Viðbrögð ríkisstjórnarinnar við atvinnuleysi í landinu

83. fundur
Þriðjudaginn 18. febrúar 1992, kl. 17:21:00 (3569)

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Virðulegi forseti. Málshefjandi í þessari umræðu og ýmsir aðrir ræðumenn hafa spurt hvað ríkisstjórnin hafi gert og hvað hún hyggist gera til að tryggja atvinnu í landinu. Þar er mikilvægast að hinar almennu forsendur atvinnulífsins séu í lagi. Í því sambandi langar mig til að benda á að verðbólga er nú á bilinu 2--6% miðað við heilt ár eftir því hvernig mælt er og hefur reyndar ekki lægri verið frá því á viðreisnartímanum. Menn hafa bent á vextina sem íþyngjandi fyrir atvinnulífið. Mig langar að benda á að nafnvextir í bankakerfinu eru nú lægri en þeir voru þegar ríkisstjórnin tók við í vor, reyndar lægri en þeir hafa verið í 20 ár. Og frekari lækkunar er án efa að vænta á næstunni. Spariskírteinavextir ríkissjóðs, raunvextir, verða lækkaðir á morgun eins og kom fram hjá fjmrh. Reyndar mun svo komið að ávöxtunarkrafa spariskírteina á lánsfjármarkaði er nú lægri en hún var í maí 1991. Þetta er ákaflega mikilvægt. Vextirnar voru í vor er leið hækkaðir til þess að örva innlenda lánsfjáröflun fyrir ríkið. Betra jafnvægi á lánamarkaðinum núna gefur svigrúm til lækkunar raunvaxta og frekari lækkunar á aföllum húsbréfanna. Hér er um mjög jákvæða þróun að ræða sem mun örva atvinnustarfsemina í landinu og kemur bæði fyrirtækjum og almenningi til góða.
    Vegna orða hv. 1. þm. Austurl. vil ég nefna að ríkisstjórnin mun að sjálfsögðu gæta þess að eignasala á hennar vegum raski ekki þessu markaðsjafnvægi á fjármagnsmarkaðnum. En helsta vandamál þjóðarbúsins núna er, eins og okkur öllum er ljóst, að atvinnuvegirnir hafa í heild því miður ekki skilað aukinni framleiðslu á síðustu árum. Sem betur fer eru frá þessu undantekningar. Ég vil sérstaklega nefna að iðnaðarframleiðslan jókst um 1,5% árið 1990 og 2,5% í fyrra samfara framleiðniaukningu í greininni. En atvinnulífið á við erfiðleika að stríða víða um land og þar kemur margt til en fyrst og fremst það að þjóðin glímir nú við viðskiptakreppu í umheiminum, aflasamdrátt og minnkandi umsvif hér heima. Þessir erfiðleikar birtast okkur í auknu atvinnuleysi, bæði í heild og í einstökum landshlutum.
    Eins og fram hefur komið var atvinnuleysið í janúar 3,2% af mannafla. Í því sambandi vil ég benda á að atvinnuleysið mælist yfirleitt hæst í þessum mánuði vegna lítilla fiskveiða. Það er ástæða til að benda á að ef maður tekur tillit til þessarar árstíðarbundnu sveiflu þá lækkar atvinnuleysistalan í um það bil 1,5%. En víða er mjög alvarlegt staðbundið atvinnuleysi. Ég nefni t.d. atvinnuleysi meðal kvenna á Reykjanesi sem er nálægt því að vera 10%. Þetta er mikið áhyggjuefni því að atvinnuleysi er einstaklingum og fjölskyldum ómælanlegt böl.
    Það er athyglisvert í þessu máli að atvinnuleysið nú í janúar á þessu ári er því sem næst hið sama og það var í janúar 1990, fyrir tveimur árum. Þetta nefni ég m.a. vegna orða hv. 8. þm. Reykn. sem talaði um að atvinnuleysið væri nú meira en verið hefði áratugum saman. Viðbrögðin við þessum aðstæðum í hittiðfyrra voru sáttargjörð á vinnumarkaði um kyrr kjör. Þetta eru líka rétt viðbrögð nú en það er fráleitur málflutningur að halda því fram að lélegt atvinnuástand sé að kenna afskiptum eða afskiptaleysi stjórnvalda eins og vakað hefur í máli sumra ræðumanna hér. Flestir þingmenn, þar á meðal hv. málshefjandi Stefán Guðmundsson, ættu að vera í nægilega góðu sambandi við atvinnulífið til þess að vita að við eigum enn í höggi við fornan fjanda, einhæfni atvinnulífs. Það gildir bæði um byggðirnar utan Reykjavíkur og atvinnulífið í heild. Þegar samdráttur verður í sjávarútvegi kemur hann alls staðar niður en ríkisstjórnin hefur gert allt sem í hennar valdi hefur staðið til þess að sækja fram gegn samdrættinum og einhæfni atvinnunnar.

