyrr en að einu ári liðnu ef ég hef skilið þennan texta rétt. Þetta er að mínu mati að mörgu leyti eitthvert alvarlegasta ákvæði þessa frv. vegna þess að það hefur tengst sjálfum grundvelli lánasjóðsins og löggjafarinnar að líta á eðli þessa námslánakerfis með tilteknum hætti og vaxtaleysi námslánanna sem hluta af því. Að nokkru leyti finnst mér að megi stilla þessu upp sem deilu um það hvort námslánin séu rétt eins og hver önnur fjárfestingarlán og því eðlilegt að þau séu með fullum vöxtum eða hvort þau séu eitthvað annað, og það hef ég talið þau vera, og þetta annað skýrði að þau ættu ekki að bera vexti. Þetta eru félagsleg lán, þetta eru framfærslulán, þetta eru ekki fjárfestingarlán í neinum hefðbundnum skilningi þess orðs. Þar af leiðandi grundvallaratriði, ,,prinsippatriði`` eins og stundum er sagt á vondu máli, að lánin beri ekki vexti. Því sjónarmiði eru að vísu stundum hreyft að nám sé fjárfesting og það er það í ákveðnum óbeinum skilningi. Það er auðvitað fjárfesting fyrir þann sem menntar sig ef það er hans vilji, ef hugur hans stendur til þess, hann telji sig vera að auðga sig sem einstakling að atgervi með því að afla sér meira náms, víðsýni og þekkingar. Það má e.t.v. til sanns vegar færa að nám geti verið og sé í vissum skilningi bein fjárfesting en þá ekki fyrir námsmanninn heldur fyrir þjóðfélagið. Staðreyndin er sú að það hefur orðið augljósara með hverju árinu sem líður þegar skoðaðir eru kjarasamningar, annars vegar opinberra starfsmanna og langskólagenginna manna og hins vegar þeirra sem vinna á almennum vinnumarkaði að námið er ekki í neinum hefðbundnum skilningi þess orðs bein fjárfesting. Ef svo væri hlyti það að endurspeglast í betri hag, betri afkomu þeirra sem fjárfest hafa í námi. Aðrir hlutir verða þar ekki mælanlegir svo sem lífshamingja eða auðugra andlegt líf viðkomandi einstaklinga. Ég geri því ekki skóna að nokkur sé svo forstokkaður í hugsunarhætti sínum að hann eigi við slíka fjárfestingu þegar hann er að réttlæta vexti á námslán. Nei, væntanlega hlyti réttlætingin að vera sú að námslánin væru þá fjárfesting í þeim skilningi að menn hefðu efnahagslegan hag af að leggja í hana og það skilaði sér með einhverjum hætti til baka í formi betri afkomu. Ég held að við vitum allir að fjölmargt langskólanám skilar mönnum að því er séð verður í mörgum tilvikum litlum eða jafnvel engum beinum ábata í gegnum hærri laun þegar komið er út á síbreytilegan vinnumarkaðinn eins og hann er. Þess eru auðvitað fjölmörg dæmi þess að mikið misræmi sé í því annars vegar hvaða kostnað menn þurfa að leggja í til að afla sér tiltekinnar námsgráðu og þeirrar lengdar sem er á viðkomandi námi og hins vegar því að hvaða leyti menn fá það bætt í launum þegar upp er staðið. Kannski er ekki óalgengt að tiltekið langskólanám sem tekur 3--4 ár geti skilað mönnum margfalt hærri tekjum heldur en annað sem tekur 6, 8 eða 10 ár. Ekki er óalgengt að menn sem lokið hafa þriggja ára BS-námi í einhverri praktískri grein og komið ár sinni vel fyrir borð á vinnumarkaði hafi upp úr því krafsi miklu meira en aðrir sem hafa lokið doktorsnámi og 10 ára veru í háskóla. Þetta þekkjum við og m.a. rökstyður það sem ég var að segja að ekki má gera þá kórvillu að líta á námið sem beina fjárfestingu í hefðbundnum skilningi þess orðs. Það er allt annars eðlis. Ef það er fjárfesting fyrir einhvern er það fyrir þjóðfélagið númer eitt og númer tvö og þrjú en ekki í efnislegum skilningi fyrir viðkomandi námsmann. Þegar maður reynir að glöggva sig síðan á því hvernig aðstaða þeirra er sem hafa eytt drjúgum hluta bestu ára sinna í námið og stytt þar með starfsævi sína sem því nemur, safnað skuldum á sama tíma og aðrir vinna fyrir sér er það borðleggjandi að menn fara kolöfugir út úr því dæmi í mjög mörgum tilvikum. Enginn vafi er á því að aðstaða þeirra sem koma e.t.v. um þrítugt út úr námi er á margan hátt miklu lakari en þeirra sem hafa notað sömu 10--12 ár og hinir notuðu í skólann til að koma undir sig fótunum í lífinu, unnið fyrir sér og komið sér upp þaki yfir höfuðið o.s.frv. Þetta allt held ég að verði að hafa í huga þegar rætt er um þennan vaxtaþátt og endurgreiðslumálin öll eins og þau leggja sig.
