Ummæli menntamálaráðherra í fjölmiðlum um störf kennara

84. fundur
Miðvikudaginn 19. febrúar 1992, kl. 15:54:00 (3605)

     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Ég vil segja það eitt um svör hæstv. ráðherra að ég harma þau. Ég harma þau viðbrögð hans að grípa til þessara ásakana þegar kennarar hafa mótmælt kröftuglega áformum ríkisstjórnarinnar og ég harma þau viðbrögð hans að neita að draga til baka þær ásakanir sem hann sjálfur hefur viðkennt að hann geti ekki sannað.
    Ég vil leyfa mér, virðulegi forseti, að vitna hér í kvöldfréttir Sjónvarpsins, sem hv. stjórnarþingmenn sumir eru ákaflega ánægðir með --- eins og t.d. hv. 3. þm. Suðurl., sem hér sést í salnum óvænt --- 17. febr. sl. Þar segir hæstv. ráðherra:
    ,,Ég tek að sjálfsögðu mark á formanni Kennarasambands Íslands og viðurkenni að hún er í nánara sambandi við kennara heldur en ég og ef það er svo, eins og hún segir, að kennarar hafi þarna hvergi nærri komið þá verð ég sjálfsagt bara að láta í minni pokann vegna þess að ég get ekki sannað mál mitt.``
    Þetta er niðurstaðan úr fullyrðingum hæstv. menntmrh. sem í raun og veru komu fram í svari hans hér áðan. Hann hefur sagt meira en hann getur staðið við.
    Það vekur mér dálítinn ugg hversu hörð viðbrögð ýmissa ráðherra eru við hópa í þjóðfélaginu sem ekki eru sammála hæstv. ríkisstjórn og hversu hörð viðbrögð ráðherra eru gagnvart þeim sem eiga að flytja fréttir af aðgerðum þings og ríkisstjórnar til þjóðarinnar. Þar nægir að minna á hæstv. menntmrh. sem hefur lýst því yfir að fréttastofa Ríkisútvarpsins sé of oft hlutdræg --- of oft hlutdræg --- og boðar endurskoðun á starfsemi fréttastofu útvarpsins við endurskoðun útvarpslaga.
    Sá hópur í þjóðfélaginu sem hvað mest hefur mótmælt áformum ríkisstjórnarinnar eru kennarar. Öllum eru kunnugar þær ásakanir sem hæstv. menntmrh. ber á kennara. Mönnum eru kunnug ummæli hæstv. samgrh., að ef menn sýni einhvern mótþróa þá verði bara að keyra yfir þá. Mönnum er kunnugt um árásir hæstv. heilbrrh. á fjölmiðla. Sú spurning hlýtur að vakna hvort það sé meðvituð stefna ríkisstjórnarinnar að berja niður með valdi þá sem mótmæla hennar stefnu og berja niður með valdi þá sem eiga að flytja fréttir af gjörðum þings og ríkisstjórnar.
    Ég vil því segja, virðulegur forseti, að mér finnst að þessi uppákoma hafi verið ákaflega dapurleg og ég vil skora á hæstv. menntmrh. að taka upp viðræður við samtök kennara og foreldra til að ræða þessi mál út.