Ummæli menntamálaráðherra í fjölmiðlum um störf kennara

84. fundur
Miðvikudaginn 19. febrúar 1992, kl. 15:39:00 (3600)

     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Hér fer fram einstæð umræða í sögu skólamála, menntamála á Íslandi, algjörlega einstæð umræða. Þannig er komið vinnubrögðum og samskiptum menntmrn. við kennarastéttina í landinu og skólana að ráðherrann ber fram í opinberu máli og ítrekar hér það sem ekki er hægt að kalla neinu öðru nafni en dylgjur í garð kennarastéttarinnar í heild og ræðst að henni með býsna athyglisverðum hætti, kennir kennarastéttinni um óánægjuna í þjóðfélaginu með ástandið í skólunum rétt eins og það séu ekki til t.d. foreldrar, rétt eins og það sé ekki þannig að í grunnskólunum séu 42 þús. börn og þau eigi foreldra. Auðvitað er það þannig að það er almenn óánægja í þjóðfélaginu með þær ráðstafanir sem ríkisstjórnin hefur gripið til í menntamálum. Og það er vesældarlegt að ætla sér að víkjast undan þeirri staðreynd með því að ófrægja kennarastéttina eins og hæstv. menntmrh. og aðstoðarmaður hans hafa gert ítrekað undanfarna daga.
    Hæstv. menntmrh. hefur lýst því yfir að hann ætli að breyta kennaramenntuninni með hliðsjón af þeim atburðum sem hafa átt sér stað að undanförnu. Hvernig? Hvaða aðferðir eru það sem á að taka upp í Kennaraháskóla Íslands til þess að koma í veg fyrir það að kennarar ófrægi menntamálaráðherrann í framtíðinni? Ætlar menntmrh. að taka í sínar hendur námsskrárgerð fyrir Kennaraháskóla Íslands? Hvað ætlar hann að gera? Ætlar menntmrh. að senda eftirlitsmenn inn í grunnskólana, tilsjónarmenn eins og það heitir í bandorminum? Og það er liður í þessari sömu stefnu þegar hæstv. menntmrh. lætur það koma fram að hann vilji endurskoða lög um fréttastofu Ríkisútvarpsins. Hún á ekki lengur að vera frjáls fréttastofa, fagleg og óháð, heldur á að setja um hana sérstakar lagaskorður. Ég sé þetta allt sem hluta af sömu stefnunni, ofstjórnar- og ritskoðunarstefnunni sem núv. ríkisstjórn fylgir og er auðvitað dapurlegast ef hún teygir anga sína inn í skólana.
    Ég skora á hæstv. menntmrh. að íhuga sitt mál vel og velta því fyrir sér hvort það geti ekki verið að honum og ríkisstjórninni hafi orðið einhvers staðar á í þessu efni, að velta því fyrir sér hvort hann þurfi ekki að líta í eigin rann og skoða málin aðeins betur. Ég skora á hann þó síðar verði að biðjast afsökunar á ummælum sínum í garð kennarastéttarinnar, í garð foreldra og í garð barna og sérstaklega finnst mér ástæða til að ítreka það því að ég tel að ummæli hans á útifundinum í garð barnanna um að þau hefðu ekkert vit á þessum málum ( Menntmrh.: Það sagði ég aldrei.) og ættu þess vegna ekki að vera að skipta sér af þeim, ( Menntmrh.: Þetta er rangt.) þau ummæli eru ósæmileg og ósanngjörn og ég skora á hæstv. menntmrh. að nota þennan ræðustól til að draga þau og fleiri ósæmileg ummæli sín til baka.