Lánasjóður íslenskra námsmanna

84. fundur
Miðvikudaginn 19. febrúar 1992, kl. 19:08:00 (3615)

     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
    Herra forseti. Það eru býsna mörg atriði sem komið hafa hér fram í ræðum manna sem ástæða væri til að gera að umtalsefni og svara. Ég hef það á tilfinningunni að menn vilji heldur reyna að stytta umræðuna og ég skal reyna eftir bestu getu að stytta mál mitt. Ég vona að það verði ekki tekið þannig að ég sé að reyna að víkja mér undan að svara áleitnum spurningum sem hafa komið fram í máli hv. ræðumanna.
    Frá því ég talaði hér síðast hafa allmargir þingmenn talað og beint til mín spurningum. Hv. þm. Svavar Gestsson beindi raunar til mín fjölmörgum spurningum og sagði ýmislegt sem gefur tilefni til bollalegginga skulum við segja, en ég reyni að stytta mál mitt.
    Hann nefndi fyrst í sinni ræðu að menn mundu ekki geta greitt afborganir af lánunum og kerfið væri óbrúklegt og við tækjum eingöngu mið af fjárhagslegum hagsmunum sjóðsins og hann gagnrýndi hvað eftir stæði þegar menn hefðu náð 67 ára aldri eins og sést í sumum töflunum. Af sjálfu leiðir auðvitað að þegar endurgreiðslur hækka úr 3,75% í allt að 8% af tekjum, þá er verið að rúmlega tvöfalda greiðslubyrðina. LÍN verður ekki bjargað án þess að endurgreiðslur þeirra sem taka lán verði hertar, því höfum við haldið fram. Þetta gefur tilefni til þess að spyrja hvar mörkin liggja. Í dag er þetta 3,75%. Hérna er lagt til að það verði 4--8% og spurningin er hvar við eigum að draga mörkin. Við höfum dregið þau þarna um leið og við gerum ýmsar aðrar breytingar á lögunum með þessu frv.
    Varðandi það hvað ógreitt er hjá vissum hópum við 67 ára aldur, þá hef ég svarað því áður að stjórn lánasjóðsins hefur heimild til þess að gefa eftir það sem eftir stendur, m.a. þá með tilliti til eignarstöðu og fleira þannig að það er ekkert sem segir að þessar greiðslur sem eftir standa við 67 ára aldurinn eins og sýnt er í töflunum verði innheimtar. Það er mat stjórnarinnar.
    Þingmaðurinn spurði hvers vegna mætti ekki strika út skuldir LÍN og nefndi hliðstæð dæmi sem fyrrv. ríkisstjórn hefði staðið frammi fyrir og afgreitt. Ég veit ekki hvort ég má taka mér lengur í munn orðið fortíðarvandi, það telst víst ekki íslenska þannig að ég ætla að tala þá bara um vanda sem á rætur sínar í fortíðinni. Ég vona að það sé íslenska. Hluti vandans á sér vissulega rætur í fortíðinni og ekki síst frá allra síðustu árum. Það er alveg ljóst. En ég held að það megi samt segja að þótt við strikuðum út skuldbindingar sjóðsins, þá duga ríkisframlög og endurgreiðslur lána ekki fyrir útlánum. Það er þess vegna ekki alveg rétt að kalla þetta vanda frá fortíðinni og ætla sér að bjarga lánasjóðnum með einhverjum pennastrikum. Það held ég einfaldlega að gangi ekki upp.
    Þingmaðurinn sagði að menntmrh. gerði sér ekki grein fyrir því að LÍN hafi tvenns konar gildi. Annars vegar væri þetta félagslegur jöfnunarsjóður og hins vegar hefði hann fjárhagslegt gildi og ráðherrann vildi sem sagt ekki hugsa um félagslegt jöfnunarhlutverk sjóðsins. Ég mótmæli þessu en tel hins vegar að hv. þm., sem þá var menntmrh., hafi ekki hugsað nægilega um fjárhagslega þáttinn en svo sem ágæta vel um hinn félagslega. Þarna verður hins vegar að vera jafnvægi á en það var það ekki og þess vegna er það sem við stöndum frammi fyrir þessum vanda.
