Náttúrufræðistofnun Íslands

83. fundur
Þriðjudaginn 18. febrúar 1992, kl. 14:30:00 (3542)

     Tómas Ingi Olrich :
    Virðulegi forseti. Hér leggur umhvrh. fram frv. til laga um Náttúrufræðistofnun Ísland og náttúrustofur sem boðar talsverðar nýjungar í skipulagi og hugsun að því er varðar stofnanir ríkisins. Ég ætla ekki að fara hér yfir sögu þessa máls, hún er rakin í fylgiskjölum með frv. Ég ætla hins vegar að fara nokkrum orðum um þessar nýjungar og aðdragandann að því hvernig þær urðu til og þá merkingu og þýðingu sem þessar nýjungar geta haft á rannsóknastarf á Íslandi á sviði náttúruvísinda svo og á viðhorf almennings til þessa þáttar í vísindastarfi þjóðarinnar og einnig viðhorf almennings til náttúruverndar og umhverfisrannsókna almennt.
    Ég vil sérstaklega vekja athygli þingmanna á þeirri hugmynd að setja á stofn ríkisstofnun sem hefur setur víðs vegar á landinu þar sem svo er um hnútana búið að í stjórn Náttúrufræðistofnunar Íslands sitja fulltrúar frá hverju setri og eru jafnréttháir. Hér er verið að setja fram með hugmyndum um setrin og með hugmyndum um stjórn stofnunarinnar nýmæli sem verða til valddreifingar í uppbyggingu rannsóknastarfsemi í landinu.
    Þessi hugmynd varð ekki til átakalaust. Þegar NNN-nefndin, sem hér er sagt frá í fylgigögnum, kom að þessu máli þá er mér fullkunnugt um það af þeim gögnum sem þá lágu fyrir að þessar hugmyndir, sem hér eru lagðar fram, höfðu þá ekki mótast. Þær mótuðust í þessari NNN-nefnd við það starf sem þar var unnið og ég vil nota tækifærið sem ég hef til þess að lýsa því yfir að vinnubrögðin í þeirri nefnd voru skynsamleg. Þar var tekið á málinu af mikilli víðsýni og niðurstaðan varð í samræmi við það. Ég átti þess kost að koma að undirbúningi þessa máls með þeim hætti að ég sat í nefnd sem Akureyrarbær skipaði til viðræðna við ríkisvaldið um það með hvaða hætti sú rannsóknastarfsemi sem fram hefur farið í meira en 25 ár á vegum Náttúrufræðistofnunar Norðurlands yrði tengd almennri rannsóknastarfsemi á vegum hins opinbera og hvernig hægt væri að viðurkenna í reynd það starf sem hefur farið fram hjá Náttúrufræðistofnun Norðurlands.
    NNN-nefndin fékk þetta verk inn á sitt borð og leysti það með prýði. Hluti af því sem við höfum hér fyrir framan okkur í frumvarpsformi er einmitt lausn á þeim vanda sem snertir Náttúrufræðistofnun Norðurlands. Ég mun koma að því aftur í þessu stutta erindi sem ég ætla að flytja ykkur núna. En ég ætla líka að vekja athygli á öðrum þætti, sem ég flokka undir nýmæli í þessu frv., og hv. þm. Guðrún Helgadóttir kom raunar svolítið inn á í sínu máli. Það er aðskilnaður vísindastarfsins sem er Náttúrufræðistofnun Íslands og sýningarstarfseminnar. Það er gert ráð fyrir því í þessu frv. að hér verði skilið á milli og það held ég að sé skynsamleg ráðstöfun. Það er svo að sýningarstarfsemin er mjög mikilvægur þáttur í því að tengja rannsóknastarfsemina við almenning. Hins vegar hafa þar miklu fleiri aðilar möguleika á að koma að því starfi, leggja því fé og styrkja, enda njóta mun fleiri góðs af starfsemi sýningarsafnanna heldur en beinlínis af starfsemi vísindasafnanna. Sýningarsöfnin eru hluti af því sem hvert sveitarfélag hefur upp á að bjóða. Sveitarfélögin hafa af sýningarsöfnunum óbeinar og beinar tekjur og það er eðlilegt að þau komi inn í það mál með auknum krafti.
