Viðbrögð ríkisstjórnarinnar við atvinnuleysi í landinu

83. fundur
Þriðjudaginn 18. febrúar 1992, kl. 18:13:00 (3576)

     Ólafur Þ. Þórðarson (um þingsköp) :
    Herra forseti. Ég vil enn einu sinni vekja athygli á því að sú umræða sem hér fer fram er ekki í samræmi við þingsköp. Það er nánast út í hött hjá hæstv. forseta að ætla

svo að vitna í þingsköp til að segja að hér sé ekki málfrelsi. Það er ekki rökfræðileg hugsun til í þessum útlistunum. Það getur náttúrlega enginn samið af þingmönnum þann rétt sem þeir hafa hér í þinginu samkvæmt þingsköpum. En ég vil minna hæstv. forseta á að senn kemur hæstv. forsrh. til landsins aftur ef guð lofar. Hér er umræðu um byggðamál, skýrslu Byggðastofnunar, ólokið. Hæstv. forsrh. hefur gefið út reglugerð um Byggðastofnun og það er eitt og annað órætt í því sambandi. Undir þeim dagskrárlið er hægt að tala um stefnu Sjálfstfl., stefnuna að fjöldaatvinnuleysi á Íslandi. Þar er hægt að tala um stefnu hæstv. iðnrh. sem virðist telja að vitlaust gengi krónunnar sé besta tryggingin til að koma íslenskum iðnaði á hausinn sem hann hefur unnið dyggilega að á sínu tímabili.
    Hæstv. forseti. Það þarf ekki að biðja um andsvar þegar sú umræða verður leyfð. Það þarf ekki að biðja um leyfi til andsvars. Þá verða eðlilegar umræður samkvæmt þingsköpum og forsetar verða að gera sér grein fyrir því að þá verður ekki liðinn sá leikaraskapur við stjórn þingsins eins og verið hefur. Annaðhvort gilda hér þingsköp eða það verður það magnaður ófriður að sumir mundu heldur kjósa að vera kyrrir í prestakalli austur á landi.