    Þingmaðurinn sagði líka að menntun væri mikilvægari en einhver atvinnufyrirtæki. Ég held að ég sé ekkert að snúa út úr orðum hans, ég held að ég hafi tekið rétt eftir. Ég vil halda því fram í þessu samhengi að við séum einmitt með aðgerðum ríkisstjórnarinnar yfirleitt að renna stoðum undir íslenskt atvinnulíf til þess að það geti í framtíðinni staðið undir góðu og batnandi menntakerfi. Öflugt og traust atvinnulíf er einmitt forsenda þess að við getum haldið hér uppi öflugu skólakerfi.
    Hv. þm. nefndi hina nýju borgaralegu stjórn í Svíþjóð og hefur við önnur tækifæri hrósað Carl Bildt forsætisráðherra. Ég veit ekki hvort hv. þm. hefur kynnt sér þær breytingar sem verið er að gera á sænsku skólakerfi. Þær eru margar mjög athyglisverðar en ég hefði nú haldið svona að óreyndu að þær væru ekki allar að skapi hv. þm., en vel má svo vera. Ég hef kynnt mér þetta lítillega og það er vissulega ástæða til að fagna því að Svíar, sem eru í miklum landa með sín ríkisfjármál, skuli hækka ríkisframlög til skólanna. Ég hef grun um að þeir hafi talið það algjöra nauðsyn vegna þess að skólakerfi þar var einfaldlega ekki nógu gott og þeir eru að breyta því. Ég tel satt að segja að skólakerfið hér á Íslandi hafi ekki verið svo vont þegar núv. stjórn tók við að það út af fyrir sig krefðist stóraukinna fjárframlaga. Ég held að það sé ekki hægt að halda því fram með neinum rétti þó að það væri kannski hægt að slá því fram eftir að hafa heyrt yfirlýsingar eins og hér hafa margoft komið fram.
    Hv. þm. rifjaði upp lækkunina sem gerð var á sl. sumri, um 16,7%. Ég hef rakið það hvers vegna þörf var á þeirri aðgerð. Við drógum úr umframfjárþörf sjóðsins um 300 millj. með þeirri aðgerð en urðum samt að bæta 700 millj. við lánasjóðinn frá því sem ákveðið hafði verið í fjárlögum fyrir árið 1991.

    Ég vísa á bug þeirri gagnrýni sem sett er fram á hækkun stuðla til þeirra sem búa í heimahúsum og lækkun tekjutillits við úthlutun lána. Það þarf að minna á hvernig stór hópur viðskiptavina LÍN varð sér úti um fullt lán með því að skrá sig annars staðar þótt þeir byggju í foreldrahúsum. Þetta eru staðreyndir og þessari aðgerð mótmæltu námsmenn ekki.
    Mér finnst það líka ógeðfellt að ganga út frá því sem allir námsmenn sem búa í foreldrahúsum, flestir komnir yfir tvítugt, geri sér það að kostnaðarlausu. Við vitum vel að víða tíðkast það að fólk leggur með sér til heimilisins þegar það er komið á þennan aldur. Það hefur síðan aldrei verið neitt leyndarmál að við teljum að rétt sé að hvetja námsmenn til að afla tekna þannig að þeir þurfi ekki að taka meiri námslán en nauðsynlegt er.
    Hv. þm. spurði hvaða sérnám sem ekki er á háskólastigi verði fellt út, nefndi Fósturskólann, bændaskólana o.fl. og talaði í þessu samhengi um 20 ára regluna. Í sjálfu sér verður ekkert sérnám fellt út heldur aðeins sett sú almenna regla að jafnræði skuli gilda með námsmönnum í mismunandi námi. Þetta er jafnréttisregla sem hér er lögð til, að mönnum verði ekki mismunað eftir því hvaða nám þeir velja sér í fjölbrautaskóla. Ég hef hins vegar lýst því yfir hér fyrr í umræðunni að ég telji rétt að menntmn. athugi þetta atriði alveg sérstaklega. Ég hef líka lýst því yfir að ég muni beygja mig ef menn vilja fara þessa leið, að stjórnvöld stýri vali fólks á námsgreinum með því að mismuna því. Ég hef líka sagt að ég haldi að dæmin sýni okkur að slík miðstýring hafi ekki gefist vel. En þetta er alveg sjónarmið út af fyrir sig.