    Hér er síðan þrengt að endurgreiðslu með ýmsum hætti og ég vil taka það strax fram að ég er þeirrar skoðunar að þá hluti sé eðlilegt að athuga. Ég hefði verið tilbúinn til þess ef ég hefði átt sæti í endurskoðunarnefnd að ræða það í mikilli alvöru við námsmannahreyfingarnar með hvaða hætti væri unnt að auka tekjustreymi til Lánasjóðs ísl. námsmanna á næstu árum með breyttum og að nokkru leyti hertum endurgreiðslureglum þar sem að vísu væri tekið mjög skýrt tillit til tekna og aðstöðu þeirra sem væru að greiða af lánunum. Ég tel það alveg sjálfsagt mál.
    Ég hef líka velt því dálítið fyrir mér og ég er ekki viss um að það hafi komið upp í umræðunni áður, ég tek það að vísu fram og vil hafa þann fyrirvara á að ég hef ekki mótaða skoðun í því efni, en ég hef velt því dálítið fyrir mér: Eigum við kannski að hugleiða það Íslendingar að gera greinarmun í framtíðinni á þeim sem nýta nám sitt þegar út í starf er komið hér heima á Íslandi annars vegar og hinum sem eru að nýta það erlendis? Er það réttlætanlegt með þeim hætti þá ef svo mætti að orði komast að við litum nánast á það sem jákvæða mismunun til handa þeim sem nýttu sitt nám í þágu hins íslenska þjóðfélags og í þágu þeirra sem lagt hafa nokkurt fé af mörkum í gegnum opinbera sjóði til Lánasjóðs ísl. námsmanna? Ég veit ekki hvort þessi flötur hefur verið eitthvað til skoðunar, ég leyfi mér að nefna hann hér af því að ég tel ekkert óeðlilegt við að menn velti þessu fyrir sér. Kannski eru á þessu meinbugir og vissulega er ekki skemmtilegt að þurfa að leggja slíkt til eða tala um slíkt, en ég tel að fyrir þessu geti verið nokkur rök. Að þeir sem íslenska samfélagið hefur aðstoðað með tilteknum hætti, stutt til náms, og kostað verulegu til en velja síðan að nýta sér það nám annars staðar en í þágu hins íslenska þjóðfélags þegar út í starf er komið gætu þá þurft að standa frammi fyrir þeirri ákvörðun í leiðinni að þurfa að endurgreiða lán með öðrum og e.t.v. eitthvað skarpari hætti en þeir sem hér ynnu heima. Ég hefði verið tilbúinn og er tilbúinn að ræða slíka hluti. Þetta er það sem að mínu mati hefði átt að vera uppi á borðinu í samstarfi fulltrúa stjórnmálaflokka í landinu og námsmannahreyfingarinnar á síðastliðnu sumri og síðastliðnu hausti og ætti þá að vera í öllu falli núna því betra er seint en aldrei. Ég vísa aftur í álit námsmannahreyfinganna sem leggja til í frv. breytingar í þessa veru. Ég kem að því síðar hvernig mér finnst hafa verið tekið í þá útréttu hönd.