    Ég vil fyrst nefna niðurskurð ríkisútgjaldanna sem er algerlega og óumflýjanlega forsenda þess að hægt sé að ná niður verðbólgu og vöxtum. Lækkandi vextir og stöðugleiki í efnahagslífinu munu gera bæði starfandi fyrirtækjum og nýgræðingi auðveldara að ná sér á strik. Ríkisstjórnin hefur líka lagt sig alla fram um það að ná árangri í samningunum um Evrópska efnahagssvæðið. Þessa dagana, þessa klukkutímana, eru örlagastundir í þeim samningum. Við eigum afar mikið undir því komið að tengjast þeirri alþjóðlegu verslunar- og iðnaðarsamvinnu sem stöðugt styrkir sig í sessi í Evrópu. En EES-samningsdrögin fela í sér sem næst fullt tollfrelsi fyrir íslenskar sjávarvörur í Evrópu. Tollar munu þá ekki lengi enn standa í vegi fyrir flakaútflutningi til Evrópu í stað útflutnings á óunnum fiski. Þetta verður mikil búbót fyrir íslenska fiskvinnslu. EES felur líka í sér aðgang fyrir Íslendinga að ýmiss konar tæknisamvinnu sem mun leggja grunninn að atvinnulífi álfunnar í byrjun nýrrar aldar og því er ekki síður mikilvægt fyrir iðnað og þjónustu að við tengjumst EES.
    Ríkisstjórnin hefur unnið og vinnur nú að margvíslegum atvinnumálum. Ég nefni t.d. frv. sem er hér í þinginu sem m.a. felur í sér heimildir fyrir erlend skip að landa hér og kaupa margvíslega þjónustu. Ég nefni að undirbúningsvinna og undirbúningsrannsóknir vegna álvers á Keilisnesi halda áfram eins og um var samið í árslok í fyrra og þegar álverð og efnahagur umheimsins batnar mun bygging álversins hefjast.
    Þá eru nú í gangi mjög umfangsmiklar undirbúningsrannsóknir vegna hugsanlegs útflutnings raforku um sæstrengs til Evrópu. Markaðsskrifstofu iðnrn. og Landsvirkjunar hefur nýlega verið falið að athuga sérstaklega leiðir til að koma hér upp smáum og meðalstórum orkufrekum fyrirtækjum. Ég nefni saltverksmiðju á Reykjanesi sem hefja mun störf í vor. Ég nefni viðræður við bandaríska aðila um uppsetingu slípimassaverksmiðju. Ég nefni viðræður um þilplötuverksmiðju. Ég nefni það að raforkufyrirtækjum hefur verið falið að leita leiða til að auka hlut raforku í orkunotkun landsmanna. Ég nefni það að vatnsútflutningur fer nú vaxandi. Ég nefni það að sérstakar viðræður hafa farið fram við talsmenn Eyjafjarðarsvæðisins og Austfirðinga um samstarf við iðnrn. um að koma sambandi á við fyrirtæki sem líkleg væru til að setja hér upp orkufrekan iðnað sem henta mundi aðstæðum á þessum slóðum. Iðnrn. hefur látið taka saman upplýsingar um og fara sérstaklega yfir þá aðstoð og aðstöðu sem fólki og fyrirtækjum stendur til boða sem vill brydda upp á nýjungum í framleiðslu vöru eða þjónustu eða stofna ný fyrirtæki. Þetta er gert bæði til þess að unnt sé að kynna það sem í boði er og einnig til þess að hægt sé að skipuleggja þessa stuðningsstarfsemi betur. Á næstu vikum verður kynnt samstarfsverkefni iðnrn., Iðntæknistofununar og fleiri aðila sem nefnist ,,Snjallræði`` til þess að greiða fyrir nýsköpun í atvinnulífinu. Það hefur verið komið á fót samstarfsverkefni fyrirtækja í málmiðnaði og í undirbúningi er átak í húsgagna- og innréttingaiðnaði.
    Íslendingar hafa tengst upplýsinganeti Evrópuþjóða um samstarf og viðskipti milli lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Samstarf fyrirtækja í svokölluðum fyrirtækjanetum felur í sér margvíslega möguleika.
    Virðulegi forseti. Aflasamdrátturinn og ýmiss konar rekstrarbreytingar í sjávarútvegi, samruni fyrirtækja, fjölgun vinnsluskipa og útflutningur óunnins afla hafa valdið miklum breytingum á högum fólks og fyrirtækja víða um land. Á næstunni mun fara fram sérstök athugun á þessu máli í nánu samstarfi við aðila vinnumarkaðarins til að kanna betur en áður hefur verið gert efnahagsleg tengls iðnaðar, þjónustu og sjávarútvegs og meta rétt viðbrögð við þessum aðstæðum. Iðnaður og þjónusta sem tengjast sjávarútveginum taka auðvitað dýfur um leið og hann. Skipaiðnaðurinn er gott dæmi um þetta og eins og stendur býr hann við erfiðleika, ekki síst vegna þess að fjárfestingar útgerðarinnar hafa nú beinst að kvótakaupum fremur en meiri háttar endurbótum eða skipakaupum. Þessi mál hef ég rætt og kynnt mér með viðtölum við fjölmarga aðila sem í greininni starfa. Við munum snúast við þessum vanda. Ég nefni að á fjárlögum er nokkurt fé hjá iðnrn. til hagræðingar, könnunar og markaðsöflunar til þess að hjálpa skipaiðnaðinum í gegnum þann öldudal sem hann er nú í og búa hann betur undir sín framtíðarverkefni.
    Virðulegi forseti. Íslenska þjóðarbúið glímir nú við nokkurt andstreymi. En það er

einmitt við slíkar aðstæður sem þörf er fyrir nýjar lausnir og sannleikurinn er sá að sem betur fer hvetur viðnám erfiðleikanna menn oft til dáða. Eitt mikilvægasta atvinnuverkefni þings og stjórnar er nú að tryggja stöðu Íslands í alþjóðaviðskiptakerfinu til þess að við getum unnið okkur út úr vandanum. Þess vegna eru EES- og GATT-samningarnir mikilvægustu milliríkjasamningar Íslands á lýðveldistímanum. Við þurfum að róa á ný mið og til þess þurfum við að opna ný hlið út í heim í gegnum EES og GATT.