    Ég hefur áður rætt nokkur atriði sem hv. þm. kom inn á, niðurfellingu lífeyrissjóðsgreiðslnanna og þarf ekki í sjálfu sér að endurtaka rökstuðninginn fyrir því. Lántökugjöldin hef ég einnig rætt. Um Vísindasjóðinn, þar sem hv. þm. setti fram ákveðna kröfu um að fá tillögur um hvernig Vísindasjóður ætti að taka við þessu hlutverki sem talað er um að hann taki, þ.e. við styrkjunum. Ég hef lýst því að við meðferð frv. hafi þetta komið til tals að taka jafnframt upp styrkjakerfi sem lánasjóðurinn sinnti, en þetta hafi orðið niðurstaðan, að fela fremur Vísindasjóði að taka að sér þetta hlutverk. Ég hef sagt og þarf ekkert að lýsa því að það liggja ekki fyrir neinar tillögur enn þá um með hvaða hætti Vísindasjóður verði efldur til þess að hann taki að sér þetta hlutverk, en það liggur í hlutarins eðli að það verður að efla hann til þess að hann taki við þessu hlutverki. Tillögur um það liggja ekki enn þá fyrir.
    Það hefur töluvert verið rætt hér um ábyrgðarmennina og í því samhengi benti hv. þm. á og fleiri hafa gert að áður hafi ábyrgðarmenn verið á mörgum bréfum og gátu verið mismunandi ábyrgðarmenn á mismunandi bréfum, en nú eigi tveir menn að ábyrgjast allt lánið. Ég vísa aftur til þess að hér er um lán að ræða og þess vegna hljótum við að gera kröfur um ábyrgðarmenn jafnframt því sem við gerum ákveðnar kröfur til lántakenda sjálfra. Það er mikilvægt að lánasjóðurinn hafi tryggingar fyrir þeim lánum sem hann veitir.
    Það var nefnt að það hafi örugglega verið vísvitandi sem því kerfi var komið á 1982 að hafa skuldabréfin mörg og leyfa mismunandi ábyrgðarmenn. Ég ætla ekki að dæma um það. Mér finnst vel koma til greina að gera kröfur um fleiri ábyrgðarmenn en gert er ráð fyrir í frv. til að leitast við að ábyrgð hvers og eins sé minni. Það er hins vegar afar mikið óhagræði af því fyrir sjóðinn og kostnaðarauki að þurfa að innheimta mörg skuldabréf þar sem í raun er um eina skuld að ræða.
    Þá nefndi þingmaðurinn það ákvæði að námsaðstoð verði aldrei greidd út fyrr en sýnt hafi verið fram á námsárangur og þetta jafngilti því að allir séu alltaf á fyrsta ári og þetta þýði að menn borgi 10% námslána sinna til bankanna, sem sagt flöt 10% skerðing eins og hv. þm. nefndi. Ég minni enn á það að við erum að tala hérna um lánasjóð sem lánar fólki svo að það megi stunda sitt nám. Það er því eðlilegt að gera þá kröfu að til þess að fá lán fyrir tiltekið tímabil skuli námsmaður sýna fram á að hann hafi staðist þær námskröfur sem gerðar eru til hans. Þetta þýðir einfaldlega það að ekki verði lánað úr LÍN nema um raunveruleg námslán sé að ræða. Ég bendi á að gert er ráð fyrir að námsmenn muni hafa aukið svigrúm til að afla sér eigin tekna í nýju kerfi. Auk þess hafa bankarnir verið að gera hosur sínar grænar fyrir námsmönnum varðandi skammtímalán þar til lánasjóðurinn greiðir út námslán. Ég bendi líka á í þessu samhengi að skólaárið 1990--1991 fengu 502 námsmenn slík ofreiknuð lán. Ofreiknuð lán, segi ég venga þess að þeir höfðu ekki skilað námsárangri og gerðu það ekki. Það voru 502 námsmenn. Og vegna þessa er lánasjóðurinn að glíma við innheimtu á 55 millj. kr. Þetta er það sem við gerum að girða fyrir. Það eru dæmi um að námsmaður hafi fengið allt upp í 700 þús. kr. með svona ofteknu láni eins og ég vil kalla það vegna þess að ekki var gerð krafa um að sýna námsárangur. Þetta eru blákaldar staðreyndir.
