Eftirlit með skipum

83. fundur
Þriðjudaginn 18. febrúar 1992, kl. 15:26:00 (3550)

     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) :
    Herra forseti. Það frv. sem ég mæli hér fyrir var lagt fram á 113. löggjafarþingi 1990 en varð ekki útrætt. Frv. er samið af nefnd sem samgrh. skipaði til að endurskoða lög nr. 57/1987, um eftirlit með skipum. Í nefndinni áttu sæti Ragnhildur Hjaltadóttir skrifstofustjóri, formaður, Einar Hermannsson, fulltrúi Sambands íslenskra kaupskipaútgerðar, Helgi Laxdal, sem þá var varaforseti FFSÍ, Jónas Haraldsson, skrifstofustjóri LÍÚ og Magnús Jóhannesson siglingamálastjóri.
    Nefndin fór enn fremur yfir umsagnir sem samgn. neðri deildar bárust um frv. meðan það var til athugunar og hefur það tekið nokkrum breytingum. Helsta breytingin er sú að hér er lagt til að siglingadómur verði lagður niður en það er í samráði við tillögur réttarfarsnefndar, laganefndar Lögmannafélags Íslands og meiri hluta siglingadóms. Vísast til V. kafla um athugasemdir við einstakar greinar frv. í því sambandi.
    Með gildandi lögum um eftirlit með skipum var leitast við að færa lagaákvæði um þetta efni til samræmis við nútímaaðstæður um leið og þau voru einfölduð.
    Við samingu frv. hafði nefndin til athugunar og hliðsjónar löggjöf Danmerkur og Noregs um öryggi skipa og hefur ýmislegt úr þeirri löggjöf verið haft til hliðsjónar. Nefndin hefur kallað til sín og leitað álits annarra aðila, t.d. formann siglingadóms og formann réttarfarsnefndar vegna siglingadóms og ríkissaksóknara vegna refsiákvæða. Auk þess er, eins og áður segir, tekið mið af umsögnum fjölmargra annarra aðila sem veittu samgn. 113. löggjafarþings umsögn.
    Veigamiklar breytingar eru gerðar á nokkrum aðalþáttum laganna, ákvæðum um haffæri skipa, hámarksaldur innfluttra skipa og farbann, auk þess sem aukin áhersla er lögð á mengunarvarnir í skipum og aðbúnað og hollustuhætti. Helsta breytingin er væntanlega sú, eins og áður segir, að hér er lagt til að siglingadómur verður lagður niður.
    Samkvæmt umsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytis frá 28. okt. sl. hefur frv. ekki teljandi breytingar og kostnað í för með sér.
    Herra forseti. Hér er um lagatæknilegt frv. að ræða og ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða um einstaka þætti þess en legg til að því verði vísað til hv. samgn.