Viðbrögð ríkisstjórnarinnar við atvinnuleysi í landinu

83. fundur
Þriðjudaginn 18. febrúar 1992, kl. 18:23:00 (3580)

     Guðni Ágústsson (um þingsköp) :
    Hæstv. forseti. Það er að verða sorgarsaga á þessu þingi að forsetarnir fara því miður dálítið frjálslega með þingsköpin, búa til hinar og þessar reglur sem jafnvel henta ríkisstjórninni betur. Ég harma það að forseti sem stýrir hér fundi skuli leyfa sér að brjóta þau þingsköp sem svo skýrt eru skrifuð í bók sem liggur á forsetaborðinu. Ég hygg að það sé almenn skoðun þingmanna um styttri umræðu utan dagskrár, þar sem menn mega nánast ekki tala nema í tvær mínútur, að þá hlaupi menn ekki upp með andsvör í þeim tíma. En þegar um lengri umræður er að ræða --- sem verður að líta svo á að sé í þessu dæmi sem hér hefur verið í dag, þó að menn hafi samið um styttri tíma þá var hér almenn stjórnmálaumræða --- þá gilda þingsköpin að fullu. Um andsvörin segir ekkert annað en það sem stendur í 56. gr. Það er helgur réttur þingmannsins að fá að nota sér það að bera fram andsvar því að . . .  (Gripið fram í.) Það eru töluverð vandræði hér með tvo þingmenn á fremstu bekkjum, hv. formann þingflokks Alþfl., Össur Skarphéðinsson og hv. þm. Egil Jónsson, vegna sífelldra frammíkalla. En þetta er helgur réttur. Hér kemur hæstv. fjmrh. upp í lok tveggja tíma umræðu og ber sakir á þingmenn, telur þá hafa farið með rangt mál. En honum leyfist það hér að geta gengið út úr salnum og enginn kemur leiðréttingu við. Í lok ræðu sinnar fór hann með mjög rangt mál. Þess vegna harma ég það, hæstv. forseti, að það hefur hent forsetann í þetta sinn að brjóta þingsköpin því að hér var almenn umræða og það segir um andsvarið: ,,Forseti getur leyft þingmönnum að veita stutt andsvar við einstökum ræðum strax og þær hafa verið fluttar. Skal þá sá er vill svara bera fram ósk um það við forseta. Andsvari má einungis beina að máli ræðumanns en ekki öðru andsvari.``
    Síðan get ég haldið áfram lestrinum en ég sleppi því. Hefðum við komist í þann rétt, sem við áttum hér, að nota okkur andsvarið, gat það þó ekki staðið lengur en í 15 mínútur því að það segir líka í þessari grein. Þess vegna harma ég mistök forsetans en ég segi, eins og aðrir, að við fáum auðvitað næg tækifæri til þess að tala við ríkisstjórnina og ráðherrann og ég erfi það ekki við vin minn forsetann þótt þetta hafi hent hann í þetta sinn. En ég veit að það mun ekki henda hann í annað sinn héðan í frá.