    Hv. þm. ræddi um 3. gr., um að þetta félagslega tillit væri tekið út. Þetta er ekki rétt túlkun. Stjórn sjóðsins hefur með þessari grein eins og hún stendur núna í frv. heimild til að taka tillit til félagslegra þátta við úthlutun námsláns. Það má líta svo á að það sé rýmri heimild fyrir stjórnina að taka tillit til félagslegra þátta en er í núgildandi lögum. En ég skil vel hvað hér er verið að tala um þegar þetta er gagnrýnt. Það er ósk ýmissa sem hér hafa talað að þetta verði bundið í lögum. Mér þykir það einfaldlega ekki skynsamleg leið. Mér finnst rétt að þetta sé í höndum sjóðstjórnarinnar.
    Ég hef áður rætt um 6. gr. sem hv. þm. gerði hér líka að umtalsefni og tel einfaldlega vera um valddreifingu að ræða.
    Við erum búin að ræða oft um vextina. Hv. þm. talaði að vísu um að hér væri talað um að sjóðurinn skyldi bera 3% ársvexti af höfuðstól skuldarinnar, sem er alveg rétt, nefndi það hvort ætti að túlka þetta þannig að vextir féllu á lánið þegar við námslok. Það er ekki svo. Þegar sagt er að vextir reiknist frá

námslokum, þá þýðir það ekki að það sé farið að greiða þá strax eða áður en til reglulegrar afborgunar kemur. Vextir eru greiddir ásamt afborgunum á gjalddögum. Þessa áréttingu í frv. um að vextir reiknist frá námslokum ber frekar að líta á sem áréttingu þess að námslán eru vaxtalaus á námstíma.
    Varðandi það hvort ætti að setja inn ákvæði um að vextir skyldu ekki vera hærri en tiltekin prósenta, það er sjónarmið út af fyrir sig. Hérna er miðað við vexti sem eru hóflegir, hvernig sem litið er á. Það má vel vera að það komi til greina að miða vextina við t.d. einhvern tiltekinn hluta vaxta sem greiðast af ríkisskuldabréfum, það er hugsanlegt. Hálfir vextir ríkisskuldabréfa, þriðjungur eða eitthvað slíkt. Mér finnst alveg koma til greina að hv. menntmn. athugi slíkt.
    Hv. þm. nefndi að í 8. mgr. 8. gr. kynni að vera um villu að ræða. Mér sýnist við athugun að svo geti vel verið og óska eftir að menntmn. athugi það sérstaklega.
    Varðandi það hvort námsmenn ættu að eiga aðild að nefnd sem setur reglur um útreikning endurgreiðslustofns ef breyting verður á því sem nú er skilgreint sem útsvarsstofn, þá er þessi grein nú nánast samhljóða þeirri sem kveður á um þetta í núgildandi lögum og spurning þá hvort nokkur þörf er á breytingu.
    18. gr. gerði hv. þm. að umtalsefni. Ég hef þegar lýst vilja mínum að hv. menntmn. líti sérstaklega á þá grein og veit að það verður gert.
    Hv. þm. gerði nokkurt mál úr því að slegið hafi verið á útrétta sáttarhönd námsmanna. Ég hef áður vikið að þessu. Námsmenn lögðu fram sínar tillögur eftir að hafa haft tillögur upphaflegu nefndarinnar til athugunar í nokkrar vikur. Þeir lögðu síðan fram sitt eigið frv. Við létum útreikninga fylgja frv., útreikninga sem gerðir voru samkvæmt frv. námsmannanna. Þar kemur glöggt fram að þeirra tillögur nægja ekki til þess að ná þeim markmiðum sem nauðsynlegt er að ná. Ég vil hins vegar taka skýrt fram að það var tekið tillit til ákveðinna hugmynda og athugasemda námsmanna við gerð þessa frv. Tekjutengdar endurgreiðslur voru upphaflega ekki með í tillögum nefndarinnar. En það var fyrir tilstuðlan námsmannanna sem tekjutengingin er í þessu frv. Við höfum hins vegar ekki tekið til greina að hvika með vextina þrátt fyrir verulegan þrýsting frá námsmönnum og fleirum vegna þess að án þeirra sjáum við ekki leið til þess að bjarga lánasjóðnum. Og ég hef ekki orðið var við tillögur hér í þessari umræðu sem leiða okkur að þessum markmiðum sem við höfum sett ef fallið verður frá vöxtum.
