Leiðsaga skipa

83. fundur
Þriðjudaginn 18. febrúar 1992, kl. 15:29:00 (3551)

     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) :
    Herra forseti. Þetta frv. er samið í samgrn. í samráði við Vitastofnun og hagsmunaaðila. Gildandi lög um leiðsögu skipa eru lög nr. 48 19. júní 1933, en samkvæmt þeim hefur verið sett reglugerð um leiðsögu skipa nr. 215 28. júlí 1972. Þá er í gildi gjaldskrá fyrir leiðsögu skipa nr. 396 15. ágúst 1989. Ljóst er að gildandi lög eru fyrir löngu orðin úrelt og þjóna ekki markmiðum sínum og þykir því brýn þörf á endurskoðun laganna.
    Tillögur þær sem settar eru fram í frv. miða að tvennu. Í fyrsta lagi auknu öryggi siglinga við strendur landsins og í öðru lagi einföldun á leiðsögukerfinu. Fyrra markmiðið á að nást með þeirri skyldu að ávallt sé nærtækur á skipi skipstjórnarlærður maður sem trygging er fyrir að hafi nokkra staðarþekkingu og skyldur til að aðstoða yfirvöld við framkvæmd við störf þeirra. Síðara markmiðið á að nást við að útgerðarmaður eða umboðsmaður skips getur sjálfur ráðið hver leiðsögumaðurinn er. Þau stærðarmörk sem sett eru miðast við að flest fiskiskip séu undanþegin því að þurfa að taka um borð sérstakan leiðsögumann enda munu skipstjórar hinna stærri skipa yfirleitt hafa öll skilyrði til að öðlast öll réttindi leiðsögumanna. Þá er við það miðað að ekki þurfi að setja almenna leiðsögumenn um borð í íslensk flutningaskip að öllu jöfnu þar sem stjórnendur þeirra muni uppfylla þær kröfur sem settar eru fram í öllu falli varðandi þau svæði er þeir sigla oftast um eða þá að viðkomandi útgerð á kost á að hafa í áhöfn skipstjórnarlærðan mann með staðarþekkingu á því svæði sem skipið á leið um.
    Varðandi erlend skip mun aðalreglan verða sú að íslenskur leiðsögumaður kemur um borð í fyrstu höfn og fylgir síðan skipinu uns það snýr af landi brott. Ekkert á þó að vera í vegi fyrir því að erlendur skipstjórnandi fái löggildingu leiðsögumanns og þar með heimild til að sigla skipi sínu um þau svæði sem hann hefur kynnst í fylgd löggiltra leiðsögumanna.
    Sú leiðsöguskylda sem frv. gerir ráð fyrir er mun minna krefjandi en almenn leiðsöguskylda í nágrannalöndunum. Hér er að aðeins gert ráð fyrir að skylda sé að staðkunnugur maður sé til taks hvenær sem er án þess að hann sé á stöðugri vakt á stjórnpalli svo sem almennt er skylda leiðsögumanna annars staðar á Norðurlöndunum og víðar.
    Hafnayfirvöld meta hvort hafnsögumaður eigi að leiðbeina skipinu inni á hafnarsvæðið. Við sumar hafnir getur þó verið hafnsöguskylda og verða þær hafnir taldar upp sérstaklega í reglugerð um leiðsögu skipa.
    Bráðabirgðaákvæði frv. gefur núverandi leiðsögu- og hafnsögumönnum tækifæri til að halda áfram starfi sínu en gera ráð fyrir að að loknum umþóttunartíma taki ákvæðin um hæfni að fullu gildi. E.t.v. mun á smærri stöðum þurfa að sjá í gegnum fingur varðandi réttindi hafnsögumanna en aftur á móti munu þangað aðeins leita smærri skip og þá yfirleitt með fullgildan leiðögumann um borð svo að fagþekking ásamt staðarþekkingu ætti ávallt að vera fyrir hendi.
    Ég sé ekki ástæðu, herra forseti, til að fara fleiri orðum um þetta frv. sem er tæknilegs eðlis en legg til að því verði vísað til samgn. og 2. umr.