Viðbrögð ríkisstjórnarinnar við atvinnuleysi í landinu

83. fundur
Þriðjudaginn 18. febrúar 1992, kl. 16:49:00 (3564)

     Ingibjörg Pálmadóttir :
    Virðulegi forseti. Það er ekki margt sem lifir góðu lífi undir oki hæstv. ríkisstjórnar. Atvinnuleysisvofan er næstum hið eina sem vex hér og dafnar lýðnum til leiða. Óvissa og óöryggi eru fylgifiskar aðgerðaleysis í atvinnumálum og háir vextir leika mörg atvinnufyrirtæki og heimili grátt. Að vísu sagði hæstv. fjmrh. hér áðan að lánsfjárþörf ríkissjóðs væri mjög minnkandi og þar með mundi vextir lækka. En hann gleymdi að geta þess að lánsfjárþörf sveitarfélaga vex að sama skapi vegna aukinna byrða sem á sveitarfélög eru lagðar og erfiðleika atvinnulífsins sem sveitarfélög þurfa að taka meiri þátt í en áður hefur verið og hefur þó verið nóg um það.
    Ársreikningar fyrirtækja fyrir sl. ár lofa því miður ekki góðu um framhaldið ef ekkert kemur til. T.d. telja Samtök fiskvinnslustöðva að heildartapið á vinnslunni sé um 6--7%. Þetta tap hvetur til aukins útflutnings á óunnum fiski sem leiðir svo áfram til minni atvinnu, sérstaklega hjá konum. Varanlegt gæftaleysi bætir ekki úr skák og minnir okkur á að við lifum á sveiflukenndum atvinnuvegi og því er oft nauðsynlegt að grípa til almennra aðgerða, ég segi almennra, því að hæstv. fjmrh. sagði hér áðan að tími sértækra aðgerða væri liðinn. Hinar almennu aðgerðir geta t.d. verið fólgnar í því að greiða úr Verðjöfnunarsjóði sjávarútvegsins þá 3 milljarða sem þar eru og sjávarútvegurinn hefur safnað. Þar með væri hægt að lækka skuldir sem liggja hjá ríki og bönkum og lækka þar með vaxtakostnað fyrirtækja. Fjármunir færu þá ekki út úr kerfinu. Þeir færu í bankana og til ríkisins til að lækka þessar skuldir.
    Hér er hæstv. ríkisstjórn jafnvel að boða tengingu íslensku krónunnar við ECU og vill festa sig í því á meðan hæstv. ríkisstjórn er ekki tilbúin að taka minnstu áhættu í atvinnumálum sem sést best á aðgerðarleysi í kringum síldarsamningana við Rússa, atvinnuveg sem hefur skapað hér þúsundum manna vinnu og mikinn gjaldeyri. Nú þegar svona horfir er hæstv. ríkisstjórn að segja upp fjölda manna í ríkisgeiranum. Hvert ætlar hæstv. ríkisstjórn að beina þessum starfskröftum, konum og körlum á öllum aldri? Það er löngu

tímabært fyrir hæstv. ríkisstjórn að koma sér upp úr fornleifagröfunum, sem þeir hafa nú verið fastir í, og takast á við nútímann, tímann sem við lifum á í dag, tryggja rekstrargrundvöll fyrirtækjanna, hverfa frá barlómi og bölmóði til framsýni og bjartsýni því að hér á Íslandi eru möguleikarnir miklir ef rétt er á spöðum haldið.