Viðbrögð ríkisstjórnarinnar við atvinnuleysi í landinu

83. fundur
Þriðjudaginn 18. febrúar 1992, kl. 16:17:00 (3561)

     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Það sem er einkennandi fyrir síðustu könnun um atvinnuástandið er í fyrsta lagi að 2 / 3 af skráðum atvinnuleysisdögum féllu til á landsbyggðinni. Í öðru lagi að mjög vaxandi atvinnuleysis gætir á höfuðborgarsvæðinu, en þar er um að ræða 50% aukningu milli mánaða, og í þriðja lagi er um að ræða verulega aukið atvinnuleysi hjá konum á landsbyggðinni, einkum á Suðurnesjum, en atvinnuleysi karla er meira á höfuðborgarsvæðinu en hjá konum. Samkvæmt athugun sem gerð hefur verið í Reykjavík fyrstu 15 daga febrúar virðist atvinnuleysi þar fara mjög vaxandi en 200 manns hafa bæst á atvinnuleysisskrá þessa 15 daga til viðbótar 853 sem voru atvinnulausir í janúarmánuði. Sömu sögu má segja um Akureyri. Þar hafa bæst við 50--60 manns fyrstu tvær vikur af febrúarmánuði.
    Það er vissulega ástæða til þess að hafa áhyggjur af atvinnuástandinu þegar atvinnuleysi svarar til 3,2% af mannafla nú í sl. mánuði sem jafngildir því að 4 þúsund manns hafi að meðaltali verið á atvinnuleysisskrá í mánuðinum. Að vísu er það svo að atvinnuleysi er yfirleitt hátt í janúarmánuði og oftast um eðlilega árstíðarsveiflu að ræða. Yfirleitt gengur það atvinnuleysi til baka í febrúarmánuði þannig að marktæk spá um hvort um aukningu er að ræða á atvinnuleysi frá fyrri spá, sem var 2,6% fyrir árið, liggur ekki fyrir fyrr en í fyrsta lagi í næsta mánuði þegar febrúarkönnun um atvinnuástandið liggur fyrir. Hinu er ekki að leyna að þær vísbendingar sem koma fram og ég nefndi áðan um verulega aukningu á fjölda atvinnulausra fyrstu tvær vikur febrúarmánaðar gefa ekki mikið tilefni til bjartsýni í þeim efnum.
    Hitt er líka áhyggjuefni að fyrirtæki tilkynntu uppsagnir hjá 1.300 starfsmönnum á síðasta fjórðungi liðins árs, sem ekki koma fram í þessum tölum, og verður varla ljóst fyrr en að lokinni marskönnun um atvinnuástandið hve mikið af þessu fólki hefur fengið endurráðningu. Fyrir utan mikið atvinnuleysi kvenna á landsbyggðinni og aukið atvinnuleysi á höfuðborgarsvæðinu er það einkennandi nú fyrir atvinnuástandið, sem ekki hefur verið áður, að atvinnuleysi í janúarmánuði hefur áður að verulegu leyti mælst aðallega í fiskvinnslunni. Þær breytingar sem við erum að sjá á vinnumarkaðinum eru að atvinnuleysi kemur einnig að verulegu leyti fram í iðnaði, verslun og þjónustugreinum og hjá opinberum starfsmönnum.
    Í könnun sem nú liggur fyrir frá Þjóðhagsstofnun, þar sem leitað var eftir áformum fyrirtækja um fjölgun eða fækkun starfsmanna og sumarafleysingar, en könnunin náði til um 75% af allri atvinnustarfsemi í landinu, kemur fram að atvinnurekendur á landinu öllu áforma fækkun starfsmanna um 430 en fækkun starfsmanna var talin æskileg hjá atvinnurekendum í öllum atvinnugreinum nema sjúkrahúsarekstri og þjónustustarfsemi þar sem atvinnurekendur töldu æskilegt að fjölga starfsmönnum um 60. Mest er fækkunin í iðnaði, byggingarstarfsemi, verslun og veitingastarfsemi. Til samanburðar vildu atvinnurekendur fækka starfsmönnum um 120 í janúar í fyrra, mest í fiskiðnaði og byggingarstarfsemi. Þótt áform atvinnurekenda fyrir þetta ár séu að fækka starfsmönnum töluvert meira en á sama tíma í fyrra, þá er ljóst að fækkunin sem í fyrra beindist aðallega að fiskiðnaðinum beinist núna miklu meira að iðnaði þar sem atvinnurekendur vilja fækka um 200 á móti því að þeir vildu fjölga um 20 á landinu öllu í fyrra. Einnig beinist fækkunin að verslun og veitingastarfsemi en nú vilja atvinnurekendur fækka þar um 140 manns en vildu í janúar í fyrra fjölga um 60. Sama má segja um samgöngur en þar eru áform um fækkun en í janúar í fyrra vildu atvinnrekendur fjölga þar starfsmönnum um 70. Af þeim 430 starfsmönnum sem áformað er að fækka um er talið æskilegt að fækka starfsmönnum um 330 á höfuðborgarsvæðinu en um 100 á landsbyggðinni. Á höfuðborgarsvæðinu er fækkunin mest í iðnaði, verslun og veitingastarfsemi, um 140 manns, og í þjónustu um 80 manns en á móti er talið æskilegt að fjölga á sjúkrahúsum um 50 manns. Á landsbyggðinni er áformuð mest fækkun í byggingarstarfsemi um 120 manns, í fiskiðnaði um 70 manns, um 50 manns í iðnaði en í þjónustu er hins vegar talið æskilegt að fjölga um 140 manns.
