Viðbrögð ríkisstjórnarinnar við atvinnuleysi í landinu

83. fundur
Þriðjudaginn 18. febrúar 1992, kl. 17:09:00 (3567)

     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Hér hefur verið rætt um hina uggvænlegu þróun í atvinnuástandinu í landinu. Mig langar í framhaldi af því sem hér hefur verið rætt um að koma inn á það að í afgreiðslu Alþingis á fjárlagafrv. var framlag til Atvinnuleysistryggingasjóðs hækkað um 150 millj. kr. þar sem sýnt þótti að atvinnuleysi yrði meira en 2% eins og gert hafði verið ráð fyrir í fyrstu forsendum fjárlaga. Síðasta spá var reyndar 2,6% og samkvæmt þeim tölum sem nú birtast fyrir desember, janúar og það sem af er febrúar stefnir í að atvinnuleysi verði enn meira, 3,5% gæti ég trúað að það verði samkvæmt því sem það nú stefnir í. Þá eru útgreiðslur sjóðsins áætlaðar 1 millj. 508 þús. og átti framlag ríkisins að vera 1.130 millj. en var sem sagt hækkað í 1.280 millj.
    Nú vitum við að tekjur sjóðsins koma að 1 / 4 af tryggingagjaldi sem er greitt af launum og það hlýtur að liggja í hlutarins eðli að það tryggingagjald lækkar þar sem atvinna minnkar. Ríkissjóður skal síðan leggja fram þrefalda þessa upphæð á móti. Jafnframt var í forsendum fjárlaga boðað að það ætti að endurskoða þann bótarétt sem sjóðurinn veitir og rekstrarkostnað hans eða eins og segir í skýringum með fjárlagafrv., með leyfi forseta:
    ,,Sú endurskoðun mun m.a. snúa að réttindum til bótagreiðslna með það að markmiði að allir launþegar, sem iðgjöld eru greidd fyrir til sjóðsins, njóti sambærilegra réttinda og komið verði í veg fyrir misnotkun.``
    En jafnframt segir þó að þessi endurskoðun eigi að leiða til 150 millj. kr. lækkunar á framlagi ríkisins þannig að mér finnst að þarna stangist aðeins á þau markmið sem eru með þessari endurskoðun. Hvernig hefur ríkisstjórnin hugsað sér að bregðast við með Atvinnuleysistryggingasjóð? Það er alveg sýnt að útgreiðslur úr honum munu aukast eftir því sem á líður árið því að það atvinnuleysi sem hér hefur verið sagt frá að sé komið í janúar og það sem af er febrúar er ekki tímabundið atvinnuleysi, ég vil árétta það. Það er ekki tímabundið atvinnuleysi sem oft hefur verið kennt við vertíðaskipti eða að bátar væru ekki byrjaðir róðra. Það hefur aðallega verið í sjávarútveginum en það er það ekki núna. Og sú aukning sem hefur orðið í Reykjavík er einnig uggvænleg. Þar er 50% aukning atvinnuleysis á milli mánaða. Það bendir einnig til þess að þegar skólafólkið kemur út á vinnumarkaðinn í vor verði lítið fyrir það að gera og ég hef haft spurnir af því að fólk er þegar farið að leita sér að atvinnu í sumar og mér hefur verið sagt að það séu svona um 10--20 manns um hvert það starf sem kemur til greina. Þannig að ekki er útlitið bjart.

Og það mun ekki af veita að hugsa fyrir því að Atvinnuleysistryggingasjóður geti staðið undir einhverjum þeim kostnaði sem af þessari stefnu ríkisstjórnarinnar leiðir. Ég tel að atvinnustefna hennar hafi verið lítil sem engin og að nú þurfi að bregaðst við.