    Stytting lánstímans er auðvitað heiftarleg eins og hér er lagt til, úr 40 árum niður í það sem verður gjarnan 12--20 ár. Greinilegt er að verulegur hluti af námslánunum verður endurgreiddur á 12--20 árum. Byrjað frá og með einu ári eftir að námi lýkur. Fjölmargir af þeim sem afla sér einfaldrar háskólamenntunar, BA-gráðu eða BS-gráðu í háskólanum í þriggja eða fjögurra ára námi, og fara síðan í störf munu endurgreiða námslán sín að fullu á 12--15 árum. Á þeim sömu 12--15 árum sem þeir eru að fara út á vinnumarkaðinn, eru gjarnan að stofna heimili, koma sér þaki yfir höfuðið o.s.frv. Auðvitað er alveg augljóst mál að þessar hertu endurgreiðslureglur og vextir á námslán og reyndar ýmsar fleiri ráðstafanir sem gerðar hafa verið að undanförnu gera aðstöðu þessa hóps í þjóðfélaginu mjög erfiða. Mér finnst sífellt verið að hækka girðinguna sem er á milli þeirrar kynslóðar sem kom sínum hlutum á þurrt fyrir daga verðtryggingar, misgengis og hávaxta eða okurvaxta og hinnar sem er þolandi alls þessa sama. Ef svo heldur sem horfir þá mun himinn og haf í lífskjörum aðskilja foreldrana og börnin, eldri systkinin og þau yngri. Þau sem eru núna eða fyrir nokkrum árum búin með sínar stóru fjárfestingar í lífinu, búin að afla sér menntunar, koma sér upp húsnæði og binda sér þær byrðar og hinna sem eru að gera þetta núna eða á næstu árum. Ég tel að ástæða sé orðin til þess og löngu orðin ástæða til að gera þjóðhagslega úttekt á því hvernig aðstöðumunur þessara kynslóða í landinu er að þróast. Ekki hefur mikið farið fyrir umræðum um þessa hlið mála nú á allra síðustu missirum. Það gerði það hins vegar um skeið t.d. þegar húsnæðismál voru mjög á dagskrá og svonefndur Sigtúnshópur kom til sögunnar sem hagsmunagæsluhópur þeirra þolenda misgengis, verðtryggingar og hárra vaxta sem þá varð illilega fyrir barðinu á misvitrum stjórnvöldum. En auðvitað er sá sami hópur hér á ferðinni og þeir árgangar sem tóku við af honum og verður áfram. Og nú er víða búið að laga þetta ansi myndarlega til. Auðvitað er verið að stórhækka vextina á húsnæðislánunum. Það er verið að stytta endurgreiðslur úr 40 árum niður í 25 og nú eru boðaðir vextir á námslán og stórhertar endurgreiðslureglur. Hvað er þetta annað en stórskert lífskjör þessarar kynslóðar og komandi kynslóða sem fyrir þessu verða? Á sama tíma og ekkert er hróflað við hagsmunum þeirra sem fleyttu rjómann af

hinu eldri kerfi. Það upphefjast slíkir geysilegir tæknilegir erfiðleikar þegar til umræðu eru jafnsjálfsagðir hlutir og þeir að skattleggja eitthvað fjármagnsgróða þeirra kynslóða sem eru með hann í vasanum. Því verður ekki komið við.
    Í þriðja lagi vil ég nefna það ákvæði frv., að endurgreiðslunum slepptum, sem mér finnst enn lýsandi fyrir þann hugarheim höfundanna að námslánin séu rétt eins og hver önnur fjárfestingarlán, að þetta sé í eðli sínu alveg eins og að lána manni fyrir trillu eða einhverju atvinnutæki sem hann ætli síðan að hala peninga út á á næstu vikum. Það er þessi klausa með lántökugjöldin á námslánin. Hún slær mig ákaflega illa. Mér finnst það tengjast sama prinsippi og með vextina. Er eðlilegt að meðhöndla Lánasjóð ísl. námsmanna með þeim hætti að leggja 1,2% eða þaðan af hærri lántökugjöld ofan á lánin eða draga af þeim? Ég hlýt að spyrja af því að nú er heimild til lántökugjalds opin. Er það jafnvel á dagskrá að það fari bara eftir geðþótta manna hversu há þau verða? Hefur hv. 17. þm. Reykv. einhverjar