Þjóðarbókhlaða og endurbætur menningarbygginga

84. fundur
Miðvikudaginn 19. febrúar 1992, kl. 13:44:00 (3590)

     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
    Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 83/1989, um Þjóðarbókhlöðu og endurbætur menningarbygginga. Þetta er 230. mál þingsins á þskj. 392.
    Þessi breyting á lögunum er nauðsynleg vegna þess að í þeim er kveðið á um að skattskylt mark sérstaks eignarskatts skuli breytast samkvæmt skattvísitölu, sbr. 122. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum. Skattvísitalan er ákveðin í fjárlögum fyrir hvert ár en í fjárlögum fyrir árið 1992 var skattvísitalan ekki ákveðin og því hækkaði skattskylt mark til sérstaks eignarskatts ekki milli ára 1991 og 1992. Þetta hefði leitt af sér raunverulega skattahækkun. Til að koma í veg fyrir að greiðendur þessa sérstaka eignarskatts lendi í skattahækkun er frv. þetta flutt og umrætt mark hækkað um 6%.
    Ég legg til, herra forseti, að að lokinni þessari umræðu verði frv. vísað til hv. efh.- og viðskn.