Lánasjóður íslenskra námsmanna

84. fundur
Miðvikudaginn 19. febrúar 1992, kl. 19:03:00 (3613)

     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég gat ekki betur heyrt í ræðu hv. þm. sem hér talaði áðan en að ég ætti þar a.m.k. eina ef ekki tvær sneiðar. Þingmaðurinn hafði hátt um það að aldrei hefði verið gefið neitt loforð um að Lánasjóður ísl. námsmanna ætti aldrei að taka lán. Námsmönnum á þessum árum frá 1974--1976 hefði aldrei verið gefið neitt loforð um það og hann hefði ekki trú á því. Það hefði ekki verið gert á þingi, hafi það verið gert út í bæ þá hafi einhverjir verið að semja um þau mál sem ekki hefðu verið þess umkomnir. Nú vil ég benda hv. þm. á það að ég talaði aldrei um að slíkt loforð hefði verið gefið. Ég sagði: Okkur sem þá vorum að meðhöndla þessi mál frá námsmanna hálfu óraði ekki fyrir að lánasjóðurinn yrði fjármagnaður með þessum hætti, með eins miklum lántökum og raun bar vitni. Auðvitað mátti reikna með að það yrðu einhverjar lántökur hjá sjóðnum, en að þær yrðu eins miklar og raun bar vitni því óraði okkur ekki fyrir og það var hreinlega ekki í umræðunni á þessum árum og við það stend ég.
    Annað sem þingmaðurinn kom hér inn á og ég held að hafi að hluta til verið beint til mín varðaði eiginkonurnar sem hafi verið lánasjóður íslenskra námsmanna á árum áður. Ég gerði það í sjálfu sér ekki að umtalsefni hér í ræðustól en ég hef gert það annars staðar og ég held að þingmaðurinn hafi kannski verið að eiga við mig orðaskipti á öðrum fundi. Ég held að það blandist engum hugur um að þannig var það. Ég var auðvitað að tala um fortíðina, hv. þm. Þannig var það að eiginkonur unnu og lögðu á sig talsverða vinnu til þess að eiginmenn þeirra gætu stundað nám. Þetta vitum við vel og við skulum athuga það að allt kerfið í kringum þetta var þannig. Við getum tekið dæmi um dagvistun. Ef karlmaður var í námi þá gátu hjón fengið pláss á dagvistarheimili fyrir barn sitt, ef kona var í námi þá var það ekki hægt. Með öðrum orðum, það var litið þannig á að væri námsmaður karlmaður í námi væri konan á vinnumarkaði og þyrfti á dagvistun að halda, en ef hún var í námi þá þótti sjálfsagt að hún sinnti barnauppeldinu jafnhliða. Þannig var þetta. Ég er að tala um fortíðina og þetta kemur auðvitað aldrei aftur vegna þess að aðstæður eru allt aðrar. Hugmyndir fólks um hlutina eru allt aðrar þannig að þetta kemur ekki aftur og þetta á ekki við nútíðina.