upplýsingar í höndunum að hann geti tryggt mér að það standi ekki til að hækka þessi gjöld? Þau þekkjast hærri en þetta. Að vísu er það svo með vextina að fátt er svo með öllu illt að ekki boði nokkuð gott. Þeir eru þó festir þarna inni í lögunum. Vel að merkja festir í báðar áttir. Ef raunvaxtastigið í þjóðfélaginu lækkaði þannig að þeir færu t.d. úr þeim 10%, sem hv. 17. þm. Reykv. er áreiðanlega stoltur af að stuðla að í dag, og segjum niður í einhverja skaplega raunvexti, milli 4--5%, þá sætu námslánin áfram með 3% raunvexti sem væri auðvitað mjög slæmt. Spurning er hvort ekki væri til umræðu að tryggja frekar eitthvert hlutfall milli raunvaxtastigsins og vaxtanna á námslánunum þannig að sá kostnaður eða mismunur sem þarna væri greiddur niður, væri hafður í böndum með þeim hætti og námsmenn gætu eins og aðrir átt von í einhverjum hagsbótum af lækkandi vaxtastigi í landinu. Það mundu þeir ekki eiga með þeirri formúlu sem þarna er. Þetta og fjölmargt annað af þessu tagi vekur í raun og veru furðu manns á því af hverju hlutirnir eru settir fram með þessum hætti. Ég hef skömm á þessu lántökugjaldi og spyr: Hvers vegna var það sett þarna inn? Var það bara einhver lævísleg aðferð til þess að hækka vextina? Því auðvitað er verið að gera lánin dýrari og óhagstæðari með þessum hætti, bara vegna þess að menn þorðu ekki hærra með vextina en í 3% og ákváðu þá að smyrja lántökugjöldum ofan á. Eða er einhver önnur skýring þarna á bak við? Af hverju er þetta haft opið? Ef menn eru að hugsa um 1,2% lántökugjald af hverju setja menn það þá ekki inn í lögin í stað þess að hafa þarna opna heimild til handa einhverjum sem yrði kannski enn harðsvíraðri en núv. hæstv. menntmrh. og ákvæði að beita heimildinni til að sækja sér aukið fé?
    Ég tel annað alvarlegt í þessu máli, herra forseti. Það er sú breyting sem gerð er á 3. gr. núverandi laga um námslán og námsstyrki. Þetta viðkvæma atriði vekur athygli mína sem var mönnum talsvert erfitt á sínum tíma, með hvaða hætti orða ætti framfærsluna sem brúa skyldi með rekstri Lánasjóðs ísl. námsmanna hvernig færa ætti í orð þá hugsun manna að tilgangur og markmið sjóðsins væri að gera námsmönnum kleift að brúa þessa umframfjárþörf, brúa bilið milli þeirra tekna sem þeir hefðu og tillit tekið til aðstæðna þeirra og framfærslukostnaðar. Því þessi löggjöf er með mjög svipuðum hætti og almannatryggingabætur, lífeyrir, tekjutrygging, heimilisuppbót o.s.frv. eiga að tryggja afkomu og framfærslu t.d. aldraðra og öryrkja. Þetta er lífskjaratrygging, framfærslutrygging, tryggir ákveðinn framfærslugrundvöll þess hóps í þjóðfélaginu sem er í sérstakri aðstöðu um tíma af því að hann er að leita sér menntunar. Þetta var á sínum tíma orðað þannig eins og 3. gr. gildandi laga ber með sér, með leyfi forseta:
    ,,Opinber aðstoð við námsmenn skv. lögum þessum skal nægja hverjum námsmanni til að standa straum af eðlilegum náms- og framfærslukostnaði þegar eðlilegt tillit hefur verið tekið til fjölskyldustærðar, framfærslukostnaðar þar sem nám er stundað,`` --- það á greinilega ekki að mismuna mönnum eftir því --- ,,tekna námsmanns og maka hans, lengdar árlegs námstíma og annarra atriða er áhrif kunna að hafa á fjárhagsstöðu námsmanns.``