    Ég vil taka það fram að í þessu frv. er fólgin viðurkenning á áratuga vísindastarfi sem unnið hefur verið hjá Náttúrufræðistofnun Norðurlands. Það er einnig rétt að vekja athygli þingmanna á því sérstaklega að í áratugi hefur farið fram á Akureyri almennt vísindastarf á sviði náttúruvísinda sem er á sama grundvelli og rekið með sama hætti, með sömu markmiðum og starfsemi Náttúrufræðistofnunar Íslands. Í starfi Náttúrufræðistofnunar Íslands hefur ætíð verið tekið tillit til þess almenna vísindastarfs sem unnið hefur verið í Náttúrufræðistofnun Norðurlands sem áður hét Náttúrugripasafnið á Akureyri. Þetta þýðir það að Náttúrufræðistofnun Íslands hefur getað sérhæft sig á sviðum sem Náttúrufræðistofnun Norðurlands hefur ekki sinnt. Þannig hefur komið upp vísir að verkaskiptingu milli þessara tveggja stofnana. Hins vegar hefur það verið svo að á sama tíma og Náttúrufræðistofnun Íslands hefur verið rekin fyrir almennt skattfé hafa skattborgarar á Akureyri greitt fyrir starfsemi Náttúrufræðistofnunar Norðurlands fyrir utan smávægilega styrki sem stofnunin hefur notið úr almennum sjóðum.
    Í frv. er því fólgin viðurkenning á þessu viðamikla starfi sem nær marga áratugi aftur í tímann og það er vel. Ég fagna því hve vel hefur tekist að koma þessu frv. saman.
    Ég vil taka fram að það gefst nægilegt tækifæri til að koma að þessu frv. aftur og gera það að umræðuefni hér í þingsalnum. Í lok máls míns vil ég fara nokkrum orðum um það á hvern hátt uppbyggingin á Náttúrufræðistofnun Íslands, eins og hún er hugsuð í frv., er í samræmi við eðli þeirra málaflokka sem þetta frv. snertir með ýmsum hætti og á hvern hátt ég held að þetta frv. muni styrkja umhvrh. í hans starfi og á hvern hátt ég held að það muni efla skilning Íslendinga á náttúru Íslands og umhverfismálum almennt.
    Það er ekki hægt að reka skynsamlega umhverfismálapólitík nema með umhverfissinnaðri þjóð. Umhverfismálum verður ekki stjórnað úr ráðuneytum eða Stjórnarráði öðruvísi en það sé umhverfissinnuð þjóð sem tekur við þeim skilaboðum sem þaðan koma. Samstarfið við þjóðina í þessum málum þarf að vera mjög náið og beint. Nú er það svo að ég hef orðið vitni að því hvernig Náttúrufræðistofnun Norðurlands hefur í langan tíma skapað í kringum sig ákveðið mannlegt samfélag sem hrærist í náttúruvísindum, áhuga á náttúrunni og áhuga á umhverfismálum almennt. Það sama hefur gerst í Neskaupstað og það sama hefur gerst raunar víða um land í kringum náttúrugripasöfn. Með tíð og tíma þegar þetta frv. er orðið að lögum, sem ég vona að muni ekki mæta mikilli fyrirstöðu í þinginu, þá mun það falla mjög vel að eðli umhverfisverndar. Það mun stuðla að því að víða um land munu vaxa upp fræðistofnanir, vísindastofnanir sem munu skapa í kringum sig skilning og velvild í garð náttúruvísinda. Þær munu skapa aukinn skilning á náttúru Íslands og almennan áhuga á umhverfismálum. Þess vegna mun þetta verða til þess að styrkja stöðu okkar, bæði inn á við og út á við í þessum málaflokki og þess er full þörf. En það er líka góður jarðvegur fyrir slíka starfsemi þannig að ég held að hér sé að ferðinni athyglisvert mál, athyglisverðar nýjungar sem mér finnst full ástæða til þess að segja hér í upphafi umfjöllunarinnar á Alþingi að ég bind miklar vonir við.