    Þær tölur, sem ég hef nefnt, gefa vísbendingar um eftirspurn eftir vinnuafli í helstu atvinnugreinum og þótt þær séu dökkar þá er ástæða til þess að benda á að í janúar 1990 var atvinnuleysi svipað og núna í janúar eða 3,1% en þá benti könnun til svipaðs samdráttar í mannafla og nú er spáð og það sama gilti raunar í janúarmánuði 1989. Raunar má einnig benda á að í janúar 1989 var spáð hemingi meiri samdrætti í vinnuafla á höfuðborgarsvæðinu eða um 660 manns á móti 330 í þeirri spá sem við höfum núna. Þótt útlitið sé dökkt í þeim vísbendingum sem nú liggja fyrir um mannaflaþörf á árinu hefur Þjóðhagsstofnun ekki talið ástæðu til að breyta sinni fyrri spá um 2,5--2,6% atvinnuleysi á árinu. Til þess eru óvissuþættirnir of margir, m.a. hver verður niðurstaða í kjarasamningum, hvort og þá að hve miklu leyti atvinnuleysi verður hjá opinberum starfsmönnum, svo og að niðurstaða úr könnun á atvinnuástandi í febrúarmánuði þarf að liggja fyrir til að hægt sé að endurmeta spána.
    Ég tel mikilvægt að fá fram frekari upplýsingar úr þeim könnunum sem nú liggja fyrir um atvinnuástandið, svo sem aldursdreifingu atvinnulausra, skiptingu eftir kynjum og stéttarfélögum og að atvinnuleysi verði nánar brotið niður í einstakar greinar. Athuga þarf hve mikill fjöldi hefur verið lengur en eitt ár á atvinnuleysisskrá og er dottinn út af atvinnuleysisbótum. Í nóvembermánuði sl. voru 7,3% atvinnulausra búnir að vera lengur en eitt ár á atvinnuleysisbótum en þá detta þeir út af bótum í 16 vikur. Einnig þarf að athuga hvort takmarka þarf ný atvinnuleyfi til útlendinga en samtals voru veitt atvinnuleyfi til samtals 2.210 útlendinga á síðasta ári. Að fengnum þessum upplýsingum er betra að gera sér grein fyrir hvernig við eigum að bregðast við en að þessu er nú unnið.
    Einnig er ástæða til að hafa áhyggjur af áformum atvinnurekenda um sumarafleysingar. Áform atvinnurekenda um sumarafleysingar eru um 10.800 störf en búast má við að þeir sem sækjast eftir afleysingastörfum séu um 15 þús., þar af 12--14 þús. skólanemar sem koma út á vinnumarkaðinn í sumar. Áform atvinnurekenda um sumarafleysingastörf eru tæplega 15% færri störf en mældist í atvinnukönnun sem gerð var í apríl í fyrra. Fækkunin varðandi sumarafleysingar er einkum í rekstri sjúkrahúsa og í byggingarstarfsemi. Það sem er einnig alvarlegt er sú staða að á höfuðborgarsvæðinu mátu atvinnurekendur þörf fyrir 8.150 sumarafleysingastörf sem eru um 5% minna en í fyrra en á landsbyggðinni mátu atvinnurekendur þörf fyrir um 2.660 sumarafleysingastörf sem eru um 35% færri störf en

í fyrra. Munar þar mestu um fækkun sumarafleysingastarfa í iðnaði, byggingarstarfsemi, þjónustu og rekstri sjúkrahúsa.
    Ég vil geta þess hér að frá því í nóvember hefur verið starfandi nefnd á mínum vegum sem einmitt er að skoða atvinnumál skólafólks og hvað sé til úrbóta í þeim málum og vænti ég að nefndin skili niðurstöðum á næstu vikum. Á undangengnum árum hafa verið erfiðleikar í að útvega skólafólki atvinnu og í því sambandi hljótum við að hugleiða hvort hér getur verið um viðvarandi ástand að ræða og hvernig eigi við að bregðast. Í því sambandi hlýtur að aðlögun skólakerfisins að breyttum aðstæðum á vinnumarkaði með lengingu skólaársins að koma til athugunar.