    Þetta hefur verið skilið og framkvæmt þannig að í raun bæri að kortleggja þessar aðstæður eins og framast væri kostur og að bestu manna yfirsýn, meta þennan kostnað og brúa hann. Þannig hefur þetta verið framkvæmt. Nú er verið að leggja til grundvallarbreytingu á þessu með því að henda út öllu sem þarna segir um allt það sem lýtur að aðstæðum námsmanns og umhverfi og halda eingöngu því inni að þetta eigi að nægja hverjum námsmanni til að standa straum af náms- og framfærslukostnaði meðan á námi stendur. Ég vek athygli á því að orðalaginu er líka breytt. Það er ekki einu sinni látið staðar numið þar að henda út þessari tilvísun til félagslegra aðstæðna námsmanns heldur er í staðinn fyrir ,,eðlilegt tillit til`` komið orðið ,,nægja``. Nægja, miðað við hvað? Þegar búið er að kippa þarna út eðlilegu tilliti til náms- og framfærslukostnaðar í því samhengi sem það er í gildandi lögum er verið að veikja mjög stöðu þeirra sem ætla sér að verja hagsmuni námsmanna í þessu tilliti og vilja mjög sækja þá hagsmuni. Er hv. 17. þm. Reykv. stoltur af þessu? Telur hann þetta horfa til framfara í breytingum á lögum um Lánasjóð ísl. námsmanna? Gaman væri að heyra álit hans á því. Ég vil spyrja hæstv. menntmrh.: Af hverju var 1. mgr. í gildandi 3. gr. laga um námslán og námsstyrki ekki látin standa óbreytt og látið nægja að henda afgangnum út? Hvers vegna var orðalaginu þar einnig breytt? ( Forseti: Forseti vill aðeins trufla hv. þm. í ræðunni og spyrja hvort hann eigi langt mál eftir. Ef svo er vildi forseti bjóða hv. þm. upp á að fresta ræðu sinni þar til málið verður tekið fyrir aftur síðar.) Já, það er nú reyndar svo, herra forseti, að samkvæmt mínum skilningi mundi ég ekki kalla það langt mál, kannski 5--10 mínútur. Ég er ekkert sérstaklega sólginn í að fresta ræðunni. Það hefur verið reynsla mín að þær vilja lengjast dálítið þegar maður byrjar á nýjan leik af því að maður þarf stundum að rifja upp af því sem áður var komið. ( Gripið fram í: Ég mundi ljúka henni bara.) Ja, ég er alveg til í að reyna það og halda mig við svona 6--8 mínútur. ( Forseti: Forseti er alveg tilbúinn til að veita hv. þm. heimild til þess og þá heldur hann áfram ræðu sinni.) Já, þá skal ég bara vinda mér í það. Ég treysti því að sjálfsögðu að það komi ekki niður á þeim skilmerkilegu og greinargóðu svörum sem ég reikna með að ég fái bæði frá hæstv. menntmrh. og hv. 17. þm. Reykv. sem ég tek svo að svari fyrir Alþfl.
    Ég ætlaði að spyrja hæstv. menntmrh. hvers vegna ferðastyrkir væru teknir út úr lögunum. Að vísu er sagt í grg. með frv., ef ég man rétt, að það sé ekkert sem banni að tekið yrði tillit til ferðakostnaðar og lánað út á hann áfram. En mér finnst geysilega miður að sjá hann hverfa út úr lögunum, tel það mikið óráð. Ég tel að það ætti að vera beinlínis ætlað fyrir því að ferðakostnaður gæti í vissum tilvikum verið lánshæfur. Það er hið minnsta að mínu mati, styrkir væru að mörgu leyti eðlilegri. Ég tel að það geti verið skynsamlegri leið til að jafna aðstöðu manna að mega taka sértækt á slíkum þáttum en að hafa námslánin yfir alla línuna e.t.v. eitthvað hærri. Í grófum dráttum geta verið tvær aðferðir ef menn vilja taka eitthvert tillit til slíks kostnaðar. Annars vegar að reikna út hver hann er að meðaltali hjá námsmönnum og lána svo út á það yfir heilu línuna, hin leiðin væri sú að sannanlegur og útlagður ferðakostnaður væri með einhverjum hætti tekinn til greina. Ég held að það væri miklu betri leið en sú að henda þessu út og segja svo með einhverju aumingjalegu orðalagi að það sé hins vegar þannig að ekkert banni stjórninni að taka tillit til ferðakostnaðar.
