Innflutningur dýra

83. fundur
Þriðjudaginn 18. febrúar 1992, kl. 15:33:00 (3552)

     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) :
    Herra forseti. Samkvæmt 2. málsgr. 9. gr. laga nr. 54 16. maí 1990, um innflutning dýra, er sóttvarnardýralækni óheimilt að stunda lækningar dýra utan sóttvarnastöðvar. Ákvæðinu er ætlað að koma í veg fyrir að smitefni geti borist úr sóttvarnastöð í búfé og önnur dýr utan stöðvarinnar.
    Ekki er ástæða til að ætla að sóttvarnardýralæknir geti ekki stundað lækningar annarra dýra en hann hefur eftirlit með þar sem smitefni verður að teljast hættulaust öðrum dýrategundum en þeim sem eru í umsjá hans í stöðinni og viðurkenndum sóttvarnaaðferðum er beitt. Því er lagt til að landbrh. geti heimilað sóttvarnardýralækni að starfa utan sóttvarnastöðvar. Leyfi ráðherra er háð því að yfirdýralæknir setji sérstakar reglur um störf sóttvarnardýralæknis utan sóttvarnastöðvar.
    Reynst hefur erfitt að framkvæma lögbundið eftirlit í sóttvarnastöð eftir núgildandi ákvæði laganna. Sé unnt að veita sóttvarnardýralækni leyfi til starfa utan stöðvar eins og hér er lagt til er augljóst að með því væri unnt að spara umtalsverða fjármuni þar sem hægt er að fela honum önnur störf án þess að dregið sé úr smitvörnum í stað þess að hann sinnti eingöngu því eftirliti sem lögin gera ráð fyrir. Jafnframt er fellt niður ákvæði um sérþekkingu dýralækna í eggjaflutningi og sæðingu búfjár þar sem slíka sérþekkingu er auðvelt að fá utan stöðvarinnar og því óþarft að binda þá starfsþekkingu við sóttvarnardýralækni.
    Frv. það sem ég mæli fyrir miðar að því að draga úr kostnaði ríkissjóðs af rekstri sóttvarnastöðvarinnar. Það hefur að sjálfsögðu ekki kostnaðarauka í för með sér.
    Ég legg til, herra forseti, að frv. verði vísað til 2. umr. og landbn.