Lánasjóður íslenskra námsmanna

84. fundur
Miðvikudaginn 19. febrúar 1992, kl. 18:10:00 (3608)

     Guðrún Helgadóttir :
    Virðulegi forseti. Svo oft hef ég rætt þetta mál á þessu þingi að ég skal ekki taka mikinn tíma nú, enda mun hv. 9. þm. Reykv. taka hér til máls á eftir og ræða þetta mál ítarlegar. En það eru nokkur atriði sem ég hlýt þó enn að benda á og mun ekki tala um málið í heild. Hér eru allar umræður slitnar í sundur þannig að ég man ekki einu sinni hvenær ég bað um orðið en ég vil þó nýta þennan tíma minn til þess að ræða við hæstv. menntmrh. um þann reginmisskilning sem er vaxtagreiðslur af námslánum. Gerir hæstv. ráðherra sér grein fyrir að hann ætlar að láta menn borga vexti af framfærslulánum? Þetta er eins og kostnaður við greiðslukort sem menn nota til þess að kaupa í matinn, því miður. Menn eru ekki að fjárfesta í eigin eign þegar þeir taka námslán. Þeir eru að fjárfesta í menntuninni í landinu og það er með öllu fráleitt að krefjast lántökugjalds og vaxta af slíkum lánum. Það væri svona ámóta og félagsmálastofnanir í landinu tækju vexti af framfærslulánum. Þetta gengur auðvitað ekki. Þetta hlýtur hver einasti heilvita maður að sjá. Menn eru ekki að taka húsnæðislán eða lán til fjárfestingar. Þeir eru að taka lán til að hafa eitthvað að borða af því að þeir geta ekki unnið á meðan þeir eru að læra. Ég bið hæstv. ráðherra að íhuga þetta aðeins.
    Það er auðvitað ekki námsmönnum að kenna hvernig komið er fyrir sjóðnum sem ég held raunar að sé mjög vel leysanlegt mál. Hvort tveggja var að fleiri námsmenn komu til sem þurftu á lánum að halda en fyrst og fremst það að ríkisstjórnir stóðu ekki við það að veita í sjóðinn það sem hann þurfti þangað til hann gerðist sjálfbjarga. Hefði það fengið að gerast værum við með fínasta námslánakerfi í veröldinni, ég leyfi mér að segja það. Það eru ekki nema örfá ár sem þarf til með skynsamlegum aðgerðum að gera sjóðinn sjálfbjarga og þá verður hann ekkert vandamál. Ég held því að sanngjarn maður eins og hæstv. menntmrh. hljóti að sjá þetta. Menn hafa talað hér um og lesið töflur um hvernig menn komist hjá að greiða af þessu, og ég hef séð þessar töflur og er með þær. Þar er talað um námsmann sem tekið hefur 1 millj. að láni, verið þrjú ár í námi, fjögur ár í námi, fimm ár í námi, einstakling með 2 millj. Þetta eru algjörlega óraunhæfar tölur. Það sem ég held að verði algengast eru hjón með tvisvar sinnum 3 millj.
    Það vill nú svo til sem hið háa Alþingi virðist gleyma að gamli lánasjóðurinn, þ.e. eiginkonur landsins, eiginkonur námsmanna sem voru lánasjóður íslenskra námsmanna hér í eina tíð, eru farnar að læra líka vegna þess að nú eigum við Lánasjóð ísl. námsmanna og þar með er yfirleitt námsskuldin tvöföld því oft er það svo að fólk kynnist þar sem það vinnur og algengt er því að námsmenn giftist og kvænist hver öðrum og þar með eru þetta miklu hærri skuldir en hér er verið að tala um en ég býst við að hv. 9. þm. Reykv. hafi aflað sér nýrra talna um þetta í dag. Síðan hef ég bent á að með þessari greiðslubyrði eru slík hjón útilokuð frá húsnæðislánakerfinu. Og ég spyr: Hvað hefur fólk gert af sér að hafa lagt í það að stunda nám? Síðan er talað digurbarkalega um að nú skuli menn bara reyna að vinna svolítið með námi sem gerist æ örðugra. Það er kannski dálítið grátbroslegt að þess vegna stend ég hér núna að ræða mín komst ekki að í gær vegna þess að hv. þm. Stefán Guðmundsson óskaði eftir tveggja tíma umræðu um atvinnuleysi. Ég hygg að það geti orðið svo á komandi sumri að það verði ekkert auðhlaupið í vinnu þegar námsmenn koma út úr Háskólanum auk þess sem fleiri og fleiri deildir krefjast þess einfaldlega að menn séu við sitt nám og maður getur leitt hugann að þeim sem stunda nám erlendis að þeir eiga nú ekki auðvelt með að hlaupa til vinnu.
    Ég ætla ekki að fara í fleiri atriði. Það er greinilegt að fleiri hafa tekið eftir því sem ég minntist á í upphafi umræðu um þetta mál sem var 20 ára aldurstakmarkið sem auðvitað verður að breyta, það er óhjákvæmilegt. Ég held að hæstv. ráðherra hafi tekið undir það í sinni ræðu og ýmis önnur atriði ræðu minnar og ég er ekkert að leggja það á ritara þingtíðinda að halda hér sömu ræðuna aftur og aftur. Ég hóf umræðu um þetta í utandagskrárumræðu 5. nóv. í vetur og talaði þá allítarlega fyrir þessu máli og hef ekki skipt um skoðun á því. Ég vona að hæstv. menntmrh. beri það traust, sem ég held að við séum öll tilbúin til að sýna honum, að málið fái að fara til nefndar. Ég treysti því að hæstv. ráðherra sé ekki að plata okkur því að við viljum auðvitað ekki greiða fyrir því að þetta mál gangi óbreytt til afgreiðslu. En í trausti þess að ráðherra hafi meint það og talað af heilum hug þegar hann sagði hér í einhverri ræðu sinni að hann væri tilbúinn til að skoða ýmis atriði málsins, þá skal ég ekki tefja hér tímann þó ég gæti haft margt að segja og skal ljúka nú máli mínu. En ég endurtek, í trausti þess að hæstv. ráðherra sé nú tilbúinn til þess að setjast niður með námsmönnum, fulltrúum þeirra hvar í flokki sem þeir standa, og lagfæra frv. því að mér er fullkunnugt um að allir námsmenn við Háskóla Íslands eru tilbúnir til að setjast niður og reyna að leysa vanda sjóðsins í góðu samráði við hæstv. ráðherra ef þeim verður sýnt það traust.