Ummæli menntamálaráðherra í fjölmiðlum um störf kennara

84. fundur
Miðvikudaginn 19. febrúar 1992, kl. 15:45:00 (3602)

     Guðrún J. Halldórsdóttir :
    Virðulegi forseti. Hér er til umræðu málefni þar sem mér finnst allmjög að þeirri stétt manna vegið sem ég tilheyri og hef tilheyrt um áratugi, þ.e. kennurum. Ég get fullvissað hæstv. menntmrh. um það að þá áratugi sem ég hef starfað sem kennari hef ég aldrei vitað til þess að kennarar notuðu kennsluaðstöðuna til þess að ófrægja stjórnvöld. Þeir hafa beinlínis álitið það skyldu sína að gera það ekki. Hlutleysi innan veggja kennslustofnunnar hefur verið okkur brýnt og við höfum staðið við það.
    Á hinn bóginn er það þannig að þegar nemandi í bekk í gagnfræðaskóla spyr einhverrar spurningar, þá skilur hann svarið sem hann fær á þann hátt sem honum hentar. Við verðum að gera okkur grein fyrir því. Og það getur vel verið að börn hafi komið heim á fleiri en eitt heimili, kannski mörg heimili hér á Reykjavíkursvæðinu og sagt: Kennarinn minn sagði þetta, kennarinn minn áleit þetta o.s.frv. en kennarinn hafi bara aldrei sagt það. Þetta er staðreynd. Ég hef svo oft orðið vör við það að bæði ungir og aldnir og náttúrlega ekki síst krakkar sem vilja gjarnan fá viss svör skilja svör manns allt öðruvísi en þau voru sögð. Ég er hrædd um að í þessu máli hafi komið eitthvað svona upp. Ég get ekki trúað því að félagar mínir í kennarastétt hafi fleiri en einn hvatt nemendur sína til þess að brjóta þær reglur sem þeir brutu. Og að þeir hafi ófrægt menntmrh. inni í kennslustofu, það held ég að komi varla til. En eins og ég sagði, þá er afskaplega auðvelt að leggja spurningu fyrir kennara og fá svar frá honum sem hann skilur á einn veg en nemandinn skilur á annan veg. Þetta þekkjum við kennarar afskaplega vel og ég harma það að þetta mál skuli hafa komið upp. Ég vildi óska þess að það hefði ekki gert það og ég vona að hæstv. menntmrh. beri gæfu til að greiða úr þessu máli svo öllum aðilum sé sæmandi.