Viðbrögð ríkisstjórnarinnar við atvinnuleysi í landinu

83. fundur
Þriðjudaginn 18. febrúar 1992, kl. 16:29:00 (3562)

     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Það eru 200 manns á atvinnuleysisskrá hjá Dagsbrún. Þeir biðu eftir því að heyra svör ráðherranna í dag um hvað ríkisstjórnin ætlaði að gera. Það eru um 190 manns á atvinnuleysisskrá hjá Verslunarmannafélagi Reykjavíkur. Þeir biðu eftir því að heyra svör ráðherranna hér í dag um hvað ríkisstjórnin ætlaði að gera. Það eru 130 manns á atvinnuleysisskrá hjá Iðju í Reykjavík. Þeir biðu líka eftir því að heyra hér í dag hvað ríkisstjórnin ætlaði að gera. Það eru 225 manns á atvinnuleysisskrá í Keflavík einni. Þeir biðu eftir því að heyra hvað ríkisstjórnin ætlaði að gera. Það eru 125 á atvinnuleysisskrá í Njarðvíkum einum saman, meira að segja 40 í Vogunum. Allt þetta fólk og hundruð í viðbót allt í kringum landið biðu eftir því að heyra hér í dag hvað ríkisstjórnin ætlaði að gera.
    Svörin voru skýr og einföld. Ríkisstjórnin ætlar ekki að gera neitt. Hún ætlar í hæsta máta að halda áfram að safna tölum um þá atvinnulausu, flokka þá eftir kyni, starfsgreinum, búsetu, aldri og hjúskaparstétt og skila svo einhverjum töflum um þessa flokkun. Það er ekki þetta sem verið er að biðja ríkisstjórnina um að gera. Það er verið að biðja ríkisstjórnina um atvinnustefnu, um frumkvæði, um aðgerðir, um breytingar á þjóðfélaginu sem minnki atvinnuleysið. Sameining sveitarfélaga, sem hæstv. félmrh. nefndi hér, getur verið góð og blessuð út af fyrir sig en hún er engin lausn á þessum vanda. Vaxtalækkun um tæplega fjórðung af því sem ríkisstjórnin sjálf hækkaði vextina um þegar hún kom til valda er að vísu lítið skref í rétta átt en hún segir ekkert um breytingar á þessu atvinnuleysisástandi. Inn í þessar tölur sem við erum nú að heyra eru þeir þó ekki komnir sem fara á atvinnuleysisskrá vegna niðurskurðar ríkisstjórnarinnar sjálfrar, þau mörg hundruð sem sagt hefur verið upp á Landakoti eru ekki komin inn á þessa skrá. Framhaldsskólanemendurnir, sem ekki munu fá inngöngu í skólana vegna niðurskurðar í menntakerfinu, eru ekki heldur komnir inn á þessa skrá. Staðreyndin er sú að það stefnir í það í kjölfar þessarar stjórnarstefnu að atvinnuleysistölurnar haldi áfram að aukast umfram það sem verið hefur um langan tíma.
    Formaður Iðju í Reykjavík segir að í áratug hafi ekki sést aðrar eins tölur eða horfur verið jafndökkar. Við erum nú í fyrsta sinn í mjög langan tíma að horfa fram á eðlisbreytingu í okkar þjóðfélagi, eðlisbreytingu sem er fólgin í því að atvinnuleysi er ekki lengur tímabundið eða staðbundið eða bundið við fáeinar atvinnugreinar. Atvinnuleysi er að verða í fyrsta sinn í áratugi viðvarandi og útbreitt einkenni á öllu íslensku þjóðfélagi þar sem þeir atvinnulausu eru í öllum starfsgreinum, öllum byggðarlögum og öllum aldursflokkum. Og í okkar landi er í fyrsta skipti í langan tíma, áratugi, fólk sem er búið að vera á atvinnuleysisskrá svo lengi að hætt er að skrá það. Hvað ætlar ríkisstjórnin að gera? Hver eru svörin hér í dag? Þau eru engin, hæstv. forseti, engar aðgerðir aðrar en halda áfram að safna upplýsingum. Hvað á að gera á Suðurnesjum til þess að rétta atvinnulífið við þar? Það eru held ég þrír mánuðir síðan hæstv. forsrh. og hæstv. iðnrh. fóru í sérstaka heimsókn til Suðurnesja. Þeir ræddu þar við fulltrúa bæjarfélaganna og sveitarfélaganna og létu vel af heimsókninni, tóku við ábendingum frá heimamönnum um yfirvofandi atvinnuleysisástand, sögðust ætla að athuga málið og koma með tillögur og hugmyndir. Hvað hefur gerst á þessum þremur mánuðum? Ekki neitt. Atvinnuleysi á Suðurnesjum hefur haldið áfram að aukast.
    Hæstv. ríkisstjórn er greinilega komin með þá efnahagsstefnu sem við þekkjum frá löndum þar sem hægrisinnuð efnahagsstefna hefur verið fest í sessi, í Bretlandi og Bandaríkjunum, og atvinnuleysið er hagstjórnartæki. Það var nefnilega kjarninn í því sem hæstv. fjmrh. sagði hér, að atvinnuleysið var liðurinn í að ná stöðugleikanum. Hersveitir hinna atvinnulausu eru þeir sem eiga að fórna sér fyrir efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar. Það er kjarni málsins. ( EgJ: Þín orð.) Það er sannleikurinn, hv. þm. Egill Jónsson, vegna þess að sú ríkisstjórn sem þú styður kom ekki fram með neitt sem hún ætlar að aðhafast hér. Það rétta heiti sem henni var valið sl. haust, ,,kemur-mér-ekki-við``-stefnan á einnig við í þessum efnum því miður.

