Viðbrögð ríkisstjórnarinnar við atvinnuleysi í landinu

83. fundur
Þriðjudaginn 18. febrúar 1992, kl. 18:40:00 (3587)

     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (um þingsköp) :
    Herra forseti. Mig langar til þess að vekja athygli forseta á því að þingskapaumræða hefur staðið yfir í líklega 30--40 mínútur. Ef forseti hefði verið svolítið sveigjanlegur í sinni og brugðist við aðstæðum á þinginu væri umræðum lokið fyrir eins og 15 mínútum og þingmenn farnir heim vegna þess að í 56. gr. þingskapa segir að orðaskipti í andsvörum megi ekki standa lengur en í 15 mínútur í einu. Forseti hefði því ekki þurft að óttast að þessi fundur teygðist fram úr hófi og menn væru í andsvörum fram eftir kvöldi. Ég vil bara vekja athygli á þessu til að sýna fram á fáránleika þess að vera svo stirður við þá þingmenn sem óskuðu eftir að gefa andsvör við lokaræðu fjmrh. Það var ekki verið að fara fram á andsvör í miðri umræðu og þingmenn héldu sig mjög stíft við það samkomulag sem gert var. Einungis var farið fram á að bregðast við lokaræðu fjmrh. Eins og ég segi værum við öll komin heim núna ef rétt hefði verið við brugðist.