Ummæli menntamálaráðherra í fjölmiðlum um störf kennara

84. fundur
Miðvikudaginn 19. febrúar 1992, kl. 15:42:00 (3601)

     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
    Virðulegi forseti. Það er furðulegt að eins reyndur og gætinn stjórnmálamaður og ég hef álitið að hæstv. menntmrh. væri skuli fara eins að ráði sínu og hann hefur gert í því máli sem hér er til umfjöllunar. Og það eru í raun gjörsamlega óþolandi og ólíðandi vinnubrögð að frammi séu hafðar af hæstv. ráðherra dylgjur í garð sinna undirmanna á þann hátt sem hér hefur verið gert og segja svo á eftir eins og hæstv. ráðherra gerir að hann ætli ekki að fylgja málinu eftir, hann treysti sér ekki til að nefna nöfn þó hann geti gert það og þar með liggur öll stéttin undir þessum ásökunum þar til hæstv. menntmrh. hefur dregið þessi ummæli sín til baka og beðist á þeim afsökunar.
    Það væri kannski ekki gert eins mikið veður út af þessu ef þetta væri einsdæmi í framferði núv. hæstv. ríkisstjórnar en það er bara ekki. Það er með ólíkindum hvernig hæstv. ríkisstjórn kemur fram við sína starfsmenn, opinbera starfsmenn. Það er ráðskast með þá eins og tölur á blaði, fram og til baka, og ef þeir svo mikið sem dirfast að hreyfa andmælum, þá er þeim mætt á þann hátt sem hæstv. menntmrh. hefur gert í þessu máli.
    Ég vil því aftur ítreka það að meðan hæstv. ráðherra hefur ekki dregið ummæli sín til baka og beðist á þeim afsökunar eða gert grein fyrir þeim á annan hátt, þá liggur kennarastéttin í heild undir þessum áburði og það er mjög skiljanlegt að hún geti ekki á nokkurn hátt liðið það.