    Það hefur verið talað um, ég held að hv. þm. Svavar Gestsson hafi nefnt það líka, að afmörkuð lengd námstíma og tekjutengt þak fari illa saman. Þetta er ein athugasemd sem við höfum líka fengið frá námsmönnum. Þeir hafa bent á þetta atriði, að afmörkuð lengd lánstíma geti aðeins orðið til þess að lengja lánin og minnka greiðslubyrði þeirra sem hafa tiltölulega háar tekjur. Ég hef óskað eftir því sérstaklega að hv. menntmn. athugi þetta. En tilgangurinn með því að hafa þetta svona var sá að hafa hvata inni í kerfinu til námsmanna til að taka ekki hærri lán en þeir þurfa á að halda. (Gripið fram í.) Þetta er ekki prinsippatriði í mínum huga eins og ég hef sagt og ég get vel fallist á að athuga að allir greiði ávallt tiltekinn hundraðshluta tekna sinna í afborganir.
    Hv. þm. spurði í hvað það þýddi fyrir útgjöld LÍN ef lánað verður fyrir skólagjöldum í Háskóla Íslands. Það er áætlað að skólagjöldin skili Háskóla Íslands nú þegar þau verða lögð á á haustmissiri 75 millj. kr. Það taka ekki allir háskólastúdentar námslán en við skulum gefa okkur að þetta auki útlán sjóðsins um einhverja tugi milljóna. Þetta verða hins vegar lán sem verða greidd til baka eins og námslánin.
    Síðan var spurt hvort LÍN ætlaði að innheimta afborganir af gömlum lánum hjá þeim sem eru í framhaldsnámi erlendis og þiggja styrki eða laun fyrir nám sitt sem eru hærri en reiknuð framfærsla LÍN. Þetta hef ég líka sagt áður að þurfi að athuga sérstaklega, hvort heimilt er að veita undanþágu frá afborgunum undir þessum kringumstæðum. Stjórn LÍN hefur heimild til að veita slíkar undanþágur þegar sérstaklega stendur á og ég legg áherslu á það enn og aftur að þetta verði sérstaklega athugað.
    Hv. þm. Guðrún J. Halldórsdóttir spurði hvað yrði ef stúdentsaldurinn lækkaði niður í 18 ár. Ég get ekkert svarað því öðruvísi en þannig að ef svo fer, þá hlýtur auðvitað að verða að breyta frá 20 ára reglunni sem hér er sett, ef hún verður samþykkt. Það kallar vitanlega á breytingu en við getum ekki sagt um það í dag hvort slík breyting verður á lögum um grunnskóla og framhaldsskóla.
    Hv. þm. Anna Ólafsdóttir Björnsson lýsti eftir menntastefnu. Ég hef að undanförnu greint frá ýmsum þeim spurningum sem mér finnst þörf á að svara varðandi bæði grunnskólann og framhaldsskólann. Ég er þessa dagana að ganga frá skipan í nefnd sem á að fjalla um þau mál. Ég er einnig að ganga frá skipan sérstakrar þróunarnefndar fyrir Háskóla Íslands, það er gert í samvinnu við stjórnendur Háskólans. Ég sé ekki ástæðu til að fara út í einstök atriði í þessari umræðu sem er um Lánasjóð ísl. námsmanna en vænti þess að við fáum tækifæri til að ræða stefnu í skóla- og menntamálum á þessum vettvangi síðar.
    Hv. þm. Anna Ólafsdóttir Björnsson kom einnig inn á þessa 20 ára reglu sem ég er margbúinn að svara.
    Hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson talaði fyrst um íslenskukunnáttuna, ég er búinn að ræða orðið fortíðarvanda og skal þegar ég ræði við hann um þau atriði tala bara um vanda sem á upptök sín í fortíðinni. Við erum væntanlega sammála um hvað það þýðir.
