Innflutningur dýra

83. fundur
Þriðjudaginn 18. febrúar 1992, kl. 15:37:00 (3554)

     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) :
    Herra forseti. Þetta frv. er ekki flutt af sparnaðarástæðum heldur er þetta frv. flutt vegna þess að reynslan hefur sýnt að nauðsynlegt er að hafa heimild af þessu tagi í lögum til þess að sóttvarnarlæknir geti starfað utan sóttvarnastöðvar, að sjálfsögðu undir eftirliti dýralæknis sem samdi þetta frv. og er hvatamaður að því. Hér stendur ekki til að draga úr sóttvörnum eða öryggi að því leyti, einungis að rýmka reglur með þeim hætti þó að ekki sé hætta á því að smit berist úr sóttvarnastöð til meginlandsins. Við tölum sérstaklega um Hrísey í þessu sambandi þannig að frumkvæðið að þessu máli kemur frá yfirdýralækni og hann telur nauðsynlegt að ná þessum breytingum fram. Eins og stendur hér í greinargerð verði undanþága eða leyfi sem sóttvarnardýralæknir fær til að stunda lækningar annarra dýra með þeim hætti að smitefni berist ekki í land. Ég vona að þetta sé skýrt. Um tæknileg atriði mun yfirdýralæknir auðvitað gefa nánari upplýsingar í landbn. en hér er sem sagt ekki um sparnaðarfrv. að ræða heldur er óhjákvæmilegt til að hægt sé að reka sóttvarnastöðina í Hrísey með eðlilegum hætti að heimild af þessu tagi sé í lögum.