    Auðvitað er ekki verið að biðja um það að ríkisstjórnin fari að taka hér einhver stórfelld erlend lán til þess að setja inn í hagkerfið. Það er heldur ekki verið að biðja um það að ríkisstjórnin hefji einhvern ríkisrekstur, því er víðs fjarri. En það er verið að biðja um forustu, frumkvæði og hvatningu til atvinnulífsins og til byggðarlaganna, að kraftar manna séu leiddir saman, að það sé leitað nýrra hugmynda, að það sé tekið vel í að skoða tillögur hvort sem þær koma frá fyrirtækjum sem vilja leggja vegi og bjóða upp á nýjar leiðir í þeim efnum eða öðrum. Nei, þær eru ekki til skoðunar. Ef það koma samtök úr atvinnulífinu og bjóða til athugunar tvöföldun Reykjanesbrautarinnar, jafnvel innan Sjálfstfl. sjálfs er á Suðurnesjum safnað undirskriftum þessu til stuðnings, þá er svarið líka nei. Jafnvel fótgönguliðarnir í Sjálfstfl. á Suðurnesjum fá nei þegar þeir ganga til ríkisstjórnarinnar og biðja um einhverjar athafnir. Hv. þm. Vilhjálmur Egilsson, sem stundum hefur það hlutverk að segja sannleikann í þessari umræðu, boðar það í dagblöðum í dag að atvinnuleysið eigi að halda áfram. Það er það sem upp úr stendur í þessari umræðu
    Hæstv. ríkisstjórn var m.a. mynduð um álver. Hún byggði sína atvinnustefnu á álveri. Látum það liggja milli hluta hvort það hefði verið jákvætt eða neikvætt, það er fullkomið aukaatriði. En það sýndi skammsýnina að hún hafði ekkert annað með í farangrinum. Þegar það er tekið út af borðinu er ekkert eftir.
    En hvað kennir reynslan okkur á Vesturlöndum þar sem hagvöxturinn hefur verið mestur? Hún kennir okkur það að 70--80% af nýjum atvinnutækifærum eru í smáum og meðalstórum fyrirtækjum. Í Vestur-Þýskalandi, jafnvel í Bandaríkjunum að ekki sé minnst á ríkin í Asíu þar sem hagvöxturinn hefur verið mestur er nýsköpun atvinnulífsins í smáum og meðalstórum fyrirtækjum og stjórnvöld þar kappkosta að styrkja vaxtarmöguleika þessara fyrirtækja. Hefur það verið gert hér? Nei. Þvert á móti fylgir ríkisstjórnin stefnu sem beinlínis stuðlar að því að skógur hinna smáu og meðalstóru fyrirtækja sé grisjaður, að þeim fækki og einingarnar stækkaðar. Það var það sem hæstv. fjmrh. var að boða hérna áðan, stækka rekstrareiningarnar, fækka fyrirtækjunum, sameina. Það heitir hagræðing. Þeir hafa ekki einu sinni lært þá grundvallarlexíu vestrænnar hagþróunar á síðustu 10--15 árum að það eru smáu og meðalstóru fyrirtækin sem halda uppi vexti atvinnulífsins. Hefur þessi ríkisstjórn einhverja stefnu gagnvart þeim fyrirtækjum? Nei, það hefur hún ekki. Er hún að efla smáfyrirtækin í sjávarútveginum? Nei. Er hún að efla smáfyrirtækin í ferðaiðnaði? Nei. Er hún að efla smáfyrirtækin í iðnaðinum? Nei. Er hún að efla smáfyrirtækin í samgöngum? Nei. Það er ekki hægt að benda á eitt einasta svið á okkar landi þar sem þessi ríkisstjórn er markvisst að vinna að því að efla vöxt smárra og meðalstórra fyrirtækja sem eru burðarásinn í hagþróun á Vesturlöndum. Það er þess vegna alveg ljóst að ef stefna þessarar ríkisstjórnar fær áfram að vera við lýði, þá mun atvinnuleysi því miður halda áfram að vaxa í okkar landi. Það eru hin döpru tíðindi sem þessi umræða flytur fólkinu í landinu og því miður er það þannig, hæstv. félmrh. og hæstv. fjmrh., að það, sem þið boðuðuð hér, að ætla á næstu vikum og mánuðum að halda áfram að safna gögnum um atvinnuleysið, hið vaxandi atvinnuleysi, verður því miður ærið verk.