    Þingmaðurinn gerði töluvert úr því að ég horfði bara á hagsmuni LÍN en gerði ekki grein fyrir menntastefnunni. Ég hef áður vikið að þeim þáttum og vísa til þess. Við erum hér að ræða um LÍN sem við segjum að sé í kreppu. Við höfum tekið að okkur að leiða LÍN út úr þessari kreppu. Það er hluti af

menntastefnu ríkisstjórnarinnar að hér verði starfræktur öflugur lánasjóður námsmanna sem hafi burði til að tryggja námsmönnum jafnrétti til náms. Það er annars athyglisvert, finnst mér, í þessari umræðu að ýmsir sem hér hafa talað, og það hefur líka heyrst frá námsmönnum, virðast ganga út frá því sem gefnu að þeir sem njóta námsaðstoðar hjá LÍN verði allir opinberir starfsmenn. Ég lít ekki á það sem lögmál og raunar er það dapurleg tilhugsun ef lánasjóðurinn aðstoðar fólk til þess eins að undirbúa sig undir störf hjá hinu opinbera. Við hljótum að ætla okkur að mennta einnig fólk fyrir hinn almenna vinnumarkað til að starfa hjá fyrirtækjum, einkafyrirtækjum og til sjálfstæðs atvinnurekstrar.
    Þingmaðurinn spurði hvort skilyrðislaust ætti að vera um eitt skuldabréf að ræða. Ég hef líka talað um það áður. Við höfum álit þeirra sem staðið hafa í að innheimta vanskilaskuldir fyrir LÍN að það sé til mikils hagræðis að hver námsmaður hafi aðeins eitt skuldabréf. Að öðru leyti vísa ég til þess sem ég hef áður sagt.
    Hv. þm., eins og margir fleiri, talaði um vextina og sagði raunar það vera alveg út í hött að setja á vexti og þetta væri tímasprengja í launakerfi opinberra starfsmanna. Ávinningurinn af því að setja vexti á námslán er sá að með því móti getur sjóðurinn staðið við skuldbindingar sínar. Hann þarf nefnilega að fjármagna hluta af útlánum sínum með lántökum, taka lán sem bera vexti. Ef ekki verða teknir upp hóflegir vextir þá veldur það þroti LÍN. Þetta eru blákaldar staðreyndir. Ég segi enn og aftur að það er margreynt að fjárveitingavaldið er ekki reiðubúið til þess að leggja fram það fjármagn sem þarf til þess að komast undan því að taka vexti af námslánum. Þetta eru blákaldar staðreyndir.
    Hv. þm. kom líka inn á 20 ára regluna og ég er ekki að endurtaka það sem ég hef áður sagt þar. Þingmaðurinn taldi óheppilegt að standa þannig að málum að það sé verið að gjörbylta lánakerfinu, ef ég hef skilið hann rétt, öðru hverju. Ég er honum alveg sammála um það, en ég vil biðja aðeins um að það verði skoðað hvers vegna við erum að þessu. Orsökin liggur í þessu sem ég hef rakið, að fjárveitingavaldið hefur ekki verið reiðubúið til þess að láta sjóðnum í té það fjármagn sem hefur þurft til þess að hann gæti staðið við sínar skuldbindingar samkvæmt þeim úthlutunarreglum sem í gildi hafa verið. Því miður er þetta svo.
    Þingmaðurinn nefndi líka tilraunir sjálfstæðismanna áður til þess að breyta þessum sjóði. Það er alveg rétt að tilraunir hafa verið gerðar áður. Þær voru gerðar í menntamálaráðherratíð Sverris Hermannssonar og einnig Birgis Ísl. Gunnarssonar en voru stöðvaðar. Framsfl. stöðvaði það í menntamálaráðherratíð Sverris Hermannssonar. Í tíð Birgis Ísl. Gunnarssonar var einfaldlega ekki tími til þess að ljúka málinu. En frv. hafði verið samið.