    Ég vil að lokum segja, herra forseti, að ég hlýt að harma það og gagnrýna hvernig tillögum námsmanna í þessu sambandi hefur verið tekið. Ég verð að segja alveg eins og er að mér finnst námsmannahreyfingin hafa sýnt ábyrgð og mikinn þroska með því að ganga sjálf í það verk að gera tillögur um breytingar á Lánasjóði ísl. námsmanna sem bæta verulega fjárhagsstöðu hans og minnka þörf ríkisins til að leggja honum fé og þyngja að sama skapi hlut námsmanna, viðskiptamanna sjóðsins. Mér finnst námsmannahreyfingin hafa sýnt með því ábyrgð, þroska og kjark vegna þess að ég veit að það var erfitt verk fyrir þá fulltrúa námsmanna líðandi stundar sem í hlut áttu að axla þá byrði. Mikið auðveldari afstaða fyrir þá hefði verið að vera á móti þessu öllu. Taka þá hefðubundnu línu að segja bara: Við erum bara á móti þessu, engar breytingar. En námsmenn gerðu það ekki. Þeir lögðu þvert á móti til tillögur sem hefðu skilað þó nokkru fé og í fyllingu tímans geta munað sjóðinn miklu. Ég er alveg sannfærður um að í því ljósi má líka ætla að þeir hefðu verið tilbúnir til þess að ræða þær tillögur og jafnvel ganga lengra ef samkomulag hefði tekist um slíkt.

    Hvernig var tekið í þessa útréttu hönd námsmanna? Það var slegið á hana. Það var einskis virt af hæstv. menntmrh. og hæstv. ríkisstjórn að námsmannahreyfingin tók þessa ábyrgu afstöðu og það er þeim mun fráleitara og þeim mun verra að mínu mati að vinna þannig að hlutunum. Mér dettur í hug það dæmi að námsmenn hafi hvað þetta snertir að nokkru leyti verið í svipaðri aðstöðu og bændur hafa verið á undanförnum árum. Þeir hafa staðið frammi fyrir því að ákveðin ríkisútgjöld til þeirra málaflokks hafa verið mikil og verið mönnum þyrnir í augum. Menn á þeim bæ hafa áttað sig á að ekki væri líklegt að það fyrirkomulag fengi varið sig öllu lengur. Báðir hóparnir tóku þá ábyrgu og skynsamlegu afstöðu að lýsa sig reiðubúna í sársaukafullar og erfiðar breytingar á þessu, bændur annars vegar á fyrirkomulagi opinbers fjárstuðnings við landbúnaðarframleiðsluna í hefðbundnum greinum, námsmenn gagnvart lánasjóðnum. Í fyrra tilvikinu, reyndar í tíð fyrri ríkisstjórnar, var brugðist þannig við að tilboði af hálfu bænda var tekið tveim höndum fagnandi af ríkisstjórn og aðilum vinnumarkaðarins. Menn settust saman og náðu samkomulagi sem enginn maður hefur enn gert á Alþingi. Þó þrisvar hafi slíkt mál komið til atkvæða voru greidd atkvæði gegn því. En hér er slegið á slíka útrétta hönd.
    Að lokum, herra forseti, held ég líka að þegar menn ræða stærðargráður í þessum efnum og velta því fyrir sér hvað sé nú mikilvægt, hvað stórt og hvað lítið í þessu þjóðfélagi, er þá framlag íslenska ríkisins að lánasjóðnum meðtöldum til menntunar og lífskjarajöfnunar í þessu landi svo mikið? Er mjög mikið þó að af íslenskum fjárlögum fari 1,5--2,5% inn í jafngeysilega mikilvægan hlut og það er að tryggja öllum landsmönnum jafnrétti til náms og tryggja afkomu þessa stóra hóps í þjóðfélaginu á meðan á náminu stendur? Við skulum átta okkur á því að hér er um lífskjaragrundvöll og afkomutryggingu 6--8 þús. manns að ræða. Þetta eru auðvitað miklir fjármunir fyrir ríkissjóð sem er rekinn með halla og á í erfiðleikum. Í hundraðshluta af ríkisútgjöldunum, miðað við mikilvægi og stærð þessa málaflokks, velti ég því stundum fyrir mér hvort það sé beinlínis rétt að tala um þetta með þessum hætti. Ég er ekki endilega viss um það. Ég held að menn ættu aðeins að gá að sér þegar þeir eru að vega og meta þessa hluti saman. Ég vona að enginn misskilji orð mín svo, enda væri það ástæðulaust. Ég hef þegar tekið það fram að í ljósi þess hvernig staðan er tel ég ekki nema eðlilegt að menn vilji