    Mikilvægasta verkefnið fram undan er að tryggja atvinnuöryggið en í því sambandi skiptir mestu máli að við getum búið hér við áframhaldandi stöðugleika með nýrri þjóðarsátt. Mikilvægt er að við getum tryggt að spá um lága verðbólgu gangi eftir. Takist okkur að ná þeim markmiðum, þá auðveldar það okkur að vinna okkur út úr vandanum og að tryggja hér atvinnuöryggi. Það er forsenda fyrir úrbótum sem við þurfum að vinna að í atvinnu- og efnahagsmálum.
    Samningarnir um Evrópskt efnahagssvæði munu einnig skapa ný tækifæri í sjávarútvegi og fiskvinnslu og við þurfum að vinna að nýsköpun í atvinnutækifærum með því að leggja aukna áherslu á rannsókna- og þróunarverkefni. Ferðaþjónustu sem er vaxandi atvinnugrein þarf einnig að efla en gjaldeyristekjur landsmanna og þjónusta við erlenda ferðamenn hafa vaxið mikið undanfarin ár. Ég vil einnig nefna fjarvinnslu sem brýnt er að gera skipulagt átak í. Ég nefni ferðaþjónustu bænda sem skapað hefur mörgum tækifæri að undanförnu og félmrn. hefur stutt við bakið á. Einnig þarf að kanna sérstaklega og skapa skilyrði fyrir stofnun iðnfyrirtækja á landsbyggðinni. Við þurfum einnig að efla okkar fiskmarkaði þannig að afli landsmanna verði í auknum mæli seldur á innlendum mörkuðum. Ég vil einnig nefna að ég tel mjög mikilvægt fyrir bætt skilyrði atvinnurekstrarins og þar með atvinnuöryggi að endurskoða ýmsa þætti í rekstrarumhverfi fyrirtækja, m.a. að samræma skattlagningu fyrirtækja. Í því sambandi legg ég áherslu á að sem fyrst verði fellt niður aðstöðugjald á fyrirtæki og sveitarfélögunum verði fundinn annar tekjustofn. Ég bind miklar vonir við það að samstaða náist um að stíga nú verulega stórt skref í stækkun og eflingu sveitarfélaganna sem að mínu mati eru eitt stærsta byggðamálið. Því þarf að fylgja aukin verkefni og auknar tekjur sveitarfélaga ásamt samstilltum aðgerðum á sviði samgöngumála og atvinnumála en þar vil ég sérstaklega nefna flutning opinberrar þjónustu til landsbyggðarinnar. Ljóst er að stækkun sveitarfélaga ásamt bættum samgöngum er víða um land forsenda fyrir samstarfi eða undirstöðu atvinnufyrirtækja. Þar sem mörg sveitarfélög eru á sama atvinnu- og þjónustusvæði kemur oft upp togstreita um staðsetningu atvinnufyrirtækja. Með stækkun sveitarfélaganna væri hægt að koma í veg fyrir slíkt sem aftur gæti leitt til meiri hagkvæmni og styrkt atvinnulífið á stöðunum. Ef það markmið yrði sett að fækka sveitarfélögunum úr 200 í 25--30 þannig að sveitarfélögin yrðu yfirleitt ekki með undir þúsund íbúa, þá mundi það skapa skilyrði til þess að tryggja öflugt atvinnulíf á landsbyggðinni og þar með atvinnumöguleika launafólks. Takmarkanir á möguleikum á samruna fyrirtækja vegna sveitarfélagamarka mundu að mestu verða úr sögunni og stjórnsýslan öll mundi verða mun einfaldari, skilvirkari og ódýrari. Aðstæður mundu skapast fyrir dreifingu valds frá miðstjórnarstofnunum ríkisins út til sveitarfélaganna og skilyrði mundu einnig skapast fyrir hreinni verkaskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga þannig að samstarfsverkefni þeirra gætu lagst af að mestu.
    Í lokin vil ég nefna að brýnt er að gera átak í atvinnumálum kvenna en til þess var veitt fjármagn nú á fjárlögum. Ég nefni einnig að við þurfum að stórefla alla starfsmenntun í landinu og lögfesta það frv. sem nú liggur fyrir í þinginu. Fjármagn sem við höfum yfir að ráða á þessu ári hefur þrefaldast frá síðustu fjárlögum þannig að verulegt átak er hægt að gera til að efla starfsmenntun á þessu ári. Það er sú leið sem okkar nágrannaþjóðir fara helst til að vinna gegn atvinnuleysi og tryggja atvinnuöryggi, einkum ófaglærðra. Fjármagn sem til þess fer mun skila sér margfalt aftur í auknu atvinnuöryggi launafólks, aukinni framleiðni fyrirtækja og hagvexti í þjóðfélaginu.