    Ég veit ekki hvort ég á að vera að eyða tíma í að svara nokkru sem kom fram hjá hv. þm. Guðrúnu Helgadóttur, hún er ekki í salnum og ég get svo sem spjallað við hana prívat um það sem hún nefndi í sinni ræðu. En hún kom, eins og raunar fleiri hafa gert, nokkuð inn á hvar ætti að finna námsmönnum stað í húsbréfakerfinu ef þessi breyting næði fram að ganga. Við höfðum óskað eftir því við Húsnæðisstofnun ríkisins að reiknuð yrðu einhver dæmi fyrir okkur og ég var rétt í þessu að fá í hendur álit Húsnæðisstofnunar sem ég hef ekki haft tækifæri til þess að skoða en ég get aðeins skýrt frá hér í örstuttu máli og tekið dæmi sem hér eru sýnd að vitanlega hefur þetta áhrif á húsbréfakerfið eða möguleika manna til þess að komast inn í það. Í dæmum sem hér eru reiknuð er gengið út frá þeim sömu forsendum og eru í frv., þ.e. 3% vextir, endurgreiðslutíminn fjórfaldur námstími, endurgreiðslur hefjist einu ári eftir námslok og hámarkið 4% fyrstu fimm árin og 8% síðar. Þá sé ég hér dæmi þar sem gengið er út frá vissum forsendum, fjölskyldustærð fjórir, námstími fjögur ár, fjárhæð námslána 2 millj. og íbúðakaup eigi sér stað fimm árum eftir námslok. Laun séu 200 þús. og hámarksíbúðarverð fyrir breytingar 7--8 millj. kr. og eigið fé 2 millj. þá fer þetta niður, þetta hámarksíbúðarverð úr sem sagt 7--8 niður í 6,5--7 millj. Ég veit að það er erfitt að nema svona tölur þegar þær eru lesnar hratt. Það er hérna annað dæmi þegar laun eru þau sömu en eigið fé 1 millj. Hámarksíbúðarverð fyrir breytingar 5--6 millj. að það færi aftur niður í 4--5 millj. Þannig að þetta hefur vissulega áhrif. En mér hefur ekki unnist tími til að skoða þetta frekar.
    Ég skildi orð hv. þm. Guðrúnar Helgadóttur svo að hún vildi gjarnan greiða fyrir því að málið kæmist til nefndar með formlegum hætti núna og treysti því, eins og hún orðaði það, að ráðherra hefði ekki verið að plata þegar ég sagðist tilbúinn til þess að skoða ýmis atriði sem komið hefðu fram í máli manna. Ég vil að það sé alveg ljóst að ég hafði ekki uppi neinar blekkingar þegar ég beindi þeim tilmælum til hv. menntmn. að hún tæki til alvarlegrar íhugunar ýmislegt af því sem hér hefur komið fram í máli manna og sumt af því hef ég beðið um að verði reiknað út af starfsmanni nefndarinnar. Ég hef ekki fengið þá útreikninga í hendur en ég vona að þeir komist til hv. menntmn.
    Hv. þm. Finnur Ingólfsson talaði um 3. gr. og gerði grein fyrir sínum skoðunum varðandi hana, að hún yrði lagfærð og það gerði raunar líka hv. þm. Sturla Böðvarsson. Það mál verður kannað en ég hef lýst mínum skoðunum.
    Hv. þm. spurði líka þeirrar beinu spurningar hvers vegna væri verið að setja 3% vexti á námslánin og talaði um að þetta vaxtaleysi hefði verið framlag ríkisvaldsins. Ég tel mig hafa svarað hvers vegna er verið að leggja á vextina og ég hef líka nefnt það, sem ég veit að við hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir erum ekki sammála um, að bein aðstoð við námsmenn kemur fram í vaxtaleysi námslánanna á námstímanum og þar til endurgreiðslur hefjast. Hv. þm. Ingibjörg Sólrún rakti ágætlega í sinni ræðu hvaða tölur væri þar um að ræða en við erum þar hins vegar ekki sammála.

    Hv. þm. Finnur Ingólfsson sagðist ekki hafa heyrt svar mitt við þeirri spurningu hvort ég teldi koma til greina annað endurgreiðslufyrirkomulag hjá þeim sem setjast að erlendis. Ég svaraði því þannig að það væri sjálfsagt að athuga það en ég lýsti miklum efasemdum um að fara inn á þá braut.
    Ég er búinn að svara spurningunni um það hvort hið félagslega tillit hverfi alveg. Það kom fram í ræðu hv. þm. Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur. Ætlunin er að Þessi heimild verði hjá stjórn lánasjóðsins og ég hef rætt það og ég hef heyrt kröfur manna hér um að þetta verði áfram í lögum.
    Ég held, herra forseti, að ég hafi komið að flestum þáttum sem hér hafa verið nefndir en viðurkenni þó að ég fór nokkuð hratt yfir sögu í von um að það yrði ekki tekið illa upp þótt ég reyndi eftir megni að stytta mál mitt.