setjast niður og skoða málefni lánasjóðsins og ræða þau. Getum við náð samkomulagi, með tilliti til þess vanda sem þar stefnir í og hefur stefnt undanfarin ár og menn eru meira og minna samábyrgir fyrir jafnt í stjórn og stjórnarandstöðu, að gera þarna tilteknar breytingar? Getum við gert áætlun til 10--15 ára um það hvernig við tökum á þessum vanda með kannski blandaðri aðferð, ef svo má að orði komast, að námsmenn, nútímans og framtíðarinnar, leggi þarna nokkuð af mörkum? Að fyrrverandi námsmenn leggi e.t.v. nokkuð af mörkum í gegnum það að menn litu svo á t.d. að ákveðin tekjuöflun í ríkissjóð tengdist þessu verkefni, t.d. hátekjuskattur? Væri það ekki alveg upplagt að sérstakt þrep eða 1% þrep í tekjuskatti eða eitthvað því um líkt væri greitt af þeim sem notið hafa náms á undanförnum árum? Eða almennir þegnar þjóðfélagsins sem njóta núna betri lífskjara vegna þess að íslenska þjóðin er menntaðri og öflugri á sinn hátt en áður var, legðu eitthvað af mörkum? Verðum við í þriðja lagi ekki að gera ráð fyrir því að leggja lánasjóðnum til verulega fjármuni um alllangt skeið meðan hann er að komast yfir það erfiða bil í sögu sinni sem stafar af mikilli fjölgun námsmanna, þyngri sveiflu í þá átt sem ætla má að fari nú að stöðvast og stafar af fortíð óverðtryggðra lána og mikils vaxtamunar vegna vaxtaokursins á lánamarkaðnum? Allt þetta og fleira til þyrfti að skoða að mínu mati. Að lokum vil ég spyrja hæstv. menntmrh.: Er virkilega svo að það sé bjargfastur ásetningur hans að keyra frv. í gegn eða er menntmrh. tilbúinn til þess að gefa tíma til þess að málið verði skoðað í rólegheitum í nefnd í þinginu, jafnvel kallað til nýs samstarfs á meðan málið bíður þar eða er þar til vinnslu, nýs samráðs við námsmannahreyfinguna og e.t.v. fleiri aðila í landinu? Mér þætti t.d. ekkert óeðlilegt þó að verkalýðshreyfingin yrði kölluð til samráðs um þessa mikilvægu löggjöf. Augljósir hagsmunir til að mynda opinberra starfsmanna og háskólamenntaðra manna í stéttarfélögum ætti að liggja þar til grundvallar. Er hæstv. menntmrh. tilbúinn a.m.k. til þess að ljá máls á því að einhver tími verði tekinn í slíka tilraun? Af

því að ég held að þrátt fyrir allt sé ákaflega mikilvægt að um þessa grundvallarlöggjöf geti ríkt sæmilegur friður og sama á við um skóla- og menntamál almennt.
    Herra forseti. Ég ætla þá að ljúka máli mínu með tilliti til þess sem ég áður sagði. Ég hefði kannski viljað nefna nokkur atriði sem lúta að samspili menntunar og atvinnustigs. Þannig háttar til því miður að atvinnuástand er verra nú en verið hefur um áratugaskeið. Það vekur upp ýmsar spurningar m.a. í tengslum við námslánafyrirkomulagið og mikilvægi menntunar í því sambandi. Margar þjóðir hafa ekki hvað síst reynt að glíma við þann leiða draug, atvinnuleysið, með því að beina auknum kröftum í þjóðfélaginu yfir í menntun í þeirri von og trú að það sé nú hvort tveggja í senn hollari iðja fyrir menn að mennta sig heldur en mæla göturnar í atvinnuleysi og hitt að það geti jafnvel skilað þjóðarbúinu nokkru í aukinni framlegð, auknum krafti og betri þegnum í þeim skilningi að þeir noti tímann meðan þeir hafa ekki störf eða létt sé á vinnumarkaðnum með einhverjum hætti með því að menn beini þá auknum krafti í menntun á meðan svo stendur. Þetta samhengi hefði verið ástæða til þess að ræða í ljósi þeirra dökku upplýsinga sem við erum að fá dag eftir dag um atvinnuástandið og verður kannski gert. Þetta samspil sumarvinnu námsfólks og námslána sem kannski fer að heyra sögunni til af því að það verði engin sumarvinna fyrir námsfólk og fleira af því tagi. En e.t.v. dregur til þeirra tíðinda síðar í umræðunni að ég kveðji mér aftur hljóðs.